Í sumar komu fram vísbendingar um að markaður fyrir græn skuldabréf sé að þróast í áhugaverðar áttir. Greinendur evrópskra samtaka á fjármálamarkaði, AFME, komust að því að fjárfestar væru reiðubúnir að borga hærra verð fyrir skuldabréf sem eru gefin út til að fjármagna umhverfisvæn verkefni, heldur en fyrir sambærileg, hefðbundin skuldabréf.
Þetta birtist í skuldabréfaútboði franska ríkisins sem stóð á fyrri hluta ársins en í gegnum það sótti franska ríkið sér næstum 10 milljarða evra til umhverfistengdra verkefna.
Þetta eru áhugaverðar fréttir fyrir útgefendur skuldabréfa, ríkissjóði, sveitarfélög og stór fyrirtæki sem leitast eftir því að fá hagstæða fjármögnun á verkefni sem stuðla að aukinni sjálfbærni og auknum lífsgæðum um leið og þau leggja sitt af mörkum til að framfylgja markmiðum Parísarsamkomulagsins um aðgerðir í loftslagsmálum.
Hingað til hafa útgefendur skuldabréfa ekki getað búist við því að fá hagstæðari fjármögnun á græn skuldabréf en önnur, en vísbendingar úr franska skuldabréfaútboðinu benda til þess að það sé að breytast, hægt en örugglega.
Á sama tíma hefur markaður fyrir græn skuldabréf rokið upp og var á fyrsta fjórðungi ársins 10 prósentum stærri en á sama tíma í fyrra. Heildarvirði útgefinna grænna skuldabréfa á fyrri helmingi ársins nam 77 milljörðum dollara samkvæmt samantekt Moody‘s og væntingar þeirra sem fylgjast með markaðnum standa til þess að markaðurinn með græn skuldabréf stækki verulega á milli ára.
En hvað eru græn skuldabréf?
Græn skuldabréf eru fullkomlega sambærileg við önnur skuldabréf sem gefin eru út nema að því leyti að útgefandinn lýsir því í útboðinu hvernig hann hyggst verja fénu sem er sótt til umhverfistengdra verkefna, hvort sem er í endurnýjanlegri orku, í verkefni sem draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, eða til strandhreinsunar, landhreinsunar eða stækkunar vatnsverndarsvæða. Þar er farið eftir alþjóðlega samþykktum viðmiðum og mælikvörðum.
Í grænni skuldabréfaútgáfu er nauðsynlegt að skuldabréfið sé vottað af sérhæfðum vottunaraðila sem vottar að skuldabréfið standist kröfur um að vera grænt.
Landsvirkjun frumkvöðull
Á Íslandi hefur Landsvirkjun gengið fremst á þessu sviði og er eini íslenski aðilinn sem hefur gefið út grænt skuldabréf. Það gerði fyrirtækið fyrr á árinu þegar það sótti sér 200 milljónir dollara á bandarískan skuldabréfamarkað. Frumraunin heppnaðist vel og skráðu fjárfestar sig fyrir sjöföldu því andvirði sem upphaflega var boðið út, sem varð til þess að Landsvirkjun sótti sér tvöfalda þá upphæð sem upphaflega var stefnt að.
Útboðið byggði á ramma sem Landsvirkjun hafði útbúið vegna útgáfu grænna skuldabréfa en sá rammi byggði síðan á viðmiðum International Capital Market Association (ICMA) og fjórum stoðum um ráðstöfun fjármuna; ferli um mat og val á verkefnum; um stýringu fjármuna og um upplýsingagjöf. Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Sustainalytics gerði úttekt á ramma Landsvirkjunar.
Landsvirkjun var einnig frumherji á bandaríska skuldabréfamarkaðnum sem hafði ekki áður fengið sambærilega útgáfu. Þá gerði úttektaraðilinn undanþágur frá stærðarmörkum þeirra verkefna sem til stóð að fjármagna vegna þess hversu grænar íslenskar vatnsaflsvirkjanir eru taldar. Ætla má að Landsvirkjun hafi brotið blað þar sem aðrir útgefendur skuldabréfa á Íslandi ættu að geta litið til fordæmis fyrirtækisins og lært af skuldabréfaútgáfunni hvernig unnt sé að fjármagna stór verkefni.
Nýtt svið fjármögnunar
Það er þó nauðsynlegt að þekkja til hlítar allar hliðar grænnar skuldabréfaútgáfu áður en lagt er af stað. Margar fjármálastofnanir eru að afla sér reynslu af slíkri útgáfu og samvinnan á eftir að styrkjast milli útgefanda skuldabréfsins, ráðgjafanna á fjármálamarkaði og hinna sérhæfðu vottunarfyrirtækja. Þá eru komnar fram kröfur um að vottunaraðilarnir þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði og að lagaramminn kringum starfsemi þeirra verði styrktur til að koma í veg fyrir grænþvott.
Sænska ríkið ákvað í fyrra að leggjast í mikla úttekt á kostum þess og göllum fyrir ríkissjóð að fjármagna verkefni í auknum mæli með grænum skuldabréfum. Í ítarlegri skýrslu sem kom út fyrr á árinu er mælt með því að sænska ríkið feti sig áfram á þessari braut enda sé um áhugaverða leið að ræða fyrir ríki sem vilji standa sig vel í því að takast á við loftslagsmálin.
Frakkar hafa verið frumkvöðlar í grænni skuldabréfaútgáfu en nýverið hafa Belgar og Pólverjar bæst í hópinn. Markaðurinn fyrir græn skuldabréf er á fleygiferð en með útgáfu grænna skuldabréfa ná ríki og borgir að slá margar flugur í einu höggi. Verði fjármögnunin einnig hagstæðari eins og tölurnar frá Frakklandi gefa til kynna, verður enn meiri hvati til þess að leita þessara nýju leiða til að fjármagna innviðafjárfestingar til lengri tíma þar sem í senn er framfylgt metnaðarfullri stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum, og rekin skynsamleg stýring á fjármunum ríkisins. Með þeim hætti ættu allir að geta hagnast.
Áhrif fyrir Ísland
Hér á landi má sjá fyrir sér fjöldamörg verkefni sem hægt væri að fjármagna innan lands og utan með útgáfu grænna skuldabréfa. Stór almenningssamgönguverkefni eins og Borgarlína ættu að koma þar sterklega til greina en hvers kyns verkefni tengd endurnýjanlegri orku, orkusparnaði, minni útblæstri og bættri úrgangsvinnslu ættu einnig að vera í takt við skilyrði um græna starfsemi. Nauðsynlegt er að hefja umræðuna hér á landi og fyrir stjórnvöld, sveitarfélög og stór fyrirtæki að þekkja til hlítar hvernig græn skuldabréfaútgáfa virkar í raun.
Þessar upplýsingar færa heim sanninn um að hver sú áætlun í loftslagsmálum sem ætlar að ná árangri, verður að fela í sér tæki fyrir fjárfesta og fjármálamarkað til þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfis- og loftslagsmálum. Þar getur Ísland ekki orðið eftirbátur annarra ríkja.
Tvö vegamikil atriði:
1. Skuldabréfaeigendur þrýsti á fyrirtæki um ábyrga breytni
Auknar kröfur um ábyrgar fjárfestingar og að þær uppfylli skilyrði um jákvæð umhverfisáhrif, samfélagsábyrgð og góða stjórnarhætti hafa leitt til þess nýsköpunar á fjármálamarkaði.
Eitt af þvi sem oft er rætt á ráðstefnum um ábyrgar fjárfestingar er að fjárfestar þurfi ekki einungis að einblína á hlutabréfaeign þegar þeir fjárfesta ábyrgt. Líki þeim ekki frammistaða fyrirtækja, geti fagfjárfestar hætt að fjármagna fyrirtækin með því að endurnýja ekki skuldabréfasamninga þegar þeir renni út. Með þeim hætti geti fagfjárfestar haft áhrif á starfsemi fyrirtækjanna umfram það sem þeir geta á hluthafafundum.
2. Nýsköpun í skuldabréfageiranum
Eftir því sem markaði fyrir græn skuldabréf vex ásmegin, hefur framboð af annars konar skuldabréfaútgáfu sem nýtist til samfélagslegra verkefna aukist.
Undanfarið hefur markaður fyrir skuldabréf um samfélagslegar fjárfestingar (Social Bonds) þar sem fjármagnið af skuldabréfaútgáfunni er nýtt til samfélagslegra verkefna, og um Sjálfbæra þróun (Sustainable Development Bonds) stækkað verulega, en þar er miðað við að ávinningurinn af skuldabréfaútgáfunni fari til þess að uppfylla einhver tilteknin af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til 2030.
Þá hefur Evrópski fjárfestingabankinn EIB nýlega gefið út skuldabréf til fagfjárfesta til að fjármagna verkefni um sjálfbæran vatnsbúskap. Bankinn gaf út bréf fyrir 500 milljón evrur í sjö og hálft ár með 0,445% ávöxtunarkröfu. Fjárfestar skráðu sig fyrir meira en tvöfaldri upphæðinni. Fjármagnið verður notað til að fjármagna verkefni til að auka framboð á hreinu vatni, í fráveitur og til flóðavarna.
Bankinn hefur sagt að hann ætli að beita sambærilegri skuldabréfaútgáfu til að fjármagna verkefni í heilbrigðis- og menntamálum. EIB var fyrstur alþjóðlegra banka til að gefa út grænt skuldabréf fyrir áratug og býr að þeirri reynslu við að gefa út sjálfbærniskuldabréf á þessu ári. Samtals hefur bankinn aflað 23 milljörðum evra í grænni skuldabréfaútgáfu.
Werner Hoyer forstjóri EIB segir að markmið bankans sé að finna leiðir til að virkja eitthvað af þeim 6 trilljónum dollara sem þarf til þess að uppfylla Heimsmarkmiðin á næstu 15 árum.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu í september síðastliðnum. Hægt er að gerast áskrifandi hér.