Í aðdraganda kosninga þurfa kjósendur að velja á milli flokka sem lofa öllu fögru. Flokkar sem kúra hvað þéttast að vöngum sérhagsmuna eru í fjárhagslegri stöðu til að yfirtaka umræðuna og stjórna henni og ná bestum árangri.
Öllu fögru er lofað svo er allt annað gert. Þetta á við um alla flokka sem setið hafa í ríkisstjórn síðasta áratug og nær líklega lengra aftur en menn muna.
Frægust er skjaldborgin um heimilin sem var skjaldborg um fjármálakerfið.
Hvað er að frétta í dag? Er eitthvað meira að marka stjórnmálin eða eru stjórnmálamenn lítið annað en sömu lýðskrumararnir og áður, sem ljúga sig til valda eða missa kjark og hugsjónir um leið og val um æðstu stöður komast í tal? Að geta svo aldrei verið sammála um annað en að gera ekki neitt?
Tökum dæmi um nokkur mál sem ærðu kjósendur fyrir síðustu kosningar og málin sem ríkisstjórnin setur í algjöran forgang. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta. Sjúklingar liggja á göngum eða inni á klósettum á meðan starfsfólk örmagnast undan álagi. Fólk hefur ekki efni á að veikjast á meðan haldnar eru rándýrar fullveldishátíðir sem engin bað um eða skilur. Það átti að bæta hag öryrkja og afnema skerðingar en við fáum þriðja orkupakkann.
Það átti að stöðva rányrkju kerfisins á uppsöfnuðum lífeyri eldri borgara en fáum sérstakar hækkanir Kjararáðs og hækkun framlaga til stjórnmálaflokka.
Það átti að styrkja innviði en í staðinn er talað um vegatolla og áframhaldandi einkavæðingu.
Það átti að lagfæra vegina en ekki kjör æðstu embættismanna.
Það átti að auka gagnsæi en ekki tekjur Alþingismanna í gegnum ferðakostnað og aksturspeninga-skandal.
Það átti að lækka skatta á þá lægst launuðu og styrkja grunnstoðir en veiðigjöld voru lækkuð.
Við áttum að sjá hvítbók um fjármálakerfið en fengum hvítþvott.
Lækkun vaxta og aðgerðir er snúa að verðtryggingu en fáum þjóðarsjóð.
Niðurskurður til meðferðarstofnana á meðan met er slegið í skýrslukaupum af ómarktækum dekurkálfum stjórnmálaelítunnar og aðstoðarmönnum fjölgað.
Traust á Alþingi átti að stórauka en við fáum Klaustur-skandal og hrossakaup í beinni, vafasama viðskiptahætti æðstu ráðamanna og yfirhylmingu á kynferðislegri áreitni kjörinna fulltrúa.
Framúrkeyrsla á opinberum framkvæmdum hefur sjaldan verið meiri og standa þar Braggamálið og Vaðlaheiðargöng upp úr. Hið síðarnefnda hefur sett ný viðmið á kjördæmapoti og meðferð á fjármunum hins opinbera. Að ég tali nú ekki um prívat jarðgöng fyrir stóriðju á Bakka sem ólíklegt er þjóðin hefði kosið að fara í, hefði hún einhverju ráðið.
Nú keppast skrúðpennar hagsmunaafla við að níða niður nýja verkalýðsforystu og beina sjónum sínum að kröfugerð hennar. Kröfum sem á margan hátt snúa að því að stjórnmálin standi við gefin loforð. Er til of mikils ætlast að kjósendur og almennir borgarar geri þá kröfu um að stjórnmálamenn taki ábyrgð á gjörðum sínum og aðgerðarleysi og sýni langþráða ábyrgð?