La société désire violemment une chose qu ́elle obtiendra ou qu ́elle n’obtiendra pas. Tout est là; tout dépend de l ́effort qu ́on fera et de l ́attention qu ́on accordera à des symptômes alarmants. Architecture ou révolution. On peut éviter la Révolution.
Samfélagið er haldið ofsafenginni þrá sem það fær, eða fær ekki, fullnægt. Á því veltur allt – á átakinu og athyglinni sem við veitum þessum váboðum. Arkitektúr eða bylting. Byltinguna er hægt að forðast.
Þannig hljóða síðustu orð Le Corbusiers í bók hans Vers une architecture, sem ég þýði sem Til móts við arkitektúr. Það skemmtilega við þennan titil er að „arkitektúrinn“, bæði í titlinum og í lokaorðunum hér að ofan, er margræður. Ef við höldum „til móts við arkitektúr“ með Le Corbusier, þýðir það þá að byggingarnar sem við höfum nú séu ekki arkitektúr? Hvað eru þær þá? Og í framlengingu af því: Höfum við þá aldrei átt arkitektúr? Og ef við höfum aldrei átt arkitektúr, og byggingarnar okkar eru ekki arkitektúr heldur eitthvað allt annað, ættum við þá að treysta þessum náunga, sem núna ætlar að sýna okkur arkitektúrinn sem við þráum svo mjög en höfum aldrei séð og vitum ekki hvað er?
Fyrsta enska þýðingin á titlinum, Towards a New Architecture, er alræmd fyrir að taka burt þessa margræðni; hér skautar þýðandinn framhjá vandamálinu og lætur sem Le Corbusier segi sem svo: „jújú, við eigum fullt af arkitektúr, en sá arkitektúr er úr sér genginn og okkur vantar sárlega nýjan.“ En það er ekki það sem Le Corbusier segir, hann segir bara að okkur vantar arkitektúr, punktur. Og þannig þurfum við að lesa bókina.
Þegar við gerum það, þá sjáum við þó að arkitektúr hefur verið til. T.d. áttu Grikkir til forna, samkvæmt Le Corbusier, arkitektúr, sjálft Parþenonhof. Michaelangelo skapaði líka arkitektúr í Róm síðendurreisnarinnar. Le Corbusier virðist líka sjá vísi að arkitektúr í ýmsum nytjahlutum, s.s. bílum, flugvélum og farþegaskipum, eins og því sem sjá má á forsíðunni. Innviðirnir sem verkfræðingar hanna, s.s. vegir og brýr, eru líka vísir að arkitektúr. Fyrir honum eru allir þessir hlutir meira hluti af samtímanum en arkitektúr sama samtíma. Arkitektar samtímans eru fastir í því sem hann kallar „stílunum“, sem er ekki það sama og hinn eini og sanni „stíll“. Stílarnir, fyrir Le Corbusier, eru „lygi“. Þeir leitast við að hylma yfir raunveruleikann í stað þess að hlutgera hann. „Stíll“ – í eintölu – er aftur á móti eilífur. Hann hlutgerir aðstæður þess samfélags sem hann verður til í. Og ekki nóg með það; hann hlutgerir samfélagið allt; framleiðsluaðferðir þess og verkaskiptingu, hugmyndir þess um alheiminn og stöðu manneskjunnar innan þess.
Sama hvað manni finnst um pólitík Le Corbusiers (sem var vafasöm— hann vílaði t.d. ekki fyrir sér að leggja fram drög fyrir Vichystjórnina), þá felst í þessari hugmynd, að arkitektúrinn eigi ekki að hylma yfir raunveruleikann heldur hlutgera hann, pólitísk ádeila á arkitektúr samtíma hans, og jafnvel okkar. Arkitektúr á ekki að vera til betrumbóta. Hann á ekki að „fegra hlutina“, svo gripið sé bókstaflega til íslensks orðasambands, heldur á hann að „tala hreint út“, einmitt með því að gera notendur hans meðvitaða um eigin stöðu.
Það er hægt að mislesa Le Corbusier og segja að samkvæmt kenningum hans geti bara verið ein útkoma í hverri stöðu, svipað og verkfræðingur sem velur bara eina súlnaþykkt eftir að hann hefur ákvarðað hvað hún þarf að bera. Svo er ekki. Verkfræðingur hefur úr mörgum burðarkerfum og jafnvel burðarefnum að velja, og hvert þessara kerfa ber með sér eigin tjáningu. Flugvél þarf annað hvort að geta flogið eða ekki, en eftir að búið er að tryggja að hún geri það, þá hefur hönnuðurinn mikið rými til að láta hana „tjá“. Útlitsmunurinn á orrustuflugvélum stríðenda seinni heimsstyrjaldarinnar er dæmi um þetta. Hlutirnir segja alltaf eitthvað umfram það sem þeim er ætlað, rétt eins og í tungumálið. Það er engin ein leið til að segja einn hlut, sama hversu einfaldur hann er. Það sama má segja um hús. Eftir að búið er að leysa þarfaplan, burðarþol, lagnir, loftræstingu, hljóðvist o.s.frv, þá er enn rými fyrir arkitektinn til að láta það segja eitthvað.
Þetta fær mig alltaf til að hugsa um atriðið í Seinfeld þar sem George Costanza útskýrir fyrir stefnumótinu sínu, Siena (nei ekki vaxlitnum) að klósettpappír sé bara á einn veg – „paper on a roll“ – sem mun aldrei breytast. Þegar hann segir Jerry og Elaine frá þessu segja þau hins vegar að þetta sé meiri vitleysan—hægt sé að fá klósettpappír í fleiri litum, fleiri þykktum, með ilmefnum, o.s.frv. Í þessu atriði spilar George hlutverk góða módernistans, á meðan Jerry og Elaine eru blygðunarlausir póstmódernistar. Sem sagt – það er hægt að láta húsin okkar líta út hvernig sem við viljum, rétt eins og klósettpappírinn, svo lengi sem nokkrum grundvallarforsendum sé fullnægt.
Þannig má snúa þessu öllu á haus og setja ljósleiðara í torfkofa (eins og kemur víst fyrir í einhverjum legendary Mið-Ísland skets sem ég hef aldrei komist í), eða klæða steinsteypt hús bárujárni og kvistgluggum. Og ef það er það sem fólk vill, sbr. íbúakosninguna í Selfossi núna í ágúst, hlutgerir þá ekki einmitt endurbyggða bárujárnshúsið á Selfossi, rétt eins og torfkofinn með ljósleiðarann, ekki einmitt samtímann með öllum hans þverstæðum? Lítur kapítalískt þróunarfélag ekki einfaldlega svona út í dag, í settlegu bárujárnshúsi með 150 ára sögu með sér í liði? Búið að skipta stálinu, glerinu og jeppanum fyrir bárujárn og reiðhjól?
I hear that you and your band have sold your guitars and bought turntables/
I hear that you and your band have sold your turntables and bought guitars/
… söng James Murphy í laginu sem drap indíið. Eru hvort tveggja arkitektúr í bókum Le Corbusiers, torfkofinn með ljósleiðarann og bárujárnsklædda þróunarfélagshúsið?
Ég myndi segja að svo sé ekki, því það sem Le Corbusier var að leita að var hið nýja í hverjum samtíma, hvort sem það var í þátíð eða nútíð. Ég endurtek: „Samfélagið er haldið ofsafenginni þrá sem það fær, eða fær ekki, fullnægt. Á því veltur allt á átakinu og athyglinni sem við veitum þessum váboðum. Arkitektúr eða bylting. Byltinguna er hægt að forðast.“ Le Corbusier var enginn byltingarsinni, hann vildi jú forðast hana. En til að forðast félagslega byltingu þurfti að bylta aðstæðum. Fyrir honum var arkitektúr samtíma hans ófullnægjandi. Hann neitaði honum um fullnægingu þrárinnar. En hvað ef okkar samtími þráir bara fortíðarbæ? Eða bara að breyta borg okkar og bæjum í leikmyndir fyrir útlendinga sem hingað sækja, svo lengi sem hann getur auðgast í leiðinni? Það er erfitt að finna svör við þessum spurningum hjá Le Corbusier, enda stendur oft varla steinn yfir steini í bókinni. Hún er púðurtunna, en hún er ansi ójöfn, og oft brjálæðislega margræð. Það er betra að lesa hana eins og ljóðabók en bók sem segir okkur hvernig arkitektar eiga að hana.
En það er þó margt sem hún getur kennt okkur. Kannski fyrst og fremst það, að til hafi verið tími þegar til voru arkitektar sem litu í kring um sig og hugsuðu að það sem þeir sáu var ófullnægjandi, en leituðu ekki eftir fyrirmyndum úr fortíðinni, heldur að því sem var nýtt í fortíðinni. Le Corbusier hefði aldrei komið til hugar að endurbyggja Parþenonhof, en það hindraði hann ekki í því að verja mörgum dögum í að mæla það og teikna, og verja í það heilum kafla í mest lesnu bók um arkitektúr allra tíma, til þess að koma aftur til Parísar og hefja þar magnaðasta höfundarverk 20. aldarinnar. Þessi arkitekt var andstæða þess sem oft er talað um sem arkitekt hins auða blaðs, núllpunktinn; þvert á móti eru fáir arkitektar sem höfðu hugsað jafn mikið og hann hvað hægt væri að læra af sögunni. Arkitektar, verktakar, stjórnmálamenn og þróunarfélög samtímans, hvar í heiminum sem er, gætu lært ýmislegt af því.
Höfundur hefur unnið lúshægt að þýðingu bókarinnar Vers une architecture í nokkur ár og bráðvantar útgefanda. Bókina má nálgast í fullum rétti á hinum magnaða vef franska þjóðarbókasafnsins, Gallica, hér.
Við vinnslu þessarar greinar notast höfundur við útgáfuna á vef Gallica: Le Corbusier: Vers une architecture. 11. útg. Paris: Les éditions G. Crès, 1925 (1923).