Á þessum tíma ársins fagna hinir ólíkustu hópar heimsins lífinu. Fagna hver með sínum hætti og hver af sinni ástæðu, hvort sem það er af trúarlegum toga, vegna þess að er sólin farin að hækka á lofti eða bara fagna því að vera til og njóta lífsins. Við lifum að öllum líkindum bara einu sinni og því ekki að finna sér tilefni til þess að gera sér glaðan dag? Til þess eru jólin, að staldra við, gleyma um stund amstri hversdagsins og njóta þess að vera til.
Ég velti því nokkuð fyrir mér þegar ég fór að huga að pistli þessum hvort það væri viðeigandi á þessum tímapunkti, kl. 18 á aðfangadagskvöldi að gera helvíti að umtalsefni. Hugmyndir flestra um helvíti eru ófagrar og stangast allverulega á við hið góða og fagra sem við flest leitumst við að leggja rækt við á jólunum. Það ríkir síður en svo jólaandi í helvíti. En svo ákvað ég að láta slag standa, jú um helvíti skal það vera, sem þið sem eruð svo hugrökk að slökkva ekki á viðtækjunum fáið að heyra um í dag.
Helvítishugtakið birtist ekki alltaf eins og í ævintýrum, með logandi eldum, pyntingartólum og glottandi skratta djúpt ofan í iðrum jarðar.
Árið 1944, þegar Evrópa var þjökuð af átökum seinni heimsstyrjaldarinnar og Frakkland var hersetið af nasistum skrifaði franski rithöfundurinn, heimspekingurinn og húmanistinn Jean – Paul Sartre leikrit sem ber titilinn Luktar dyr í íslenskri þýðingu. Í leikritinu segir frá þremur einstaklingum, tveimur konum og einum karli, þeim Inez, Estelle og Garcin. Þremenningarnir höfðu ekki verið til fyrirmyndar í lifanda lífi og þegar kemur að dómsdegi eiga þau ekkert betra skilið en vist í víti og það vissu þau vel. Þegar Garcin kemur til helvítis verður hann vissulega nokkuð hissa og spyr „Hvar eru pyntingartólin?” Ekkert bendir til þess að hann sé í raun kominn til helvítis. Þar eru engin pyntingartól að sjá, þar eru engir logandi eldar og enginn skratti sem gerir honum markvisst lífið leitt. Hvers konar helvíti er þetta eiginlega? er sú hugsun sem kemur upp í huga þremenninganna. Það hlýtur einhver að vera þarna til þess að gera þeim lífið leitt, þau voru jú dæmd til vítisvistar. Eitthvað er þetta helvíti skrítið. Þau eru þrjú samankomin í einu herbergi. Að vísu eru engin pyntingartól og enginn opinber skratti til að gera þeim lífið leitt, en hlutskipti þeirra er þannig að þau geta aldrei yfirgefið herbergið sem er þar að auki gluggalaust, þau geta aldrei slökkt ljósið og þau munu hvorki þurfa né geta sofið. Smátt og smátt eftir því sem tíminn líður og þau átta sig á að þau sitja uppi með hvert annað, fer að renna upp fyrir þeim ljós. Einhver hlýtur að eiga að gera þeim lífið leitt, þau eru jú í víti, en hver? „Hver heldur þú að ég sé?” spyr Garcin Inez og Inez svarar, þú ert : „...sá sem átt eftir að pynta mig.” Garcin svarar: „...Finnst þér ég virkilega líkjast einhverjum sem er líklegur til þess að gera þér lífið leitt?”
Inez hafði svo sannarlega hitt naglann á höfuðið því í þeim aðstæðum sem þeim þeim var búin átti Garcin ekki bara eftir að reynast Inez skeinuhættur. Hún áttaði sig ekki á því á þessu augnabliki að hún átti sjálf eftir að verða sú sem gera myndi líf Garcins að helvíti líkast. Estelle, sú þriðja í herberginu átti síðan eftir að koma við sögu og hafa áhrif í þeim mannlega harmleik sem var í uppsiglingu og þau gátu með engu móti flúið. Þau voru föst í aðstæðum sínum í upplýstu, lokaðu herbergi , þrjú ein, þar sem þau voru dæmd til að dvelja endalaust án þess að geta nokkurn tíma fengið frið frá hvert öðru.
Sú mynd sem rithöfundurinn Sartre dregur upp af helvíti felst í þeim aðstæðum sem einstaklingunum er búin og þau Inez, Garcin og Estelle átta sig loks á að þau eru hvert öðru helvíti. Viðhorf þeirra til hvers annars, viðmót allt og samskipti er helvíti líkast. „Helvíti það er annað fólk” eru skilaboð Sartres.
Leikrit þetta rifjaðist upp fyrir mér eftir að hafa fylgst með samfélagsumræðunni undanfarnar vikur. Við erum öll í einhverjum aðstæðum, enginn lifir í tómarúmi, og við erum síður en svo ein í heiminum, við búum í samfélagi við annað fólk. Öll hugsum við eitthvað, segjum eitthvað og gerum eitthvað. Hugsanir, orð og breytni okkar kalla fram viðbrögð annarra. Einhverjir hugsa eitthvað, segja eitthvað og gera eitthvað og einhverjir aðrir fara að hugsa, tala og gera og fyrr en varir, ef við lítum í kringum okkur er íslenskt samfélag meira og minna fast í einhverskonar helvíti Sartres þar sem „allir” hafa skoðanir, „allir” eru virkir í athugasemdum, „allir” eru handhafar sannleikans og „allir” eru bestu dómararnir og „enginn” kemst undan og „enginn” getur flúið aðra, hugsanir annarra, orð og gjörðir. Þannig er líf okkar hvers um sig samofið lífi annarra rétt eins og líf þremenninganna í leikriti Sartres.
Helvíti Sartres er vissulega ekki uppbyggilegt til ígrundunar á aðfangadagskvöldi, en leiðindi lífsins og vitundin um þjáninguna, sem oftar en ekki fylgir því að vera manneskja er einmitt oft vel til þess fallin að draga megi af einhvern lærdóm. Kjarninn í kenningu Sartres um mannleg samskipti birtist í inntaki áðurnefnds leikrits. Mannleg samskipti eiga það oft til að einkennast af átökum og togstreitu, jafnvel hatrammri togstreitu. Sartre hefur margoft verið gagnrýndur fyrir þessa sýn sína á mannlegt samfélag og samskipti, fyrst og fremst fyrir það að einblína um of á ljótleika lífsins þegar mannleg samskipti eru annars vegar. Hann hefur vissulega sitthvað til síns máls, en samskipti fólks geta hinsvegar verið allskonar, bæði góð og slæm eins og samtíðarmaður Sartres, Maurice Merleau-Ponty benti á. Samskipti geta verið helvíti líkust en hann benti á mikilvægt atriði sem er þetta: „Þó að hinir séu helvíti þýðir það ekki að ég sé eitthvert himnaríki.”
Hér hvetur Merleau-Ponty til þess að við séum meðvituð um það hver við erum í samskiptum okkar við annað fólk og þá ábyrgð sem hver og einn hefur í samfélagi sínu við aðra. Hann bætir einnig við að ekkert okkar kemst undan því að koma einhverri reglu á þá óreiðu sem oft og tíðum fylgir mannlegum samskipum. Við þekkjum eflaust öll óreiðuna sem kann að fylgja því að eiga í samskiptum við annað fólk. Þessi óreiða sem fylgir tilvist okkar öskrar á ábyrgð okkar og dæmir okkur til ábyrgðar. Við komumst ekki undan því að bera ábyrgð á hugsunum okkar, orðum og gjörðum. Við komumst ekki undan því að bera ábyrgð á því að vera við sjálf og hvernig við sýnum umheiminum hver við erum með athöfnum okkar.
Löngunin og tilraunirnar til þess að flýja ábyrgt líf eru hluti af breyskleika mennskunnar. Manneskjan á það til að breyta gegn betri vitund og harma þann dóm sem felst í því að þurfa að standa með sjálfri sér. „Ábyrgðin, það er minn harmleikur”, er setning sem kom fram í dægurlagatexta á 8. áratugnum. Ábyrgðin er harmleikur þeirra sem kjósa að bera ekki ábyrgð, harmleikur þeirra sem kjósa að kjósa sig ekki sjálfa. En þrátt fyrr ítrekaðar tilraunir til þess að flýja sjálfan sig inn í heim afsakana, inn í heim sem er fullur af blórabögglum þá mun það í raun aldrei takast. Manneskjan verður þegar upp er staðið að taka fulla ábyrgð á sjálfri sér þar sem hún er bundinn þeim aðstæðum sem hún er í hverju sinni. Ef ég get ómöguleg haft áhrif á aðstæður mínar get ég að minnsta kosti haft áhrif á hugarfar mitt og það viðhorf sem ég kýs að hafa í þessum aðstæðum. Þar liggur ábyrgð sérhverrar manneskju.
Fyrst Sartre hefur verið hér til umræðu er ekki úr vegi að vísa til annars sem fram kom í skrifum hans. Hann setti fram ágæta ágæta greiningu á í hverju það felst að vera manneskja, frjáls og ábyrg. Við skulum gefa honum orðið:
„Maðurinn er ekki einungis eins og hann hugsar sér, heldur eins og hann vill vera, og eins og hann hugsar sér sjálfan sig eftir að hann er orðinn til, eins og hann ætlar sér að vera um leið og hann varpar sér mót tilveru sinni; maðurinn er ekkert annað en það sem hann gerir úr sér.”
Sérhvert okkar er ekkert annað en það sem við hugsun, segjum og gerum. Það er sama hversu mikið við þrætum fyrir að vera við sjálf, hversu mikið við afneitum sjálfum okkur, við erum aldrei neitt annað og verðum aldrei neitt annað en það sem við sýnum umheiminum með breytni okkar, hugarfari og verkum. Við erum sífellt að skapa okkur sem manneskjur segir Sartre, en við erum ekki bara að skapa okkur sem manneskjur með breytni okkar, við erum jafnframt að gefa það til kynna hvernig við teljum að manneskjan eigi að vera. Gefum Sartre aftur orðið:
„Sérhver athöfn okkar sem stuðlar að sköpun þess manns sem við viljum vera, skapar um leið mynd af manninum eins og við teljum að hann eigi að vera.”
Kjarnann í orðum Sartres um mennskuna fann ég eitt sinn í spakmæli á dagatali. Þar stóð: „Vertu sú manneskja sem þig langar að hitta.” Við ættum ef til vill að ganga lengra í ábyrgð okkar á eigin tilveru og í stað þess að segja „Vertu sú manneskja sem þig langar að hitta“, ættum við að fullyrða: „Þú ert ávallt sú manneskja sem þig langar að hitta.“
Ef til vill mætti nútíma íslendingurinn vera meðvitaðri um að hann er ávallt að velja sjálfan sig eins og hann birtist öðru fólki, hvort sem hann vill það eða ekki. Ég mæli með því að þið hlustendur góðir sem og aðrir landsmenn hafið eftirfarandi spurningu í huga: Hvað ef allt sem átt hefur sér stað í lífi ykkar, allar ykkar hugsanir, orð og gjörðir myndu endurtaka sig aftur og aftur út í hið óendanlega. Væru þið til í að hlusta á sjálf ykkur og horfa, væru þið sátt og ánægð, eða myndu þið vilja að eitthvað væri öðruvísi?
Kannski eru einhver ykkar sem svarið spurningu minni játandi og ef til vill einhver sem svo gera ekki. Sama hvert svar ykkar er þá komumst við aldrei frá því að kjósa sjálf okkur í þeim aðstæðum sem okkur eru búnar. Við erum eftir allt saman sú manneskja sem við sjálf myndum vilja hitta en á sama tíma er ábyrgðin mörgum okkar harmleikur. Í því felst vandinn við að vera manneskja. Eftir stendur samt sem áður spurningin: Hvernig manneskja ætlar þú að vera?
Jólahugvekjan var flutt á X-inu 977, 24. desember 2018.