Undanfarnir dagar hafa verið mér erfiðir. Nógu erfiðir til þess að ég treysti mér ekki á Austurvöll í gær en þar kom fram í ræðu(m) að enginn þingmaður sem var gómaður á Klaustri við að líkja mér við sel og uppnefna mig Freyju Eyju hefði beðið mig afsökunar. Eina leiðin til þess að biðjast afsökunar á þessu ofbeldi af trúverðugleika og auðmýkt er, eins og ég hef þegar sagt, að gangast við gjörðum sínum og taka ábyrgð á þeim með því að segja af sér.
Seinni partinn í dag hringdi í mig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, þingmaður, fyrrverandi forsætisráðherra og siðast en ekki síst virkur þátttakandi í ofbeldisspjallinu á Klaustri. Hann hringdi til að biðjast afsökunar og jafnframt útskýra fyrir mér hvernig ég virtist hafa misskilið þetta allt. Í stuttu máli útskýrði hann fyrir mér að þau orð sem hefðu verið látin falla væru ekki fötlunartengd, eða til þess ætluð að gera grín að fötlun minni, heldur hefðu þau fallið vegna þess að pólitískar skoðanir mínar færu mjög í taugarnar á Gunnari Braga Sveinssyni, fyrrum utanríkisráðherra, „og fleirum“. En ekki svo mikið í taugarnar á Sigmundi sjálfum þó hann væri alls ekki sammála þeim. Hann útskýrði að selahljóðin hefðu líklega verið stóll að hreyfast og að uppnefnið Freyja Eyja hefði orðið til þegar fjarlægja þurfti vegg (sem hann kallaði eyju) af skrifstofu Miðflokksins vegna aðgengis. Veggurinn hefði þá fengið þetta viðurnefni. Þetta sagðist hann ætla að útskýra fyrir okkur öllum í grein sem hann hefur væntanlega í smíðum í þessum töluðu orðum. Við bíðum öll spennt eftir þeim (hr)útskýringum.
Ég benti honum á að þetta uppnefni á vegg væri mjög fötlunartengt en þá maldaði okkar maður í móinn um að það væri nú líklega rétt en það hefði verið af góðum hug því um var að ræða aðgengisumbætur. Samtalið endaði á þann veg að hann baðst afsökunar fyrir hönd hópsins. Þingmaðurinn sá í lokin ástæðu til að nefna við mig að hann bæri virðingu fyrir mér og „dugnaði“ mínum. Ég er ekki sérlega móttækileg fyrir slíku hrósi frá manni sem sat ýmist þegjandi eða flissandi undir þeim samræðum sem hér um ræðir. Ég þakkaði fyrir símtalið og sagðist þurfa að melta það.
Eftir meltun vil ég segja eftirfarandi: Að biðjast afsökunar en reyna samtímis að hrútskýra, eftiráskýra og hreinlega ljúga til um það sem átti sér stað er ekki afsökunarbeiðni. Að líkja mér við dýr og uppnefna mig (og vegg) Freyju Eyju í kjölfar aðgengisbreytinga er augljóslega eins fötlunartengt og það getur orðið. Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að pólitískar skoðanir mínar, sem byggja á feminískum gildum, hugmyndafræði mannréttinda og upprætingu ableisma, fara í taugarnar á sumum körlum, ER fötlunarfyrirlitning og kvenfyrirlitning. Það er líka hlutgerving. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður veggur. Það er til þúsund og ein leið til þess að tjá skoðanaágreining önnur en að hæðast að líkama og útliti kvenna. Ég vildi óska þess að ég hefði getað sagt allt ofangreint við umræddan mann en ég get varla lýst vanmætti mínum og vanlíðan meðan á símtalinu stóð.
Ég frábið mér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötlunarfordómar og hvað ekki. Eina eðlilega símtalið í stöðunni væri að biðjast einlæglega afsökunar, án nokkurra útskýringa eða málalenginga, og segjast í ljósi gjörða sinna ætla að axla ábyrgð á ofbeldinu sem við vorum beittar og segja af sér.