Fyrir mörgun árum varð ég fyrir upplifun sem leiddi til ástríðu sem hefur fylgt mér alla tíð.
Ég man ennþá eftir kvöldinu sem ég varð fyrir þessari upplifun. Ég man ekki dagsetninguna en ég man eftir útsendingunni í danska sjónvarpinu. Þetta var á miðjun níunda áratug síðustu aldar. Það var þáttur á hverjum laugardegi sem var stýrt af tveimur vel þekktum mönnum, á besta tíma. Fyrri hlutinn hét: „Schyy, det er lørdag“ og síðari hlutinn „Schyy, mor sover.” Í beinni þýðingu á íslensku mundi þetta útleggjast: „Uss, það er laugardagur”. og „Uss, mamma sefur”. Á milli þáttabrotanna var sýnd kvikmynd.
Í einni af útsendingunum heimsótti Hans Otto Bisgård, annar þáttastjórnenda, þáverandi Ungfrú alheim. Þau hittust þar sem hún sat í sandkassa og lék sér við börnin í kring og sýndi honum höfuðborgina sína. Hófí Karlsdóttir sýndi honum Reykjavík!
Það gekk á með regni, þurrki, stormi, logni og öllu þar á milli.
Það vakti upp minningu hjá mér úr æskunni. Faðir minn starfaði sem skógarhöggsmaður og eftir að hann kom heim einn daginn, var hann að hlusta á veðurspána fyrir sjómenn. Móðir mín var í eldhúsinu að baka og undirbúa kvöldmatinn. Veðrið var svolítið eins og íslenska veðrið í þættinum og í minningunni var ég mjög öruggur.
Mér fannst ég verða að fara þangað! En enginn vildi fara með mér og því miður trúði ég því, þegar mér var sagt að sykursýkin mín gerði mér það ómögulegt að fara einsamall.
Ég hélt áfram að tala um það hinsvegar.
Á tíunda áratugnum varð ég fyrir annarri upplifun.
Ég heyrði í þessari dularfullu tónlistarkonu. Frá Íslandi.
Tónlistin höfðaði ekki til mín og ég vildi ekki trúa því að hún væri íslensk. En það breyttist um leið og ég varð heltekinn af Íslandi. Og það var fleira sem hafði heltekið mig.
Ég ók ásamt frænda mínum til suðurhluta Danmerkur og yfir landamærin. Við hittum fjölskyldu hans. Við höfðum ætlað okkur að fara í þýskan stórmarkað að kaupa sælgæti og öl. En vegna páskahátíðarinnar, höfðu þau lokað snemma á föstudegi.
Við keyrðum því næst heim til systur hans til þess að heimsækja uppkominn son hennar. Við fengum okkur nokkra bjóra og ákváðum að gista þar. Þau bjuggu nálægt landamærunum svo við ákváðum að fara yfir landamærin næsta dag.
Meðan við sváfum byrjaði útvarpsklukka að spila lag. Sem betur fer gat ég ekki slökkt á því. Ég hrökk upp við fullkomna laglínu á kyrrum morgni.
Björk var að leika „Venus as a boy“. Það var eins og ég hefði verið hnepptur í álög. Skömmu síðar leit ég út um gluggann. Sólin var að rísa hinum megin við húsið og varpaði birtu á trjátoppana. Og daggardropar héngu enn á grasinu.
Ég varð að finna geisladisk með Björk!
Ég fann hann ekki í þýska stórmarkaðinum eða nálægri plötubúð. En strax morguninn eftir páskahátíðina keypti ég hann í tónlistarbúðinni í hverfinu mínu, í norðurhluta Danmerkur. Ég varð mikill aðdáandi Bjarkar. Ég var nú þegar mikill aðdáandi Íslands.
Á síðari hluta tíunda áratugarins, hafði sykursýkin og meðferðin við henni, eða öllu heldur skortur á meðferð, sínar afleiðingar. Ég missti sjónina og varð blindur snemma árið 1998.
Bræður mínir heimsóttu mig á spítalann í Kaupmannahöfn, sem er staðsettur hinum megin á landinu frá heimili mínu.
Þegar elsti bróðir minn var þar, sagði ég honum að ég hefði aldrei séð Ísland og hann sagði: „Nei, þú hefðir átt að fara þangað …“
Síðar fann ég kærustu. Og ég fann að draumurinn var enn á lífi. Í október 1999 giftumst við og í kjölfarið ákváðum við að heimsækja landið í norðri.
Árið 2002 sigldum við með Norrænu til Íslands með viðkomu í Færeyjum!
Við vorum á Íslandi í þrjár vikur. Og hún var heilluð af mörgu af því sem fyrir augu bar. Og þrátt fyrir blinduna var ég fær um að sjá fegurð þessa staðar.
Fríið á Íslandi gaf Norður-Atlants draumnum mínum byr undir báða vængi. Mig dreymdi um að búa þar um tíma. Ég talaði mikið um þennan draum við konu mína og lét mig dreyma um að við gætum bæði unnið þar. Hún var bókasafnsfræðingur með mikinn áhuga á menningu. Norræna húsið væri kjörinn staður fyrir hana, hugsaði ég. En þeim draum var ekki ætlað að endast.
Ári eftir að ég kom heim úr fríinu í norðri, sneri sykursýkin lífi mínu á hvolf á ný.
Í þetta sinn var það nýrað mitt sem hún var á höttunum eftir. Hún varð til þess að hækka blóðþrýstinginn, blóðið mitt var síður fært um að flytja súrefni sem gerði mig veikburða.
En bræður mínir voru aftur til staðar … mér var boðið nýra.
Sjötta september 2005 fékk ég líffæragjöf. Nýra elsta bróður míns reyndist vera „perfect match”.
Hann sá að ég braggaðist smátt og smátt. Og ég fann það sjálfur. En það var meira í vændum …
Þegar ég kom heim frá spítalanum, tjáði konan mín mér að hún vildi skilja við mig.
Ekki löngu síðar hafði yngsti bróðir minn samband við mig og skýrði frá því að hann og konan hans væru að skilja.
Svo sá elsti af okkur gat ekki unnið í nokkurn tíma, þar sem hann hafði gefið mér annað nýrað sitt, sá næstelsti átti erfitt með að sinna starfinu sínu þar sem hann var að ganga í gegnum skilnað, ég gat ekki unnið þar sem ég var að jafna mig eftir líffæragjöf og skilnað. Og yngsti bróðirinn hafði komið í veg fyrir slag á bar … sem kostaði hann handleggsbrot á fjórum stöðum. Hann braut höndina á hurð … en náði að koma í veg fyrir slag á milli tveggja annarra … svo hann gat ekki heldur farið að vinna. Móðir okkar átti fjóra fatlaða syni en hún var auk þess að sinna veikum föður okkar. Hann var með slæm lungu eftir að hafa reykt í mörg ár.
Sex mánuðum síðar fellur faðir okkar frá, svo sex manna fjölskyldu, allir með maka, fækkaði niður í fimm, þar sem þrír bjuggu einir.
En lífið heldur áfram og draumarnir líka.
Mig langaði ennþá til þess að kynnast landinu í norðri.
Árið 2008 tjáði yfirmaður minn mér að það væri ekki vinna fyrir mig í verksmiðjunni. Kannski eina skiptið sem hann rak einhvern sem sagði brandara sem fékk hann til að skella upp úr á meðan uppsagnarsamtalinu stóð.
Ég reyndi að finna mér aðra vinnu í kjölfarið en efnahagskreppa gerir blindum manni ekki auðvelt fyrir að finna vinnu svo ég ákvað að elta annan draum. Ég reyndi að komast inn í háskóla, tæplega fertugur að aldri … en mér var hafnað. Þetta var árið 2009. Ég bætti síðan einkunnirnar mínar úr menntaskóla. Og árið 2011 byrjaði ég í lögfræði við Árósa-háskóla.
Síðan komst ég að því að ég gæti blandað draumum mínum saman. Fyrst með því að fara til Reykjavíkur í fimm daga, til að sækja Icelandic Airwaves árið 2011. Og hlusta á Björk í Hörpu. Frábær tónlistarkona í frábæru tónlistarhúsi. Síðar með því að fara í skiptinám … til Íslands.
Stór og galinn draumur var að verða að veruleika, nú meira en nokkru sinni áður!
Mig langaði til þess að læra þarna í eitt ár. Það kallaði á undirbúning …
Það var mikil hjálp af Blindrafélaginu. Og svo voru það Íslendingarnir.
Til þess að geta flutt inn í íbúðina, sem ég var að leigja á Stúdentagörðunum, reyndi ég að finna aðstoðarmanneskju. Ég spurði fyrst elsta bróður minn, sem var búsettur á Grænlandi á þessum tíma, en það gekk ómögulega fyrir hann. Ég skrifaðist á við fyrrverandi vinnufélaga úr verksmiðjunni. Hún var hætt að vinna og hafði því tíma en einnig löngun til að sjá nýja staði. Hún var fædd í Frakklandi, hafði verið gift Dana, var núna ekkja með uppkomna syni.
Hún hjálpaði mér fyrstu dagana af draumnum mínum. Við Nicole bjuggum saman í níu daga í Blindrafélaginu, keyptum húsgögn og annað sem þurfti fyrir íbúðina á Stúdentagörðunum.
Síðan sýndi Vala hjá Blindrafélaginu mér leiðina frá stúdentaíbúðinni minni yfir í Háskólann og veitti mér leiðsögn um háskólasvæðið.
Og ég hitti Elviru og Helga. Kennarana. Og fullt af nemendum. Ég fann fyrir stóra draumnum og fannst eins og ég gæti verið vakinn upp frá þessum óraunverulega draumi hvenær sem er.
Undirbúningurinn og fyrstu vikurnar gáfu góða raun.
Um haustið, áður en ég fór til Reykjavíkur, spurði ég móður mína hvort hún myndi heimsækja mig. Hún svaraði: „Nei, ég er flughrædd.” Ég reyndi að róa hana niður með því að segja: „Engar áhyggjur. Þú munt koma niður aftur.”
Það bar ekki árangur …
Ég hugsa að þetta hafi verið tilraun til þess að halda mér heima við. En það bar ekki heldur árangur.
Þegar ég var að hugsa um að fara einn til Íslands í janúar, talaði félagi minn inn á það þar sem við renndum um bæinn á reiðhjóli fyrir tvo.
Svo ég ákvað að fara.
Ég skemmti mér konunglega þar. Að ferðast frá Eggertsgötu yfir í Háskólann á hverjum morgni, hitta nemendur frá gjörvallri Evrópu, öllum heiminum raunar, kynnast spænska kennaranum sem valdi Ísland vegna ástar sinnar á íslenskum manni og að hitta íslenska kennarann sem valdi lögfræði yfir skák. Og eignast marga góða vini og minningar.
Á einum af þessum stormasömu dögum, meðan ég var á heimleið og stóð við Aragötu, ofan á hrúgu af snjó sem skildi að götuna og gangstéttina, stoppaði bíll.
Það var Magnús Stephensen frá háskólanum.
„Ég skal keyra þig heim,“ sagði hann í gegnum vindinn. Þegar ég var kominn inn í bílinn muldraði hann: „Stundum ættir þú að nota þessa fjárans leigubíla!“
Síðan gaf hann mér mesta hrós sem ég hef nokkurn tímann fengið frá Íslendingi.
„Þú hlýtur að hafa einhvers konar „víkinga-gen“.
Ég er ekki frá því að ég hafi hækkað um nokkra sentimetra.
Frá því að halda að draumurinn væri búinn, bjó ég þess í stað í 101 Reykjavík, ég var að læra lögfræði á Íslandi, ég var með íslenskt símanúmer og meira að segja íslenska kennitölu.
Áður hafði ég séð, á heimasíðu danska utanríkisráðuneytisins, að það væri mögulegt að heimsækja danska sendiráðið á Íslandi, meðan maður væri í námi.
Ég hafði lesið að ökuskírteini væri kostur. Ég var ennþá með mitt, en það var ekki hægt að nýta það þar sem ég var blindur. Ég skrifaði bréf til sendiráðsins, en var tjáð að það væri ekki möguleiki að fara þangað vegna skiptináms, en þegar ég kannaði hvort ég gæti komið á staðinn að heilsa upp á starfsfólkið, var það velkomið.
Dag einn þar sem ég var á leið í sendiráðið, sendi sendiherrann starfsnemann sinn upp í Háskóla til þess að sækja mig. Ég hugsaði með mér að ef það væri send límmósína, mundi ég biðja einhvern að taka mynd af mér að fara upp í bílinn og svo mundi ég senda myndina á Facebook-vegginn minn með yfirskriftinni: „Fljótur upp á toppinn á Íslandi”. Starfsneminn renndi upp að Háskólanum í fjórhjóladrifnum bíl. Trúlega öllu þjóðlegri bíll. Þegar við komum í sendiráðið var ég boðinn velkominn af öllu starfsfólkinu og sögð saga hússins og saga fyrstu dönsku sendiherranna á Íslandi.
Sendiherrarnir á milli 1918 og 1944 voru ekki skipaðir og veitt móttaka á sama hátt og venjulega. Venjulega hefði konungur sent sendiherra frá Danmörku og konungurinn, forsetinn eða keisarinn myndi taka á móti sendiherranum í því landi sem sendiherrann myndi starfa.
En þar sem konungurinn var sá saman á Íslandi og í Danmörku, fyrstu tæp 25 árin, var það danski forsætisráðherrann sem lét skipa sendiherra frá Danmörku og íslenski forsætisráðherrann tók á móti sendiherranum á Íslandi.
Mér var líka sagt að þetta væri sama bygging sem hýsti sendiráðið þá og nú. Áður en þetta varð sendiráð var byggingin í einkaeigu. Sem þýðir að hún var meira en 100 ára gömul.
Mette, danski sendiherrann og starfsfólk hennar, voru öll mjög stolt af því að vera fulltrúar Danmörku á Íslandi, ég fann að þau báru ekki aðeins sterkar taugar til þess ríkis sem þau voru fulltrúar fyrir, heldur einnig til ríkisins sem þau störfuðu innan.
Danmörk getur verið stolt af starfsfólkinu sem vinnur þarna og Ísland og Íslendingar búa að góðu fólki þegar kemur að samskiptum milli ríkjanna tveggja. Og íslenska starfsfólkið var mjög vinalegt. Og trygglynt gagnvart báðum ríkjum. Síðar sama dag fór ég í Norræna húsið, til að hlýða á kvikmyndaumfjöllun frá danskri konu.
Þegar ég kom inn um dyrnar á húsinu, mætti ég konu sem sagði: „Hæ, Troels.“ Ég svaraði: „Hæ Mette.“ Ég hafði hitt danska sendiherrann á ný. Ég rakst einnig á Gunnu frá sendiráðinu. Mette kynnti mig fyrir forstöðumanni Norræna hússins og kynni myndarinnar.
Danska sendiráðið hafði undirbúið kvikmyndasýninguna. Ég átti frábæran dag.
Í sendiráðinu hafði ég sögu til að segja starfsfólkinu. Einn af fyrstu dögunum sem ég var á Íslandi með Nicole, vorum við að keyra um í Reykjavík. Nicole segir skyndilega við mig: „Ég veit ekki hvert við erum að keyra en það er fallegt hérna, svo höldum áfram og sjáum hvar við endum.“
Við enduðum nálægt, Nicole ákvað að taka myndir og fór út úr bílnum.
Ég steig einnig út úr bílnum og heyrði í bílaútvarpi nálægt okkur. Ég bankaði á bílrúðuna og bílstjórinn opnaði hurðina. Ég spurði hann, á ensku, hvað þessi staður héti. Hann skyldi ekki ensku.
Ég prófaði þá að spyrja hann á dönsku. Hann skyldi ekki dönsku heldur.
Þá ákvað ég að prófa að tala með látbragði. Hann skildi hvað ég átti við og svaraði: „Ísland.”
Og ég hélt við værum týnd en við vorum nákvæmlega þar sem við áttum að vera. Maðurinn í bílnum gat ekki skilið mig en hann gerði samt sem áður allt sem hann gat til þess að hjálpa. Hann gerði ekki aðeins sitt besta, heldur afsakaði sig á meðan ég þakkaði honum fyrir og settist inn í bílinn þegar Nicole var búin að ná myndunum.
Þegar ég lít til baka, þá held ég að nákvæmasta lýsingin sem ég fékk á Íslendingum, var á fyrsta ferðalaginu mínu til Íslands.
Eigandi „gistiheimilsins við flugvöllinn“ sagði: „Ef þú endar uppi á eyðieyju með einni annarra manneskju, ertu heppinn ef sú manneskja er frá Íslandi, því þú munt lifa af.“ Og svo hélt hann áfram: „Það er aðeins einn vandi við Íslendinginn … hann mun sennilega leggja þig sér til munns, því það er það eina sem þú nýtist til í hans huga.“
Stolt, vingjarnleg og einstaklingshyggjufólk. Og það er ástæðan fyrir því að þið eruð sjálfstætt ríki og stór ástæða fyrir áhuga mínum.
Eftir að ég flutti aftur til Danmerkur, hef ég heimsótt Ísland í nóvember 2016 til að njóta Airwaves-hátíðarinnar. Ég bjó hjá vini mínum Eiríki og börnum hans, ég hitti Magnús við háskólann, heimsótti Blindraheimilið og hitti Beate.
Næsta heimsókn mín var á 100 ára afmæli fullveldisins. Og vonandi mun ég hitta gamla og nýja vini meðan á dvölinni stendur.