Það heyrist oft að Ísland sé svo mikil hinsegin paradís. Að hér búum við í svo miklu fordómaleysi að það sé nú ekkert mál fyrir fólk að vera það sjálft. Hinsegin fólk lifir því hér í þvílíku yfirlæti, með öll þau félagslegu og lagalegu réttindi sem þau þurfa. Hverjum er ekki sama þótt að Gylfi Ægirs sé alltaf að æpa eitthvað um nektarsýningar og typpasleikjóa? Við vitum öll að hann talar ekki fyrir samfélagið—ekki frekar en hann Jón Valur, sem klikkar nú ekki á að láta í sér heyra þegar hinsegin mál eru rædd á kommentakerfum landsins. En það er allt í lagi, vegna þess að við erum öll mætt ár hvert á Hinsegin daga með transfóbíska frænda okkar og regnbogafánar eru í öllum gluggum. Erum við ekki bara með þetta?
Fólk sem fylgist grannt með heims pólítík ætti að hafa orðið vart við ákveðið bakslag þegar kemur að mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Víðsvegar um heim eru einstaklingar að komast til valda sem eru svo sannarlega ekki með velferð hinsegin fólks í fyrirrúmi og má þar helst nefna nýkjörin forseta Brasilíu, Bolsonaro, er stoltur af því að hata hinsegin fólk. Hvergi eru fleiri morð framin á trans fólki heldur en í Brasilíu og er því ómögulegt að ímynda sér þann ótta sem hinsegin samfélagið lifir við þar í landi.
Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016, og hefur þegar byrjað að skerða réttindi hinsegin fólks, kvenna og annara hópa þar í landi. Nýlega lak minnisblað úr herbúðum Hvíta hússins, en þar kom í ljós að fyrirhugaðar áætlanir eru að breyta skilgreiningi á kyni, sem myndu kerfisbundið þurrka út tilvist trans og intersex fólks í lagalegum skilningi.
Í Bretlandi sætir trans fólk mjög fjandsamlega fjölmiðla umræðu, þar sem áætlunar um lagabreytingar hafa vægast sagt valdið því að íhaldssöfl hafa risið upp á afturlappirnar og byrjað að beita sér gegn þeirra réttindum. Trans fólki er líkt við kynferfisafbrotamenn fyrir það eitt að vilja nota klósett samkvæmt eigin kynvitund, trans fólk er sakað um það að tæla (e. grooming) ung börn í kynleiðréttingarferli og hatursglæpir hafa færst í aukana. Í mars síðastliðinn var 36 ára svört trans kona að nafni Naomi Hersi stungin til bana í Hunslow í Bretlandi.
En þetta er auðvitað ekki að hafa nein áhrif hér á Íslandi, er það?
Laugardaginn 10. nóvember síðastliðinn var trans konu vísað út af skemmtistað fyrir klæðaburð sem var ekki við hæfi, en haft var eftir starfsfólki að þau gætu nú ekki „hleypt inn gaur í kellingapels.“ Tveimur vikum áður var svo ráðist á trans konu á Lækjartorgi fyrir það eitt að vera trans. Í júlí síðastliðinn fór Elmar Bjarnason misfögrum orðum um trans fólk og sagði þau haldin geðsjúkdóm og reyndi að ýfa upp hræðslu gagnvart þeirri þjónustu sem trans unglingum er veitt hérlendis.
Í lagalegum skilningi er Ísland verulega farið að dragast aftur úr. Samkvæmt ILGA-Europe regnbogakortinu situr Ísland i 16. sæti með 52% af þeim lagalegu réttindum sem þarf að tryggja svo hinsegin fólk lifi við lagalegt jafnrétti. Trans fólk er ennþá sjúkdómsvætt innan íslensks heilbrigðiskerfis og „lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda“ kveða á um að trans fólk þurfi að vera greint með „kynáttunarvanda“, sem er þýðing á nú úrelta hugtakinu „gender identity disorder“ sem hefur svo síðan breyst í „gender dysphoria“ (ísl. kynama) og nú nýlega í „gender incongruance“.
Samkvæmt íslenskum lögum þarf trans fólk að vera í formlegu ferli í að minnsta kosti 18 mánuði og lifa í „gagnstæðu kynhlutverki“ (hvað svo sem það nú þýðir) í eitt ár áður en þau geta breytt um nafn og kyn á skilríkjum, sem veldur ýmsum vandamálum þegar trans fólk sækir sér þjónustu eða ferðast erlendis. Lögin hafa fljótt orðið úrelt, en í nýjustu útgáfu ICD er það ekki lengur skilgreint sem geðsjúkdómur að vera trans. Nú hafa málefni trans fólks verið færð í kynheilsu kafla ICD og er sú þjónusta veitt á þeim grundvelli að lifa í röngu kyni veldur fólki of miklum ama til að geta lifað mannsæmandi lífi. Þjónustan er því veitt á þeim grundvelli að hún sé lífsnauðsynleg til að koma í veg fyrir djúpstæðan ama og alvarleg andleg veikindi og sjálfsvíg.
Réttindi intersex fólks hérlendis eru engin, og þarf intersex fólk að sæta óafturkræfar og jafnframt ónauðsynlegar aðgerðir á kyneinkennum sínum. Einungis eru sárafá tilfelli þar sem brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast inngripa, en í langflestum tilfellum er um að ræða fegrunaraðgerðir eða aðgerðir til að normalísera kynfæri fólks og/eða hormónaframleiðslu. Aldrei er um að ræða bara eina aðgerð og er intersex fólk gert háð heilbrigðiskerfinu þar sem sársaukafullar og langdregnar spítala innlagnir verða daglegt brauð af barnæsku þeirra og jafnvel lífi þeirra almennt.
Það hefur einnig eflaust ekki farið framhjá neinum að Ísland þarf að standa sig mun betur í málefnum hælisleitanda og flóttafólks, en reglulega er fólki vísað úr landi þrátt fyrir að það sé í raun verið að senda fólk í lífshættulegar aðstæður. Þegar kemur að hinsegin fólki er lítið um reglugerðir eða lög sem sérstaklega verndar hinsegin fólk sem hælisleitendur eða flóttafólk.
Það er því víða pottur brotinn í íslensku samfélagi þegar kemur að félagslegum og lagalegum réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Ef að Ísland vill halda í þá ímynd að vera framsækið og fordómalaust land, þá þarfum við svo sannarlega að hífa upp um okkur buxurnar. Tryggja þarf trans fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem er í samræmi við fremstu verklagsreglur og þjónustu á því sviði og þarf trans fólk að ráða sjálft yfir eigin örlögum. Sömuleiðis þarf að tryggja að intersex fólk sæti ekki óafturkræfar og ónauðsynlegar aðgerðir og geti sjálft tekið ákvarðanir um hvers konar – ef einhverjar – aðgerðir það vill undirgangast, þegar það hefur aldur til.
Skólar landsins þurfa að stuðla að virkri hinsegin fræðslu og stofananir þurfa að setja sér skýrar jafnréttisstefnur sem taka sérstaklega á hinsegin málefnum, þar sem ekki er liðið mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Tryggja þarf að starfsfólk sem veiti þjónustu fái þjálfun og kunni til verka. Tryggja þarf að lögregla taki á slíkum málum af vandfærni og þau séu jafnframt tekin alvarlega.
Þingmenn og starfsfólk ráðuneyta þurfa að beita sér fyrir lagalegum réttindum hinsegin fólks, og tryggja að þeirra raddir ráði ferðinni og móti þau lög og reglugerðir sem þarf að laga til að tryggja hinsegin fólki lagaleg réttindi. Ekki er nóg að einungis segjast ætla að breyta hlutunum eða draga í efa mikilvægi breytinga, heldur þarf að sjá til þess að þær verði að veruleika.
Það allra mikilvægasta að mínu mati er að við sem samfélag tökum sameiginlega ábyrgð á fordómum og mismunun, og gerum okkar allra besta að berjast gegn þeim í okkar hversdagslega lífi, á vinnustöðum og jafnvel í jólaboðum hjá transfóbíska frænda okkar.
Ekki láta hinseginfóbíu líðast – láttu í þér heyra. Við þurfum á stuðning þínum að halda, nú sem aldrei fyrr.