Tugir kjarasamninga losna nú á næstu dögum. Kröfugerðir stærstu stéttafélaganna hafa komið fram og til að setja þær í samhengi er rétt að fara yfir nokkrar lykiltölur eins og þær eru nú á árinu sem er að líða.
1. Stærsti hluti virðisauka til launþega
Launahlutfall er mælikvarði á hvernig virðisauki í samfélaginu skiptist á milli launþega og fjármagnseigenda. Öll iðnvædd ríki eru hluti af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Það er því þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Ekkert land innan OECD er með hærra launahlutfall en Ísland.
2. Næsthæstu meðallaun í heimi
Á Íslandi eru greidd næsthæstu meðallaun í heimi. Aðeins Svisslendingar greiða hærri laun.
3. Þriðju hæstu lágmarkslaun
Á Íslandi eru greidd þriðju hæstu lágmarkslaun í heimi. Aðeins Norðmenn og Danir greiða hærri lágmarkslaun.
4. Mesti tekjujöfnuðurinn og eignajöfnuður eykst
Gini-stuðullinn mælir tekjudreifingu innan landa. Því lægri sem stuðullinn er, því meiri er jöfnuðurinn. Ísland er með lægsta Gini-stuðulinn og því með mesta tekjujöfnuð í heimi. Ekki er til góður samanburður á eignaójöfnuði milli landa. Sé hlutdeild eignamestu Íslendinganna í heildareignum skoðuð þá sést að hún hefur farið minnkandi á hverju ári frá árinu 2010 sama hvort litið er til þeirra 0,1%, 1%, 5% eða 10% eignamestu. Eignajöfnuður á Íslandi er því að aukast.
Verkefnið framundan
Þegar tölurnar hér að framan eru skoðaðar sést að staða okkar er mjög góð. Launhækkanir umfram það svigrúm sem er til staðar myndu hleypa af stað verðbólgu sem myndi leiða þess að þær myndu ekki skila sér til launfólks með hærri kaupmætti. Á sama tíma myndi samkeppnishæfni útflutningsgreina okkar versna og atvinnuöryggi launafólks þar með minnka. Það ætti að vera sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðarins og ríkisins að standa vörð um þessa sterku stöðu nú. Það verður fyrst og fremst gert með launhækkunum innan þess svigrúms sem er til staðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.