Þegar þetta er skrifað hefur gengi krónunnar fallið um rúm 13 prósent síðan í sumar, eftir að hafa virst í góðu jafnvægi um tæpt árs skeið þar á undan. Um ástæður þess virðist ríkja einhugur á fjármálamarkaði; áhættufælni hefur aukist vegna óvissu á vinnumarkaði og í flugrekstri (enda hófst veikingarhrinan um svipað leyti og skuldabréfaútboð flugfélagsins WOW Air stóð sem hæst), sem hefur valdið því að fjárfestar hafa dregið úr krónuáhættu og hliðrað eignasöfnum sínum í aðrar myntir með tilheyrandi áhrifum á gengið.
Í þessu ljósi virðist gengisfallið e.t.v. brattara en efni standa til; fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim á árinu verður að öllum líkindum hálfri milljón meiri en síðast þegar gengið var á svipuðum slóðum árið 2016, viðskiptaafgangur á fyrstu níu mánuðum ársins er svipaður og í fyrra á föstu gengi og hrein staða við útlönd er jákvæð um rúm 13% landsframleiðslu. Jafnvel þótt einhverjar horfur séu um kólnun í hagkerfinu er ekki annað að sjá á yfirborðinu en að verulegt borð sé fyrir báru í ytra jafnvægi þjóðarbúsins samanborið við undanfarin ár, þegar krónan var ýmist sterkari en hún er nú, eða að styrkjast. Af hverju hefur þessi titringur svona veruleg áhrif nú? Er krónan að yfirskjóta, eða er um nauðsynlega aðlögun að nýjum aðstæðum að ræða? Til þess að svara þeirri spurningu þarf að setja stöðuna á gjaldeyrismarkaði í samhengi.
Gósentíðin 2014-2016
Því er stundum ekki veitt næg athygli hversu einstakt tímabilið 2014-2016 var á gjaldeyrismarkaði, en þá fór saman nær samfellt styrkingarskeið, mikill stöðugleiki (þ.e. lágt gengisflökt) og fordæmalaus forðasöfnun Seðlabankans, sem náði hámarki á árinu 2016. Og hvað skyldi hafa orsakað þessar einstaklega hagfelldu aðstæður?
Augljósasta svarið er auðvitað vöxtur ferðaþjónustunnar, enda fór þessi gósentíð á gjaldeyrismarkaði saman við hamslausan vöxt í hvort tveggja komum ferðamanna til landsins og afgangi af þjónustuviðskiptum við útlönd. Þegar betur er að gáð stenst sú skýring ekki skoðun, að minnsta kosti ekki ein og sér.
Ferðaþjónustan – og allt hitt líka
Eins og sjá má á Mynd 1 námu uppsöfnuð gjaldeyriskaup Seðlabankans (sem jafnframt eru gagnlegur mælikvarði á innflæði fjármagns umfram útflæði, því bankinn keypti að jafnaði „yfirfallið“ á gjaldeyrismarkaði á tímabilinu sem um ræðir) andvirði hátt í 400 milljarða króna á árinu 2016. Á sama tíma nam afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum innan við 160 milljörðum, sem merkir að ef bankinn hefði keypt hvern einasta dollar, evru eða pund sem þjóðarbúið aflaði með útflutningi umfram innflutning, hefði það numið innan við helmingi veltu bankans.
Af Töflu 1 að dæma virðist fjármálakerfið ábyrgt fyrir enn enn meiri styrkingarþrýstingi en ferðaþjónustan á árinu, en þar fór saman umtalsverð framvirk sala gjaldeyris, minnkun gnóttstöðu stóru bankanna þriggja samfara breytingum á efnahagsreikningum þeirra, lækkun gjaldeyrisinnlána og veruleg aukning útlána til innlendra aðila í erlendri mynt. Þá lögðust jafnframt ýmsir einskiptisliðir á sömu sveif, auk þess sem nýfjárfesting (einkum á skuldabréfamarkaði) var með ágætum og útflæði lífeyrissjóða var takmarkað vegna fjármagnshafta. Þá er ótalinn viðskiptakjarabatinn sem leiddi af lækkun olíuverðs og öðrum þáttum. Það voru því fleiri kraftar að verki við styrkingu krónunnar en bara ferðaþjónustan
Þýðir það þá að ferðaþjónustan hafi engu skipt á tímabilinu? Vitaskuld ekki, en það bendir hins vegar til þess að áhrif ferðaþjónustunnar hafi miklu frekar verið þau að valda hækkun jafnvægisraungengisins (þ.e. þess gengis sem samræmist sjálfbæru ytra jafnvægi í þjóðarbúskapnum), heldur en að skapa gjaldeyrisviðskiptin sem ollu á endanum styrkingu krónunnar og stækkun gjaldeyrisforðans. Ef ekki væri fyrir mikinn afgang af ferðaþjónustu, þá hefði styrking krónunnar dregið niður viðskiptajöfnuðinn samhliða auknum innflutningi á tímabilinu – enda færðist afgangur af vöruviðskiptum úr um 8 milljarða afgangi árið 2013 í yfir 160 milljarða halla í fyrra (á gengi hvors árs). Þess er að auki skemmst að minnast að síðast þegar raungengið náði álíka hæðum fylgdi því mikill viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun; það er birtingarmynd þessarar hækkunar jafnvægisraungengisins að sjálfbærni erlendu stöðu þjóðarbúsins skuli ekki teflt í tvísýnu samhliða gengishækkuninni 2014-2016.
Höfundur er hagfræðingur hjá GAMMA. Greinin birtist hér aðeins að hluta, en hún birtist í heild í Vísbendingu sem kom út í gær. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.