Við lásum með hryllingi frásagnirnar af þeim athugasemdum sem nokkrir alþingismenn ykkar hafa látið út úr sér varðandi konur og sérstaklega ummæli þeirra um fyrrverandi samstarfskonu þeirra sem er fötluð. Sem tíðir gestir á Íslandi bjuggumst við aldrei við þessu.
Við bjuggumst aldrei við þessu því að fyrrverandi varaþingkona sem um ræðir, Freyja Haraldsdóttir, er dáð og virt um alla Evrópu. Hún er frábær fulltrúi Íslands og kraftmikil baráttumanneskja fyrir réttindum fatlaðs fólks. Hálfkæringsblaður sem jaðrar við hatursorðræðu hefur raunverulegar afleiðingar. Það hefur fælingaráhrif á stjórnmálaþátttöku fatlaðs fólks, og þá sérstaklega fatlaðra kvenna. Það rýrir lýðræðið. Það er ekki sigur fyrir neinn ef stuðlað er að ósýnileika heilla þjóðfélagshópa í framtíðinni. Við héldum að Ísland væri stærra en þetta.
Og við bjuggumst aldrei við þessu því að við eigum að geta ætlast til betri hegðunar – miklu betri – af þjóðkjörnum fulltrúum. Það getur ekki hafa farið fram hjá lesendum ykkar að á meðan þetta átti sér stað á Íslandi voru Bandaríkin rétt að byrja að syrgja George H.W. Bush. Kænn og klókur var hann – eins og allir stjórnmálamenn þurfa að vera. En hann var maður sem gat teygt sig út fyrir eigin reynslu. Eins og frægt er orðið þrýsti hann á um samþykkt löggjafar í þágu fatlaðra Bandaríkjamanna (the Americans with Disabilities Act) árið 1990, sem er án efa frægasta löggjöf í þágu réttlætis fyrir fatlað fólk í veröldinni. Hann hlustaði – sérstaklega á ríkissaksóknara sinn, Dick Thornburgh, sem átti fatlað barn. Hann bar virðingu fyrir því baráttufólki og þeim hópum sem vildu tryggja að fatlað fólk gæti loks notið, til jafns við aðra, þeirra mannréttinda sem ætluð voru öllum (eða næstum öllum). Sem fyrrverandi hermaður sinnti hann ávallt þeim fyrrverandi hermönnum með fötluðust við að færa fórnir fyrir samfélag sitt. Hann skapaði rými fyrir nýjungar. Hann lét öllu fólki finnas það ætti sinn sess í samfélaginu burt séð frá fötlun – eða þjóðfélagsstétt. Hvað er göfugra í stjórnmálum en þetta?
Ef til vill getur þessi uppákoma á Íslandi leitt af sér eitthvað gott. Það er ekki nóg að biðjast afsökunar og láta eins og ekkert hafi í skorist! Virðingar og virkrar hlustunar er þörf. Við viljum trúa því að Ísland geti gert eitthvað sem myndi gera Bush stoltan, vakið öfund Evrópu og rétt við hlut Freyju. Það er lágmark að stjórnvöld hlýði á eigin þegna og stofni sjálfstæða og óháða mannréttindastofnun strax. Slík stofnun kemur ekki í staðinn fyrir stjórnmál eða stjórnmálafólk. En minnir okkur á að stjórnmálin snúast – þegar best lætur – um almannaheill en ekki fordóma eða sérhagsmuni. Slík mannréttindastofnun myndi geta fært hluti til betri vegar þegar eitthvað fer úrskeiðis eins og virðist hafa gerst hér og myndi tengja Ísland alþjóðlegri umræðu um réttlæti í heiminum. Það er hið rétta í stöðunni. Það myndi gera Freyju aftur stolta af því að vera Íslendingur.
Anna Lawson er lagaprófessor við Leeds-háskólann í Bretlandi og forstöðumaður fyrir the Centre for Disability Studies við sama skóla.
Gerard Quinn er prófessor við Raoul Wallenberg Institute í Lundi í Svíþjóð og lagaprófessor við Leeds-háskólann í Bretlandi.