Síðustu viku höfum við upplifað fjaðrafok út af barnabók. Ég ætla svo sem ekki að hella mér út í baráttu hjúkrunarfræðinga fyrir viðurkenningu á þeirra mikilvæga starfi í þessum pistli enda eru þeir fullfærir um það sjálfir. Mig langar að ræða viðbrögðin við hófstilltri gagnrýni þeirra. Og hér skrifar ekki hlutlaus áhorfandi heldur barnabókahöfundur þeirrar gerðar sem finnst barnabækur með því mikilvægasta í heimi.
Nokkur dæmi frá virkum í athugasemdum við umfjöllun Vísis:
- „Þvilik minnimáttarkennd í íslenskum konum endalaust, vona að hún verði kærð fyrir þessa myndbirtingu.“
- „Þaaað er bara hægt að væla yfir öllu í dag“
- „Ótrúleg leiðindi endalaust, áfram fyrr og nú Birgitta Haukdal!“
- „Ef þetta er það sem hjúkkur hafa tíma til að missa sig yfir þá held èg að þær hafi það bara gott.“
- „Heitir þetta ekki SKÁLDSKAPUR lengur??? Bók er EKKI raunveruleiki krakkar mínir...“
- „Hvað er málið ? þétta er barna bók og er án efa góð bók fyri börnin“
Einmitt. Konur væla og þetta er „bara barnabók“. Dómstóll götunnar hefur talað.
Við sem skrifum stundum fyrir börn (það er ekki hægt að hafa barnabókaskrif að aðalstarfi í landi þar sem aðeins 4500 börn fæðast á ári) og reynum að gera eins vel og við getum erum ekki alveg sammála. Við vitum að bækur okkar fara víða og hitta allskonar börn, á ólíkum aldri og jafnvel ólíkum tímum. Við gerum okkur grein fyrir því að við höfum aðgang að óhörðnuðum og oft áhrifagjörnum börnum og unglingum og með orðum okkar og myndum höfum við jafnvel, þegar best tekst til, varanleg áhrif á barnssálina. Okkur, eða öllu heldur bókunum okkar, er hleypt inn í barnaherbergin, skólastofurnar, inn í kósístundirnar og upp í rúm fyrir svefninn. Ef við gerum okkar allra besta gerum við kannski einhver börn að betra fullorðnu fólki í framtíðinni. Það er allavega morgunljóst að hvorki Astrid Lindgren né Guðrún Helgadóttir hafa gert heiminn að verri stað.
Stundum er því haldið fram að það þurfi heilt þorp til að ala upp hvert barn. Það er rétt og við þurfum öll að gera skyldu okkar. Ábyrgð þess sem fær að tala við börn milliliðalaust – kenna þeim, sýna þeim, fræða þau, kæta þau og græta, er mikil. Það er ekki sjálfgefið að fá slík tækifæri og í því felst vald til áhrifa sem enginn ætti að vanmeta. Það er nefnilega ekkert „bara“ við barnabækur.
Í því ljósi er undarlegt hvað barnabækur og barnamenning fær oft litla og ófaglega gagnrýni. Sum síðustu ár hefur vart birst gagnrýni um barnabók í sumum dagblöðum þótt flestir fjölmiðlar virðist vera að taka sig á núna. Það er samt eins og enginn þori almennlega að taka faglega á barnabókum og greina þær almennilega. Eins og höfundar þeirra séu börn sem ekki megi særa. Höfundarnir eru þó í flestum tilfellum fullorðið fólk og málefnaleg gagnrýni er ekki árás á höfundinn. Ár eftir ár koma líka út barna- og unglingabækur hér á landi sem eru varla pappírsins virði en enginn virðist taka eftir því fyrr en einhver „smáatriði“ eins og úreltar staðalímyndir hjúkrunarfræðinga eða réttlæting á kynferðisofbeldi dúkka upp á samfélagsmiðlum.
Barnabókin hefur bæði verið í sókn og örlítilli krísu nýverið – eins mótsagnakennt og það kann að hljóma. Aldrei hafa barnabækur verið í meiri og harðari samkeppni við aðra afþreyingu. Nú fá börn – sem áður hefðu stytt sér stundir með bók – spjaldtölvu eða síma í hendurnar frá því þau eru pínulítil. Þessi harða samkeppni hefur þó líka verið brýning og sjaldan hafa góðar barnabækur verið betri. Barnabókaútgáfa örþjóðar stendur þó sjaldnast undir sér og þá freistast sumir til að stytta sér leið. Það er víða sparað. Stundum er yfirlestri verulega ábótavant, umbrot viðvaningslegt og myndskreytingar keyptar af erlendum teiknurum sem búa í löndum þar sem verðlag er lægra og listamennirnir sætta sig við minna fyrir sína vinnu. Í byggingariðnaði er slíkt kallað félagsleg undirboð. Barnið fær svo bókina og enginn pælir meira í því.
Bókin sem mest hefur verið til umfjöllunar síðust daga er höfundaverk tveggja kvenna, textahöfundar og myndhöfundar. Engu að síður er bara einn „höfundur“ kynntur til sögunnar á kápu og auglýsingum. Sá íslenski. Armensku konunnar, Anahit Aleqsanian, sem teiknar myndirnar í bækurnar um Láru, er í engu getið á kápu bókarinnar. Hún er ósýnileg og þótt hennar sé vissulega getið á upplýsingasíðu bókarinnar er höfundarrétturinn skrifaður á Birgittu Haukdal.
Armenskur teiknari er ekki endilega ómögulegur. Uppruni hans myndi ekki skipta neinu máli ef hann væri að myndskreyta bók sem gerðist í geimnum eða í fantasíuveröld. Hann væri líka sennilega miklu hæfari en íslenskir teiknarar til að myndskreyta barnabók sem gerðist í Armeníu. Þar er hann öllum hnútum kunnugur og þyrfti ekki að leggjast í gríðarlega rannsóknarvinnu, eins og íslenskur teiknari þyrfti að gera, til að komast skammlaust frá verkinu. En armenskur teiknari er ekki best til þess fallinn að myndskreyta bók sem gerist á Íslandi og er skrifuð fyrir íslensk börn. Til þess þyrfti hann að vinna gríðarlega rannsóknarvinnu eða heimsækja landið. Fátt bendir til þess að sú rannsóknarvinna hafi verið unnin fyrir bækurnar um Láru þótt sjá megi örlitla framför í nýrri bókunum. Þegar gefnar eru út barnabækur fyrir íslensk börn sem eiga að gerast hér á landi í samtímanum verður myndheimurinn að sýna það. Annars erum við að gefa ungu lesendunum þau skilaboð að þeirra veruleiki sé ekki nægilega merkilegur í sögu.
Nígeríski rithöfundurinn Chimamanda Ngozi Adichie segir frá því í fyrirlestri sínum „The Dangers of a Single Story“ eða „Hættan við einsleita sögu“ þegar hún, þá sjö ára gömul, fór að skrifa sögur, þá fjölluðu þær allar um hvít og bláeygð börn sem sem átu epli, drukku engiferöl, léku sér í snjónum og töluðu um veðrið og hve ljúft það væri ef sæist til sólar. Hennar eigin sögur endurspegluðu því ekki hennar reynsluheim heldur þær bresku og bandarísku barnabækur sem hún hafði aðgang að. Hún áttaði sig ekki á því að bókmenntir gætu fjallað um börn eins og hana sjálfa, börn sem léku sér undir brennheitri sól, snæddu mangó og höfðu aldrei séð snjó.
Alveg eins og börnin í Nígeríu eiga rétt á barnabókum um sig eiga íslensk börn rétt á að lesa bækur sem endurspegla uppruna þeirra og samtíma – ekki af því að þær séu betri en aðrar bækur (þótt góðar íslenskar barnabækur séu sannarlega á heimsmælikvarða) eða að Ísland sé betra en önnur lönd – það er það ekki.
Við eigum bara öll rétt á sögum um okkur og þess vegna gefum við út bækur á Íslandi.