Í byrjun mánaðarins tókst demókrötum að ná meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í fyrsta sinn í átta ár. Sama kvöld tapaði flokkurinn þingmönnum í öldungadeildinni og varð fyrir vonbrigðum í ríkisstjórakosningum í ríkjum á borð við Flórída, Georgíu og Ohio. Þótt þessar vendingar hafi ef til vill fengið mesta athygli var þetta ekki það eina sem gerðist. Demókratar náðu völdum og lagabreytingar voru samþykktar í lykilríkjum með hætti sem mun hafa mikil áhrif á pólitískt landslag næstu árin, að minnsta kosti til ársins 2030.
Aukin þátttaka í kosningum?
Tony Evers og Gretchen Whitmer, sem bæði eru demókratar, sigruðu ríkisstjórakosningarnar í Wisconsin og Michigan og flokksbróðir þeirra, Tom Wolf, náði endurkjöri í Pennsylvaníu. Þetta voru ríkin þrjú sem komu Donald Trump í Hvíta húsið í kosningunum 2016 en hann sigraði þau naumlega með samtals tæplega 78.000 atkvæða mun. Michigan hefur haft slæmt orð á sér vegna lélegra reglna um framkvæmd kosninga: kjósendur þurfa að skrá sig að minnsta kosti 30 dögum fyrir kjördag, erfitt er að fá leyfi til að kjósa utan kjörfundar og raðir, sem myndast á kjörstað, eru með þeim lengstu í Bandaríkjunum.
Á þessu verður væntanlega breyting: Kjósendur í Michigan samþykktu stjórnarskrárbreytingar sem taka á öllum þessum vandamálum og ættu að auðvelda fólki að nýta kosningarétt sinn. Gretchen Whitmer, sem tekur við ríkisstjórastólnum á nýársdag, gerði sams konar breytingar að einu af aðaláhersluefnum sínum í liðinni kosningabaráttu. Fyrir nokkrum árum settu repúblikanar í Wisconsin mjög ströng lög um skilríki sem þarf að framvísa á kjörstað. Slíkar reglur, líkt og fyrrnefndar reglur í Michigan, leiða til minni kjörsóknar og þá einkum hjá minnihlutahópum en þeir eru mun líklegri til að kjósa demókrata.
Mun færri Wisconsin-búar kusu í kosningunum 2016 en í fyrri kosningum og var fækkunin mest á svæðum þar sem blökkumenn eru í meirihluta. Eitt af kosningaloforðum Tony Evers, verðandi ríkisstjóra Wisconsin, var að snúa þessari þróun við og auðvelda almenningi að nýta kosningarétt sinn. Og þegar Tom Wolf náði endurkjöri sem ríkisstjóri Pennsylvaníu varð ljóst að metnaðarfull áætlun hans um að greiða úr annmörkum á framkvæmd kosninga í ríkinu heldur velli. Kjósendur í Flórída samþykktu að leyfa fyrrverandi föngum að kjósa frá og með 2020 og við það bætast rúmlega milljón kjósendur við kjörskrá. Gömlu reglurnar bitnuðu einkum á minnihlutahópum þar sem þeir eru mun líklegri til að vera fangelsaðir. Þótt Flórída sé þriðja fjölmennasta ríki Bandaríkjanna er oft mjótt á munum í kosningum þar, til dæmis skildu aðeins 10.033 atkvæði milli frambjóðenda til öldungadeildarinnar í ár og árið 2000 munaði 537 atkvæðum á George W. Bush og Al Gore.
Þetta þýðir auðvitað ekki að demókratar eigi sigur vísan gegn Trump í þessum ríkjum árið 2020, og þetta þarf heldur ekki endilega að þýða að þeir hefðu unnið árið 2016 hefðu þessar breytingar gengið í gegn fyrr. Fjölmargir ólíkir þættir hafa jú áhrif á kosningar. Þó er ljóst að þetta eru góðar fréttir fyrir lýðræði þar sem auðveldara verður fyrir íbúa ríkjanna að ganga til kosninga — og þá sérstaklega fyrir minnihlutahópa sem verða helst fyrir barðinu á ströngum reglum um kosningar. Ef þetta leiðir til aukinnar kjörsóknar minnihlutahópa mun það eitt og sér hjálpa demókrötum — en ómögulegt er að vita hvort það muni hafa nokkur áhrif á niðurstöður kosninganna 2020.
Kjördæmahagræðing
Helstu langtímaáhrif kosninganna 2018 verða þó ef til vill á sviði kjördæmaskipanar. Árið 2020 fer fram opinbert manntal í Bandaríkjunum — en það gerist á 10 ára fresti — og fulltrúadeildarþingsætum verður úthlutað milli ríkjanna í samræmi við fólksfjölda. Vegna fólksfjöldabreytinga munu New York og Illinois sennilega tapa sætum en Texas og Flórída bæta við sig, svo dæmi séu tekin. Í kjölfarið mun ráðamönnum í hverju ríki fyrir sig gefast tækifæri til að teikna öll fulltrúadeildarkjördæmi ríkisins upp á nýtt. Margir ríkisstjórar og ríkisþingmenn sem náðu kjöri í nýliðnum kosningum verða enn við völd og munu koma að þessu skipulagi.
Þegar kjördæmin eru teiknuð upp á nýtt hafa ráðamenn tilhneigingu að teikna þau þannig að þau henti sínum flokki á kostnað hins flokksins. Það er ýmist gert með því að þjappa sem flestum kjósendum andstæðingsins í eitt og sama kjördæmið eða með því að dreifa þeim milli sem flestra kjördæma þannig að þau verða stundum stórfurðuleg í laginu. Athæfið er kallað gerrymandering (sem hefur stundum verið þýtt sem kjördæmahagræðing) og er ekki nýtt af nálinni — það er raunar nefnt eftir Elbridge Gerry sem var ríkisstjóri Massachusetts 1810-1812.
Repúblikanar gjörsigruðu kosningar víða í Bandaríkjunum árið 2010 og gátu því ákvarðað kjördæmaskipan fyrir fulltrúadeildina og ríkisþing sér í hag. Þetta gerðist til dæmis með mjög afgerandi hætti í Ohio, Michigan, Norður-Karólínu og Pennsylvaníu. Demókratar eru ekki alsaklausir af athæfinu — til dæmis eru kjördæmi Maryland með þeim verstu hvað varðar kjördæmahagræðingu. Athæfið hefur þó á heildina litið gagnast repúblikönum umtalsvert á síðustu árum og hefur raunar aldrei verið jafnöfgafullt og í dag, meðal annars vegna þess að nýlegar framfarir varðandi upplýsingaöflun um kjósendur hafa auðveldað ráðamönnum að vita hvers konar kjördæmaskipting hagnast þeirra flokki. Þetta leiddi til þess að demókratar þurftu að fá að minnsta kosti 5% fleiri atkvæði en repúblikanar á landsvísu til að eiga möguleika á að ná fulltrúadeildinni í ár. Til dæmis fengu demókratar rúmlega 1% fleiri atkvæði á landsvísu árið 2012 en aðeins 46% þingsætanna. Þeim tókst takmarkið samt sem áður í nýliðnum kosningum — demókratar virðast hafa fengið um 8% fleiri atkvæði á landsvísu og um 54% þingsætanna.
Núna er útlit fyrir breytingar víða — í stað þess að stjórnmálamenn sjái um endurskipulagningu kjördæmanna verður hún sums staðar í höndum óháðra eða þverpólitískra nefnda. Ferlið er nú þegar með þeim hætti í Kaliforníu, Arizona og Washington-ríki svo dæmi séu tekin. Í nýliðnum kosningum samþykktu kjósendur í Colorado, Missouri, Michigan og Utah lagabreytingar um slíkar breytingar sem ættu að minnka líkur á kjördæmahagræðingu í ríkjunum — og í maí voru sams konar breytingar samþykktar í Ohio. Í Pennsylvaníu höfðu breytingar á kjördæmaskipan þegar gengið í gegn þökk sé nýlegum dómi í hæstarétti ríkisins. Demókratar fengu 53% atkvæða til fulltrúadeildarinnar í Pennsylvaníu og helming þingsæta sem er mikil breyting frá síðustu kosningum: árið 2016 fengu demókratar 48% atkvæða en aðeins 27% þingsæta. Ef þróunin í öðrum ríkjum verður svipuð og í Pennsylvaníu gætu komandi kosningar til fulltrúadeildarinnar orðið mun sanngjarnari næsta áratuginn og þingsæti hugsanlega í meira samræmi við atkvæðafjölda en áður hefur verið.