Þrjú tækifæri til sterkari ferðaþjónustu og betri lífskjara

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, fjallar um þrjú tækifæri sem hann telur að geti haft mikil jákvæð áhrif á framtíð ferðaþjónustu hér á landi og framlag hennar til samfélagsins.

Auglýsing

Eitt af því sem ég hef tekið eftir síðustu mánuði er að Íslendingar eru á ýmsan máta vel upplýstir um ferðaþjónustuna, hegðun ferðamanna hér á landi og mikilvægi þessarar nýju burðaratvinnugreinar fyrir samfélagið í heild – og samfélögin hér og þar um landið. Ég hugsa til dæmis að það séu fáar þjóðir sem fá jafn reglulega uppfærðar fréttir af fjöldatölum ferðamanna í stærstu fjölmiðlum landsins. 

Kannanir sýna að 90% Íslendinga eru þeirrar skoðunar að ferðaþjónusta sé mikilvæg atvinnugrein sem hafi bætt lífskjörin í þeirra sveitarfélagi. Enda full ástæða til. Sumarið 2018 störfuðu um 35 þúsund manns við ferðaþjónustu um allt land og ferðaþjónustan hefur skapað um helming allra starfa sem orðið hafa til frá árinu 2011. Þá hefur verið áætlað að um 50% hagvaxtar frá árinu 2010 sé tilkominn vegna ferðaþjónustunnar, með beinum eða óbeinum hætti.

Tekjur samfélagsins af ferðamönnum og ferðaþjónustu eru nú gríðarlegar. Árið 2017 skilaði ferðaþjónustan samfélaginu 503 milljörðum króna í gjaldeyristekjur og nettó tekjur ríkis og sveitarfélaga af ferðamönnum og ferðaþjónustu – beinharðir peningar í kassann - voru um 60 milljarðar króna árið 2017. Það er sama upphæð og öll fjárframlög ríkisins til Landspítalans það ár. Sumir halda því enn fram að ferðaþjónustan skili ekki nægilega miklu til samfélagsins. Það er einfaldlega rangt. Fáar atvinnugreinar skila samfélaginu meiri arði og möguleikum til bættra lífskjara.

Í viðtali á dögunum var ég spurður að því hvað þyrfti til að ferðaþjónustan yrði betri á næsta ári og árum. Ég verð að játa að mér vafðist aðeins tunga um tönn, því að hvar á maður að byrja? En þetta er góð spurning, hvað þarf? Við skulum skoða hér þrjú tækifæri sem geta haft mikil jákvæð áhrif á framtíð ferðaþjónustu og framlag hennar til samfélagsins.

Auglýsing

Það þarf að nýta þessar tugmilljarða tekjur af ferðaþjónustu betur til uppbyggingar innviða

Sú umræða sem staðið hefur undanfarin ár um nauðsyn sértækrar gjaldtöku af ferðaþjónustu til að standa undir vernd og uppbyggingu innviða hófst upp úr 2010 samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna. Á þeim tíma og árunum sem fylgdu var efnahagsleg staða landsins mjög erfið og stjórnvöld ekki í færum til að auka útgjöld til málaflokksins. Lengst framan af því tímabili lá heldur ekki fyrir hverjar tekjur af ferðamönnum í gegn um almenna skattkerfið væru og ekkert lá fyrir um það hvort fjölgun ferðamanna til landsins væri varanleg eða tímabundin. Það var því eðlilegt að kallað væri eftir auknu framlagi ferðamanna til uppbyggingar innviða og til að mæta veikri stöðu ríkisins.

Nú, átta árum síðar eru aðstæður hins vegar gjörbreyttar, efnahagsleg staða ríkisins er fádæma góð, erlend staða þjóðarbúsins hefur verið jákvæð um 10 ára skeið sem er fordæmalaust í efnahagssögu landsins, skuldir ríkisins hafa verið greiddar niður um 660 ma. króna og tekjur ríkissjóðs hafa nærri tvöfaldast, hafa vaxið úr 474 ma. króna árið 2010 í 892 ma. króna skv. fjárlögum fyrir árið 2019. Frumvarpið gerir og ráð fyrir því að nærri 29 ma. króna afgangur verði af rekstri ríkisins á árinu 2019.

Í dag dylst engum að hröð uppbygging ferðaþjónustu hefur átt stóran þátt í þeim ótrúlega efnahagslega viðsnúningi og miklu tekjuaukningu ríkissjóðs sem átt hefur sér stað á svo stuttum tíma. Í dag er einnig ljóst að gera má ráð fyrir að komur ferðamanna til Íslands muni til langs tíma halda áfram að vaxa að jafnaði um 2-5% árlega í samræmi við spár UNWTO um vöxt ferðamennsku í heiminum.

Auglýsing

Staðreyndin í dag er sú að það þarf ekki nýja eða meiri sértæka gjaldtöku af ferðamönnum og ferðaþjónustu til að byggja upp innviði. Ferðamenn skila tugmilljarða tekjum í ríkiskassann nú þegar, t.d. í gegn um virðisaukaskatt – sem ferðaþjónustan skilar ein útflutningsgreina.

Í núverandi efnahagsumhverfi eru aðstæður ríkisins því mjög hagfelldar til að minnka sértæka gjaldtöku og skattheimtu af ferðaþjónustu og ráðstafa þess í stað núverandi tekjum af ferðamönnum í ríkari mæli en nú til nauðsynlegra verkefna sem tengjast ferðaþjónustu, náttúruvernd og styrkingu innviða. Þannig má samhliða ná þeim markmiðum annars vegar að koma til móts við álag af völdum ferðamanna og hins vegar að styrkja samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu í alþjóðasamhengi og þar með auka heildarávinning samfélagsins af atvinnugreininni til langs tíma.

Möguleikarnir til framtíðaruppbyggingar innviða á ferðamannastöðum og verndar náttúrunnar okkar eru gríðarlegir. Þá þarf að nýta betur en nú er gert.

Það þarf að gera skynsamlega kjarasamninga sem taka mið af stöðunni í hagkerfinu

Á sama tíma og staða ríkissjóðs hefur aldrei verið betri, valda ýmsar ytri aðstæður og versnandi rekstrarskilyrði nú erfiðleikum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Mjög mikilvægt er að hafa í huga þegar horft er til þátta sem hafa áhrif á ferðaþjónustuna sem atvinnugrein að það er ekki línulegt samhengi milli fjölda ferðamanna og afkomu ferðaþjónustufyrirtækja.

Mynd: Samtök ferðaþjónustunnarSterkt gengi krónunnar og gríðarleg aukning launakostnaðar hefur stórskaðað samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar í heild og Ísland er því orðinn einn af dýrustu áfangastöðum í heiminum í dag. Þetta hefur ýmis áhrif á íslenska ferðaþjónustu og rekstur fyrirtækja umfram beinna kostnað og hefur margvísleg neikvæð áhrif á hegðun og útgjöld ferðamanna.

Áhrif þessara tveggja þátta koma enn skýrar fram eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu og stofna í hættu þeirri mikilvægu uppbyggingu fjölbreyttari atvinnutækifæra og auknum tekjum sveitarfélaga sem uppbygging ferðaþjónustu í litlum byggðarlögum á landsbyggðinni hefur haft í för með sér á undanförnum árum.Í nýlegri könnun Samtaka atvinnulífsins kom fram að um 43% forsvarsmanna aðildarfyrirtækja SA telja ekkert svigrúm til launahækkana, en meðal forsvarsmanna ferðaþjónustufyrirtækja var hlutfallið mun hærra, eða 65%. Könnunin sýnir einnig að ferðaþjónustufyrirtækji telja svigrúm til launahækkana að meðaltali vera um 1,2% sem er það lægsta meðal allra greina innan SA. Niðurstöður könnunarinnar sýna því að rekstraraðstæður ferðaþjónustufyrirtækja eru mun erfiðari en annarra fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins, þrátt fyrir fjölgun ferðamanna og jákvæðar aðstæður í ríkisfjármálum og efnahagslífi.   

Auglýsing
 

Mynd: Samtök ferðaþjónustunnarSkýrsla KPMG frá október 2018 sýnir svo svart á hvítu hvernig rekstrarskilyrði í ferðaþjónustu hafa versnað síðustu ár. Gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu hefur lækkað á sama tíma og launavísitala, neysluvísitala og byggingarvísitala hafa hækkað. Rekstrarkostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu hefur því aukist mikið. Þar vegur rúmlega 44% hækkun launavísitölu einna þyngst því að ferðaþjónustan er mannaflsfrek grein og hlutfall launagreiðslna af tekjum fyrirtækjanna er því hátt.

Þá sýnir skýrslan svo ekki verður um villst að afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnar eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu og að launakostnaður er mun hærra hlutfall af tekjum þar en á höfuðborgarsvæðinu. Því er ljóst að óraunhæfar launahækkanir í kjarasamningum munu óhjákvæmilega hafa mest neikvæð áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni.

Staðan í dag er þessi: Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa þegar þurft að hagræða mikið vegna kostnaðaraukningar síðustu ára og þegar stjórnendur þeirra eru spurðir hvaða möguleika þeir hafi til að bregðast við þeim kröfum sem settar eru fram við kjarasamningaborðið er svarið einfalt: Draga saman seglin og lækka kostnað. Og við vitum öll hvað það þýðir.

Það þarf að auka  verulega við fjármagn til rannsókna í ferðaþjónustu til að styðja við stefnumótun

Opinber stefnumótun um atvinnugrein þarf að byggja á gögnum og þekkingu á þróun greinarinnar og aðstæðum. Þetta þekkjum við Íslendingar líklega best í samhengi sjávarútvegs. Þar hefur verið byggð upp gríðarmikil þekking á atvinnugreininni og viðfangi hennar sem hefur nýst til að byggja upp sjálfbæran og sterkan iðnað og nýsköpun í sjávarútvegi. Hafrannsóknarstofnun þekkir nú nánast hvern fisk í sjónum og stefnumótandi ákvarðanir um veiðar byggja því á gríðartraustum grunni rannsókna og þekkingar.

Stefnumótun í mikilvægustu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustu, þarf að byggja á sömu nálgun. Það gengur ekki að ár eftir ár séu framlög til rannsókna í ferðaþjónustu miklu, miklu lægri en til annarra atvinnugreina. Það gengur ekki að fjármagn vanti til að byggja upp samanburðarhæf gögn yfir tíma sem nýta má til að fá heildarmynd af þróun atvinnugreinarinnar. Við verðum að byggja markvisst upp þekkingu á viðfangi ferðaþjónustunnar – ferðamanninnum – til að vita hvaða áhrif stefnumótandi ákvarðanir munu hafa á hegðun hans. Mun ferðamönnum fjölga eða fækka ef við gerum svona eða hinsegin? Mun samsetning ferðamannahópsins breytast ef við breytum mismunandi þáttum í stefnumótun? Hvernig þá? Það þýðir ekki að treysta á að reka fingurinn upp í vindinn. Stefnumótun þarf að byggja á tölum en ekki tilfinningu.

Eins og staðan er núna vantar bæði fjármagn til rannsókna og skýrara skipulag á gagnaöflun og rannsóknum í atvinnugreininni. Þeir sem fara með fjárlagavaldið þurfa að átta sig hratt á því að ferðaþjónustan er orðin að einni mikilvægustu burðaratvinnugrein íslenska hagkerfisins. Það gengur ekki lengur að koma fram við hana eins og hobbý. Eins og staðan er í dag þyrfti aðeins að nota 2% af 60 milljarða nettótekjum af ferðaþjónustu til að hækka framlög til rannsókna og markaðsmála í greininni um 100% - úr einum milljarði í tvo. Það myndi auka þekkingu á ferðaþjónustu, auðvelda stefnumótun og uppbyggingu og skila ríki og sveitarfélögum enn meiri tekjum til langs tíma. Það væri augljóslega góð fjárfesting fyrir samfélagið.

Næsta ár býður upp á nýtingu tækifæranna.

Það er ekki hægt að telja upp allt sem máli skiptir í einni grein. Það sem er þessum þremur þáttum sameiginlegt sem taldir eru hér að ofan, er að í þeim liggja tækifæri sem er mikilvægt að nýta. Vorið 2019 verður lögð fram fjármálaáætlun til fimm ára þar sem tækifæri er til að forgangsraða tugmilljarða tekjum af ferðamönnum til verndar og uppbyggingar innviða. Þar er einnig hægt að byrja að lagfæra þá stóru skekkju sem hefur verið í framlögum til rannsókna í ferðamálum miðað við aðrar atvinnugreinar undanfarin ár. Og í janúar þurfa aðilar við kjarasamningaborðið að horfast í augu við staðreyndir hagkerfisins og ná samningum sem byggjast á því sem er til skiptanna í raun og veru. Einungis þannig verða lífskjör byggð upp til framtíðar.

Allt er þetta hægt. Ef viljinn er fyrir hendi.   


Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Arion banki að ná markmiðum sínum og ætlar að dæla fé til hluthafa á næstu árum
Umfram eigið fé Arion banka var 41 milljarður króna í lok mars síðastliðins. Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út um 50 milljarða króna á næstu árum. Hann hefur nú náð markmiði sínu um arðsemi tvo ársfjórðunga í röð.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit