Nýverið kom út kolsvört skýrsla
Innri Endurskoðunar Reykjavíkur um Braggamálið svokallaða. Ranglega hefur
verið haldið fram af stuðningsmönnum meirihlutans í borginni að málið snúist
eingöngu um framúrkeyrslu á kostnaði. Benda menn þá gjarnan á annað böl verra
til að bæta Braggabölið. En hið rétta er að frá byrjun var orðið ljóst að hér
hefðu lög og reglur verið brotnar.
-
Ítrekað var farið var fram úr samþykktum fjárheimildum. Þetta er brot á sveitastjórnarlögum.
- Skrifstofustjóri Skrifstofu Eigna og Atvinnuþróunar viðurkennir í skýrslunni að hann hafði lítið sem ekkert eftirlit haft með framkvæmdinni. Þvert á skyldur sínar.
- Borgarstjóri brást eftirlitsskyldu sinni sem yfirmaður SAE. En hann hefði átt að hafa eftirlit með eins miklu fráviki eins og þarna var búið að myndast.
- Innkaupareglur borgarinnar voru broti þar sem verkið var ekki boðið út. Ekki aðeins leiðir slíkt til aukins kostnaðar, heldur er það brot á jafnræði milli verktaka. Enda leiðir skýrsla IE í ljós að þeir sem voru fengnir til verksins voru vinir og kunningjar þeirra sem stýrðu verkinu.
- Árið 2015 kom út skýrsla frá Innri endurskoðun þar sem farið var yfir galla í því hvernig SEA var rekin. IE fullyrðir í skýrslunni að ef farið hefði verið eftir leiðbeiningum þeirra frá þeim tíma hefði Braggamálið ekki komið upp. Þeir sem stjórna borginni hljóta að bera fulla ábyrgð á því að ekki var hlustað á aðvaranirnar.
- Lög og reglur um skjalastjórn opinberra stofnana voru þverbrotnar að mati Borgarskjalasafns. Því engar fundargerðir eða gögn eru til yfir hvernig flestar ákvarðanir er varða SEA og Braggann. Vegna þess að gögn voru ekki haldin eða þeim jafnvel eytt, gæti reyndar verið að margur maðkurinn hafi ekki enn fundist í þessari mysu.
Þessi listi er auðvitað ekki tæmandi yfir þau afglöp sem nú eru orðin opinberlega viðurkennd. Sum hver var minnihlutinn í borginni þegar búinn að benda á. En það stöðvaði ekki Dag B. Eggertsson borgarstjóra að koma í öllum helstu fjölmiðlum landsins um leið og skýrslan kom út og básúna þeirri söguskýringu sinni að hann hefði sjálfur átt heiðurinn af því að málið upplýstist. Og það hefði í raun verið hans meirihluti og leitan eftir upplýsingum sem varð til þess að málið varð rannsakað. Í viðtali í Kastljósi og á Stöð 2 mátti heyra eftirfarandi í máli borgarstjóra:
Dagur snýr sem sagt vörn í sókn og lætur eins og hann hafi
upplýst málið. Vísar þá til þess að hann hafi vakið sérstaka athygli á framúrkeyrslunni
á Borgarráðsfundi í sumar þegar viðauki við fjárfestingaáætlun var lagður
fyrir. Hér má sjá brot af umræddum viðauka:
Hvergi í fundargögnum frá viðkomandi Borgarráðsfundi er hins vegar að finna umrædd varnaðarorð Dags borgarstjóra. Þó það sé reyndar tekið fram að verkið sé komið fram úr áætlun, þá fylgir því líka réttlæting á framúrkeyrslunni þar sem m.a. er ranglega sagt að húsið sé friðað.
Enda gerir meirihlutinn í Borgarráði enga athugasemd við þennan viðauka við fjárfestingaáætlun í nærri 100 liðum og samþykkir hann án þess að nein ályktun sé rituð í fundargerð. Þannig að borgarstjórinn er hreinlega að ljúga þegar hann segir að hann hafi vakið sérstaka athygli á þessu. En hins vegar kom ályktun frá minnihlutanum þar sem athugasemdir voru gerðar við Braggann og Hlemm Mathöll:
Fundargerð Borgarráðs frá 16. Ágúst
Viðaukinn við fjárfestingaáætlun var samþykktur og með því átti að breiða yfir að búið væri að fara í stórfelld fjárútlát án þess að borgarstjórn/borgarráð væri búið að samþykkja það fyrirfram. Þau samþykktu fjárútlátin bara eftirá og ætluðu greinilega að vonast til að þar með væri málinu lokið. Því fór fjarri að þau ætluðu sér að gera neitt meira mál úr Bragganum á þessum tímapunkti. Þetta þótti óheppileg framúrkeyrsla og kannski skiljanleg þar sem húsið var að sögn borgarstjóra friðað.
Minnihlutinn í borginni hélt hinsvegar áfram að ræða þessa framúrkeyrslu. Var þá t.d. farið að benda á að Innkauparáð hefði margsinnis óskað eftir áliti Borgarlögmanns, sem hafði beðið í meira en ár með að svara fyrirspurnum vegna málsins. Fyrsta fréttin af málinu birtist svo á RÚV eftir að fjöldi borgarfulltrúa minnihlutans höfðu vakið máls á þessu í ræðu og riti.
Almenningur fór líka að fá áhuga á málinu og fóru menn að bera saman kostnað Braggans við t.d. 4.200 fm hátæknivætt fjós í Gunnbjarnarholti sem kostaði álíka mikið og Braggabyggingin. Nú voru flestir farnir að sjá að hér væri ekki allt með felldu.
Þann 6. September fór minnihlutinn í borginni fram á að sjá sundurliðaða kostnaðaráætlun vegna Braggans. Ekki var það borgarstjóri eða meirihlutinn sem fóru fram á þær upplýsingar:
Fundargerð Borgarráðs 6. September
Þann 19. September var svar við fyrirspurn minnihlutans tilbúið á borði borgarstjóra en hann átti að kynna svarið á Borgarráðsfundi daginn eftir.
Svar við fyrirspurn minnihlutans
Sama dag og svarið við fyrirspurn minnihlutans var komið á skrifborðið hjá
borgarstjóra kemur hann í fréttum og segist hafa „óskað eftir minnisblaði“
vegna málsins. Leiða má líkur að því að hann hafi hreinlega þá séð í hvað
stefndi eftir að hafa lesið svarið og vildi láta líta út eins og hann hefði
sjálfur óskað eftir þessum upplýsingum. (meira að þessu síðar)
Frétt mbl.is þar sem dagur talar um „minnisblaðið“
20. september er svarið við fyrirspurn minnihlutans kynnt í Borgarráði. Þá fyrst heyrist í meirihlutanum í borginni. En það er ekki alveg sá tónn sem Dagur sagði að hefði verið í Kastljósvitðalinu nú fyrir jólin. Því meirihlutinn hans Dags kennir Minjastofnun um hvernig Bragginn fór fram úr áætlun og hvergi er minnst á: brot á sveitastjórnarlögum eða brot á innkaupareglum borgarinnar. Meirihlutinn hans Dags var alveg sofandi fyrir því enn á þessu stigi málsins.
Fundargerð borgarráðs 20. sept
Dagur bætti um betur sama dag í viðtali við fréttir Stöðvar 2 þegar hann vildi ekki viðurkenna að nein mistök hefðu verið gerð við endurbætur Braggans. Engin mistök þýðir væntanlega: engin lög brotin, engar reglur brotnar, engin stjórnsýsla í molum. Engin mistök gerð, sagði hann. Raunar fjallaði allt viðtalið um að Minjastofnun væri um að kenna hvernig verkið fór fram úr áætlunum. Þetta er í hrópandi mótsögn við það sem hann segir síðar í Kastljósviðtali: að hann hafi upplýst um að lög hefðu verið brotin á Borgarráðsfundi 16. Ágúst.
Fréttainnskot Stöðvar 2 þar sem Dagur kennir Minjastofnun um allt og neitar fyrir mistök
Minjastofnun svaraði svo fyrir sig strax daginn eftir og sór af sér alla ábyrgð. Húsið væri hreint ekki friðað samkvæmt lögum og álit þeirra aðeins ráðgefandi.
Frétt RÚV þar sem forstöðumaður Minjastofnunar segir ábyrgðina alla borgarinnar
Eftir þetta varð sífellt erfiðara fyrir borgarstjóra að
kenna öðrum um eða láta eins og ekkert væri. Því fjölmiðlar fóru að gera sér
mat úr kostnaðarsundurliðininni
sem minnihlutinn óskaði eftir og kom þá ýmislegt furðulegt í ljós. Mætti þar
nefna:
Verkfræðisofan Efla fékk samanlagt 33 milljónir í tengslum við verkið.
- Margrét Leifsdóttir arkitekt skrifaði á sig 1300 tíma við hönnun. Ásamt 600 klukkutímum í umsjón og eftirlit og 100 klukkustundir í vettvangsferðir.
- 170 klukkutímar fóru í að hanna lýsingu og velja lampa.
- Niðurrif á bragga kostuðu 30 milljónir
- Ástandsskoðun kostaði 27 milljónir
- Ofl. Í þessum dúr.
Miðflokkurinn í Reykjavík flutti svo tillögu í borgarráði um að rannsókn færi fram á Braggamálinu. Miðað við fjölmiðlaathyglina sem málið hafði þá fengið var orðið erfitt fyrir meirihlutann í borginni að gera annað en að spila með í því. En þeim tókst þó að vísa málinu til Innri Endurskoðunar, þar sem þau gætu mögulega haft einhver áhrif á útkomu skýrslunnar. Enginn hefur enn getað útskýrt hvernig það hefði verið verra að aðili ótengdur borginni rannsakaði málið. En svo fór að Innri endurskoðun var falið verkefnið og málinu vísað þangað.
Í umræðum um tillögu Miðflokksins kom borgarstjóri í pontu og hélt langa ræðu um það hvernig þetta væri í raun allt Minjastofnun að kenna, hvernig verkið fór fram úr áætlun. Svo vísaði hann í dularfulla „minnisblaðið“ sem hann sagði áður að hann hefði beðið um. „Minnisblaðið“ sem hann las upp úr í ræðustól borgarstjórnar er dagsett 19. September og er að því er virðist orðrétt eins og svarið við fyrirspurn minnihlutans sem var kynnt í borgarráði 20. September. Það er erfitt að gera ráð fyrir öðru hér en að borgarstjóri hafi aldrei beðið um neitt minnisblað, heldur einfaldlega eignað sér fyrirspurn minnihlutans til að láta líta út eins og hann hefði óskað eftir því.
Hér má heyra ræðu borgarstjóra þar sem hann les úr „minnisblaðinu“ Byrjar á 5:56:16
Fjölmiðlar héldu áfram að tæta málið í sig næstu daga og má segja að niðurlæging borgarstjórnarmeiruhlutans hafi verið algjör þegar fréttir bárust af höfundarréttarvörðum stráum.
Þegar þarna var komið við sögu var borgarstjóri og meirihlutinn í borginni orðin að athlægi allra landsmanna og því ekki seinna vænna en að koma með síðbúnar yfirlýsingar um að málið skyldi upplýst. Enda seinna sama dag kom yfirlýsing meirihlutans í frétt á RÚV og daginn eftir þessi færsla á fésbókarsíðu borgarstjóra:
Hér er færsla Dags þar sem hann lýsir yfir að málið skuli allt upplýst. Síðar var tillaga sama efnis flutt í Borgarráði.
En meira að segja eftir þessa yfirlýsingu borgarstjóra voru blaðamenn enn að lenda í að borgarstarfsmenn reyndu að gera rannsókn fjölmiðla erfiðari.
Dagur að kveldi kominn
Það rétta í málinu er sem sagt ekki að Dagur og hans meirihluti hafi vakið máls á framúrkeyrslu í Braggaverkefninu frá upphafi. Það er ekki heldur rétt að þau hafi á nokkru stigi málsins vakið athygli á að þarna væru framin lögbrot, eins og Dagur sagði í Kastljósviðtali nú fyrir jól. Þvert í móti var stöðugt vísað til þess að húsið væri friðað og að Minjastofnun bæri ábyrgð á því að verkefnið hefði orðið svona kostnaðarsamt. Ekki heldur er það rétt að þau óskuðu nokkru sinni eftir upplýsingum um málið.
- Það var minnihlutinn í borginni sem hélt þessu máli á lofti.
- Það var minnihlutinn í borginni sem óskaði eftir nánari upplýsingum um málið.
- Það var minnihlutinn í borginni sem bað um rannsókn á málinu.
Þökk sé þeim og fjölmiðlum sem héldu þessu máli til streitu á meðan borgarstjóri og merihlutinn kenndu öðrum um.
Meirihlutinn kom viku eftir að þeir voru hafðir að fíflum í öllum fjölmiðlum landsins með yfirlætislega tillögu um að „nú skuli allt rannsakað“. Sýndarmennska sem aðeins var hægt að toppa með því að eigna sér allan heiðurinn af því að málið var upplýst daginn sem skýrsla Innri Endurskoðunar kom út.
Hér má sjá myndband þar sem ég fer yfir þessi atriði: