Eigum við að berjast fyrir okkar veikustu bræður og systur? Við hugsum oft lítið um lífskjör annarra ef við höfum það gott sjálf. Því miður er það svo að þó við höfum sjálf verið heppin, heilsuhraust og notið allra tækifæra sem lífið býður upp á, er fátt sem bendir til þess að börnin okkar geri það. Alveg sama hvort þau nái að mennta sig eða ekki.
Er okkar staða eins traust og örugg og við höldum? Við erum einungis þremur launaseðlum frá alvarlegum fjárhagsvandræðum, þremur afborgunum frá því að missa þak yfir höfuðið og alvarlegum veikindum frá sárri fátækt. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvernig kerfin okkar og öryggisnetið virka fyrr en við lendum í þeim og þá er oft erfitt að breyta. Þá veikist rödd okkar í samfélaginu.
Við festumst oft í sjálfhverfri hugsun þegar kemur að kröfum og hagsmunum launafólks og lítum á hvort annað sem andstæðinga eða óvini vegna tekna eða menntunar þegar við erum svo sannarlega samherjar. Við erum öll í vondum málum ef eitthvað kemur upp á.
Þetta sáum við þegar bera fór á úrsögnum úr stéttarfélögum fyrir kjarasamningana 2015 þegar kröfurnar höfðuðu ekki til einstakra hópa eða fólk sá ekki persónulegan hag af því að fara í vinnudeilur. Þetta sjáum við þegar atvinnurekendur hvetja starfsfólk sem er á markaðslaunum til að segja sig úr stéttarfélögum eða tala niður baráttu ólíkra hópa.
Lífskjarabaráttan snýst um að þétta öryggisnetið. Þétta það á öllum sviðum. Líta á styrk okkar samfélags út frá stöðu okkar veikustu bræðra og systra. Sýna forfeðrum okkar, sem náðu fram öllum þeim réttindum sem við teljum sjálfsögð í dag, þá virðingu að tapa þeim ekki aftur. Og sjá til þess að afkomendur okkar hafi sögu að segja þegar okkar lífsverki lýkur.
Samkennd og samheldni ólíkra stétta og hópa er mælikvarði á styrk heildarinnar. Ef við lyftum gólfinu þá lyftist allt annað með. Samtakamáttur er afl sem ekkert bítur á.
Langvarandi framfærsluvandi, húsnæðisóöryggi og aukin misskipting hefur skelfilegar félagslegar afleiðingar og getur leitt af sér óbætanlegt samfélagslegt tjón. Þetta vitum við en erum samt tilbúin að taka undir orðræðu þeirra sem telja nauðsynlegt að skattleggja fátækt og fráleitt, jafnvel sturlað, að verkalýðshreyfingin berjist fyrir kjörum sem duga til að lifa með mannlegri reisn?
Það er mikill langtíma ávinningur fyrir samfélagið að öllum líði vel. Við eigum ekki að tala um kostnað þegar ávinningurinn er augljós. Þess vegna er svo mikilvægt að ala ekki á sundrung eða setja sig í hópa með eða á móti þegar kemur að lífskjörum þeirra sem eru fyrir neðan okkur í tekjustiganum. Okkur ber samfélagsleg skylda að snúa bökum saman í stað þess að lepja upp áróður hagsmunaafla. Það er aldrei að vita hvort við eignumst ekki mikilvæga bandamenn, halli einhvern tíma undan fæti hjá okkur sjálfum.
Misskipting, ójöfnuður og óréttlæti eru mannanna verk og engin náttúrulögmál. Allt sem þarf er samstaða, kjarkur og þor til þess að breyta.