Stýrivaxtahækkun Seðlabankans hefur vakið umræðu og fordæmingu. Fólk hefur stigið fram og lýst vanþóknun sinni á ákvörðuninni. Ég hef spurt á hvaða grundvelli mótmælin séu byggð og þá verður oft fátt um svör. Einna helst er vísað í vaxtabyrði fyrir almenning. Ef maður svo spyr hvort fólk hafi einhver gögn sem styðji það viðhorf að stýrivaxtahækkunin hafi valdið heimilunum óásættanlegum kostnaði verður aftur fátt um svör.
Í þessu sambandi má benda á að breytingar á stýrivöxtum hafa lítil sem engin áhrif á húsnæðisvexti. Þetta er eitthvað að breytast með því að fólk velur að taka lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum – en það er þó ennþá aðeins mjög lítill hluti íbúðalána. Breytingar á stýrivöxtum hafa áhrif á yfirdráttarvexti og vexti af greiðslukortaskuldum svo og öðrum skammtímaneyslulánum.
„Óásættanlegur“ er þarna lykilhugtak – því stýrivaxtahækkunin var gerð til að bregðast við aðstæðum – þ.e. lækkandi gengi íslensku krónunnar. Viðbrögð Seðlabankans við gengisþróun síðustu mánaða eru því mjög mikilvæg fyrir heimilin og eðlilegt að fólk hafi skoðanir á málinu.
Verra er ef skoðanirnar byggja ekki á staðreyndum heldur einhverjum „algildum sannleika“ sem allir gleypa sem réttan – án þess að hafa nokkuð til að byggja á. Ef við ætlum að taka ákvarðanir um lykilmál með „aþþíbara“ rökum – þá erum við á vondri vegferð.
Nokkrar leiðir
Við hefðum getað valið um nokkrar leiðir. T.d. hefði Seðlabankinn getað látið gengið afskiptalaust og ekki gripið til neinna ráðstafana. Væntanlega hefði gengið sigið meira og verðbólguþrýstingur aukist. Aukin verðbólga er fljót að hafa áhrif á afkomu heimila og þá bæði þeirra sem skulda og skulda ekki.
Við hefðum líka geta valið að nota eitthvað af gjaldeyrisvaraforða okkar til að verja gengið – en það hefði þýtt að við værum að nota sameiginlega sjóði okkar til að „falsa gengið“ þ.e. reyna að láta líta út fyrir að krónan sé verðmeiri en hún er. Það minnir dálítið á „Kaupthinking“. Gallinn við stórfelld inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði er að þeir sem hafa einhverjar „innherjaupplýsingar“ og aðgang að fjármagni myndu umsvifalaust nota tækifærið og kaupa „niðurgreiddan“ gjaldeyri og flytja úr landi til þess svo eins að flytja peningana aftur til landsins þegar bankinn gefst upp á að verja gengið og það fellur. Þannig vinna braskararnir á kostnað almennings.
Síðasta vopnið í vopnabúri Seðlabankans hefði verið að beita gjaldeyrishöftum – Þ.e. takmarka útflæði á gjaldeyri. Það er tæki sem má nota til að verjast meiri háttar áföllum – en varasamt að grípa til þess til að mæta tímabundnum sveiflum og það hefði grafið mjög undan tiltrú á gjaldmiðlinum og því mögulega veikt gengi krónunnar til lengri tíma.
Tilgangur stýrivaxtabreytinga er að hafa áhrif á efnahagslífið og væntanlega að mati þeirra sem hafa ákvörðunarvaldið hverju sinni – til góðs. Þannig á lækkun stýrivaxta að örva fjárfestingu og hvetja til eyðslu en hækkun stýrivaxta er til að draga úr eyðslu og fjárfestingu og vinna gegn verðbólguþrýstingi. Þetta er svona einhver allsherjar þumalputtaregla um heiminn. Hærri vextir hvetja til sparnaðar og lægri vextir hvetja til fjárfestinga.
Ísland hefur einhverja sérstöðu með sinn „örgjaldmiðil“. Erlendir fjárfestar hafa leitað til landsins eftir hærri vöxtum en bjóðast í nágrannalöndum og innstreymi fjármagns hefur þannig styrkt gengi krónunnar. Íslenska krónan hefur því styrkst undanfarin ár með aukningu í ferðamennsku og innflæði af lánsfé. Styrking á gengi krónunnar hefur skilað sér í auknum kaupmætti hér á landi og þeirri aukningu viljum við auðvitað halda.
Á síðustu mánuðum hefur olíuverð hins vegar farið hækkandi allt til októberbyrjunar, en þá fór verð að falla aftur og er nú komið á svipaðan stað og fyrir ári. Þessar sveiflur í olíuverði hafa haft áhrif á afkomu flugfélaga eins og flestir vita. Það hafa því verið sviptingar á mörkuðum í haust og tiltrú fjárfesta á Íslandi hafa eitthvað daprast. Þegar óvissa um kjaraviðræður vetrarins bættust við voru fjárfestar mögulega orðnir órólegir og farnir að færa sig úr landi með fjárfestingar.
Með sveiflum á gjaldeyrismörkuðum í haust og veikingu krónunnar voru verðbólguvæntingar komnar í ca 3,5- 4% - þ.e. sú verðbólga sem aðilar á markaði bjuggust við. Á sama tíma voru stýrivextir 4,25% þannig að stýrivextir Seðlabankans voru aðeins um prósenti yfir verðbólguvæntingum.
Ómarktækur samanburður
Í umræðunni síðustu daga hefur oft verið vitnað til þeirra landa „sem við viljum miða okkur við“ sem er góðra gjalda vert. Nema hvað ekkert þeirra landa nota íslenska krónu sem gjaldmiðil. Samanburðurinn verður því harla ómarktækur.
Fólk hefur vísað m.a. til neikvæðra vaxta í Svíþjóð og Sviss. Málið er m.a. að Svíþjóð fór í neikvæða stýrivexti 2015 til að takast á við „botnfrosið“ efnahagslíf og til að koma af stað „verðbólgu“. Sviss glímir við of hátt gengi gjaldmiðilsins og er því að reyna að bægja frá sér frekara innstreymi á fjármagni. Svíar eru farnir að tala um hækkun stýrivaxta.
Nú er ég bara leikmaður á þessu hagfræðisviði en mér er alveg ómögulegt að meta það hversu mikil áhrif 0,25% hækkun stýrivaxta mun hafa á hag heimila landsins. Ég veit að mínir húsnæðisvextir sem eru þunginn af mínum vaxtakostnaði – munu ekki breytast. En einnig að vextir á kortalánum og yfirdrætti munu hækka. En hvernig samsetningin er fyrir aðra – veit ég ekki. Þetta eru tölur sem við þurfum að sjá og meta – og eins hvað t.d. 1% í verðbólga myndi kosta heimilin.
Við myndum sjálfsagt öll vilja lága verðbólgu, hátt gengi, lága vexti á lánin okkar og góða ávöxtun á fjárfestingar okkar. Og umfram allt traust og öruggt efnahagslíf. Síðustu ár hafa öll vötn fallið með okkur en mögulega erum við á vatnaskilum nú. Það er því ekki víst að við fáum allt það sem við viljum í þessu sambandi og því er nauðsynlegt að við höfum einhverja forgangsröð – hvað viljum við helst verja ?
Seðlabankinn virðist reyna að verja verðbólgumarkmið sín og Peningastefnunefnd bankans segir í áliti sínu 7. nóvember sl. að bankinn hafi bæði vilja og tæki til að halda verðbólgu innan markmiðs til lengri tíma. Enn fremur segir í áliti nefndarinnar að haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka – muni það kalla á enn harðari aðgerðir bankans – s.s. enn meiri vaxtahækkanir.
Mig grunar að umræðum um stýrivexti vetrarins sé því hvergi nærri lokið og óskandi væri að þeir sem vilja gera sig gildandi í þeirri umræðu og hafa yfir tækjum að ráða – láti gera fyrir sig samantekt um áhrif vaxtahækkana á heimilin og þá ekki síst þeirra sem verst standa.
Í framhaldinu má benda á að íbúðalánavextir hafa sennilega ekki verið jafnlágir á Íslandi síðustu 40 ár – en lífeyrissjóðir landsmanna hafa þar haft mikilvæga forystu og nú bjóðast fastir verðtryggðir vextir allt niður í 3,5% og óverðtryggðir vextir niður í 6%. Eflaust má gera enn betur – en fyrir okkur sem vorum að borga yfir 7% verðtryggða vexti á húsbréfum fyrir 30 árum – er þetta jákvæð þróun. Aðrir munu benda á nágrannalöndin og vaxtakjör sem þar bjóðast – við því eru því miður engin svör önnur en að þar búa menn ekki við íslenska krónu og ævintýralega óstöðugt efnahagsumhverfi.