Í skýrslu Innri endurskoðunar Mat á innra eftirliti hjá Reykjavíkurborg – Maí 2011 segir um ábyrgð borgarstjóra: „Borgarstjóri ber ábyrgð á uppbyggingu innra eftirlits hjá borginni í heild sinni gagnvart borgarráði.“
Borgarstjóri ber sem sagt ábyrgð á að innra eftirlit og verkferlar séu í lagi. Ljóst er að þarna brást Borgarstjóri algjörlega skyldu sinni. Því árið 2015 kom út skýrsla frá Innri Endurskoðun Reykjavíkurborgar sem varaði við brotalömum þeim sem urðu til þess að Braggaframkvæmdin fór úr böndunum:
„Á árinu 2015 gerði Innri endurskoðun úttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og skilaði skýrslu þar sem settar voru fram ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Enn hafa ekki verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna. Innri endurskoðun telur að ef úrbætur hefðu verið gerðar og verklag lagfært í samræmi við ábendingarnar hefði verkefnið að Nauthólsvegi 100 ekki farið í þann farveg sem það gerði.“
Stjórnendakeðja brotin – Aukin ábyrgð Borgarstjóra
Borgarstjóri virðist hafa tekið að sér að vera næsti yfirmaður skrifstofu Eigna og Atvinnuþróunar. Þá hlýtur ábyrgð hans að skoðast í samræmi við það:
„Samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og
atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur
farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri
umboðskeðju. Mikil samskipti hafa verið milli fyrrum skrifstofustjóra og
borgarstjóra allt frá stofnun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar,[..]“
Þá má ekki gleyma því heldur að þessi skrifstofa var sett á laggirnar að tillögu fyrrverandi borgarstjóra Jóns Gnarr, þegar hann og Dagur unnu náið saman að því að stjórna borginni árið 2012.
„Það er ekki hlutverk borgarritara né borgarstjóra að hafa beinlínis eftirlit með daglegum verkefnum SEA, það er hlutverk skrifstofustjórans. Þeirra eftirlitsskylda felst í því að kalla eftir upplýsingum og skýrslum.“
Ljóst er að bæði borgarstjóri og borgarritari brugðust þessari skyldu sinni. Því þeir óskuðu aldrei eftir neinum upplýsingum um málið. Eftirlitsskylda þýðir nefnilega ekki að menn eigi að sitja með hendur í skauti og bíða eftir upplýsingunum. Verandi síðan stikkfrí ef þær berast aldrei:
„Borgarritari og borgarstjóri hafa staðfest við Innri endurskoðun að þeir hafi ekki fengið neinar upplýsingar frá SEA varðandi verkefnið.“
Enda hefur ekki komið fram að þeir hafi óskað eftir neinum upplýsingum. Þrátt fyrir skyldur sínar um slíkt.
„Það að fyrrverandi skrifstofustjóri SEA upplýsti ekki sína yfirmenn um stöðu mála leysir þá ekki undan þeirri ábyrgð að hafa heildarsýn yfir rekstur einingarinnar og verkefni hennar. Borgarritara ber sem yfirmanni skrifstofustjóra SEA að fylgjast með því sem er að gerast þar innan veggja með því að kalla eftir skýrslum um framvindu mála.“
Í skýrslu IE er rakið hvernig skrifstofustjóri SEA hafi í raun farið fram hjá Borgarritara með öll sín mál og verið í miklum samskiptum beint við Borgarstjóra:
„Borgarstjóri, sem starfaði samkvæmt því sem að ofan er ritað sem næsti yfirmaður skrifstofustjóra SEA, hefði átt að gegna þeirri stjórnunarlegu skyldu að fara yfir veruleg frávik í verkefnum skrifstofunnar. [..] Draga má þann lærdóm af endurgerð bygginga við Nauthólsveg 100 að skýrslugjöf um framvindu fjárfestingaráætlunar þurfi að veita fyllri mynd af stöðu verka og að það eigi sér stað umræður um frávik sem leiði til fullnægjandi viðbragða. Það er hlutverk borgarritara og eftir atvikum borgarstjóra að kalla eftir því að svo verði.“
Misferslisáhætta mikil vegna skorts á eftirliti
„Almennt eykst misferlisáhætta í beinu hlutfalli við minnkandi eftirlit, minna gagnsæi, minna aðhald stjórnenda og þegar reglum er ekki framfylgt. Niðurstöður Innri endurskoðunar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.“
Ljóst er að eftirlitsleysi af hálfu borgarstjóra ásamt hundsun viðvarana er ein af frumorsökum þess að Braggaverkefnið fór úr böndunum. Ef það var þá nokkru sinni í neinum böndum. Því miður eru „braggaverkefnin“ fleiri. Má þar nefna Hlemm Mathöll, Sundhöll Reykjavíkur, Írabakka og Vesturbæjarskóla. En öll þessi verkefni eru nú til skoðunar hjá Innri Endurskoðun borgarinnar.
(Allar tilvitnanir í greininni eru teknar úr skýrslu Innri Endurskoðunar um Nauthólsveg 100, nema annað sé tekið fram.)