Mig langar að stíga til baka og horfa yfir sviðið og skrifa svo eitthvað um það sem ég sé þegar eitt ár hefur klárast og annað ár er að hefjast, mig langar að segja Svona var það og Svona verður það.
Mig langar að segja eitthvað um vinnuafl sem vinnur vinnu, um fjármagn sem vinnur fyrir fjármagseigendur, um stjórnmálastétt sem heldur ennþá að það sé nýsköpun að vera teknókrasía fyrir nýfrjálshyggjuna þó að almennt sé álitið í alþjóðlegum alþýðukreðsum að strax árið 2008 hafi það orðið mjög passé. Mig langar að segja eitthvað um efnahagslega og pólitíska valdastétt sem talar með tveimur tungum í einum munni; hér er allt með besta mögulega móti og margvísleg efnhagsleg vandamál og ógnir sem steðja að, guð hvað allt er gott og jesús hvað kollsteypan er á næsta leiti, bylgja fer upp og bylgja fer niður, við komumst á heimsminjaskrá fyrir þennan rússíbana ef við stöndum bara saman. Mig langar að segja eitthvað um raunveruleika þeirrar stéttar sem ég tilheyri og veruleika þeirrar stéttar sem ég tilheyri ekki. Mig langar að segja eitthvað um grundvallarmuninn á afstöðunni til þjóðfélagsins, um langanir annars vegar og hótanir hins vegar. Mig langar að segja eitthvað um að langa í smá pening. Mig langar að segja eitthvað um að þrá heimsendi til að komast hjá því að þurfa að útdeila smá pening og eitthvað um óþolandi fólks sem skilur ekki neitt, skilur ekki náttúrlögmál um stigveldi, skilur ekki náttúrulögmál um að einhver þurfi alltaf að vera neðst svo önnur geti alltaf verið efst. Mig langar að segja eitthvað um að vera óþolandi fólk.
Mig langar að stíga til baka og horfa yfir sviðið og lýsa því sem ég sé, eins og fullorðin manneskja, eins og fullorðin láglaunakonu-manneskja: Hér er ekkert í boði fyrir láglaunakonuna. Hún á ekkert fjármagn, engin atvinnutæki, ekkert nema tvær hendur og eitt hjarta og þessvegna hafa þau sem stjórna, þau sem eiga, ekkert að bjóða henni. Að eiga ekkert nema eigin líkama er svo ómerkilegt að það nennir enginn lengur að hugsa um svoleiðis fólk, fjórða iðnbyltingin mun hvort sem er innan skamms leysa svoleiðis fólk af hólmi. Enga framtíðarsýn, engar lausnir, ekkert val, ekkert frelsi, ekkert pláss; þau sem stjórna eiga meira pláss og fleiri lausnir fyrir forritara framtíðarinnar sem geta forritað skúringaróbotana og barnapíuvélkonurnar en fyrir vinnukonur samtíðarinnar.
Mig langar að segja: Innan hugmyndaheims þeirra sem stjórna eru engin svör handa þeim sem strita til að hafa í sig og á. Láglaunakonan þarf því að horfast í augu við að ekki er hægt að feta áfram sömu braut, ekki er hægt að bíða eftir því að stjórnmálin færi henni réttlæti. Hún þarf að horfast í augu við þá staðreynd að á meðan stjórnmálin eru ennþá heltekin af því að viðhalda stöðugleika með því að lifa eftir heimssýn auðhyggjunnar um að best sé að ríkt fólk verði ríkara og eignalaust vinnuafl haldi áfram að fokka sér, á meðan auðstéttin er heltekin af því að stöðugleiki verði aðeins tryggður með því að kæfa í fæðingu allar kröfur um réttlátari skiptingu gæðanna, á meðan enginn vill stjórna einu né neinu með það í fyrirrúmi að leyfa skúringakonunni og barnapíukonunni að eiga skemmtilegt líf, á meðan þau sem stjórna segja þessum konum að skúra sig innað miðjunni svo að þær megi þar lifa sem „hagsmunaaðilar vinnumarkaðarins“ í lífstíðarlöngu hjónabandi við aðra hagsmunaaðila vinnumarkaðarins, menn sem þær voru aldrei spurðar hvort þær vildu giftast, menn sem fara ekki um þær neitt sérstaklega mjúkum höndum; já, hvað þarf láglaunakonan að horfast í augu við?
Kannski það að hún tilheyrir stétt. Kannski það að hún þarf stéttabaráttu. Kannski það að hún þarf stéttabaráttu af því að öllum sem eiga og öllum sem ráða og öllum sem mega á Íslandi er meira umhugað um „einingu þjóðarinnar“ en það að sumt fólk á ekki einu sinni nóg af þúsundköllum til að duga í einn mánuð.
Kannski þarf hún að horfast í augu við að í lífi hennar bókstaflega kristallast munurinn á stétt og stétt, í því kristallast munurinn á þeim raunveruleika sem hún, vinnuaflið, gerir þjóðfélaginu sýnilegan einfaldlega með lífi sínu og lífskjörum, og hins vegar veruleika valdastéttarinnar; við erum öll að vinna að sama markmiði, Guð blessi Ísland, það er hlutverk láglaunakonunnar að sýna undirgefni, hlýðni, nægjusemi og skal hún því samstundis láta af allri uppivöðslusemi því annars munu fjármagnseigendur ekki eiga annara kosta völ en að koma eigum sínum undan til Panama og Tortóla, svona rétt áður en flugsamgöngur leggjast af afþví hún er svo klikkuð að vilja fá 425.000 krónur í laun og hvaða kona vill eiginlega bera ábyrgð á svoleiðis hamförum?
Kannski þarf hún að horfast í augu við að tvöfeldnin umlykur líf hennar: Hún er einn af hagsmunaaðilum vinnumarkaðarins með 358.000 krónur á mánuði á meðan hinir hagsmunaaðilarnir eru með svona frá einni komma sex milljónum uppí sirka sjö milljónir, hún hefur aðgang að sjúkrasjóð á meðan hinir hafa aðgang að þjóðarsjóð, hún hefur aðgang að tveggja herbergja leiguíbúð meðan hinir hafa aðgang að íbúðum sem fjárfestingartækifærum, hún sjálf getur aldrei orðið sameiningartákn en það er mikilvægt að hún sýni sameingartáknum virðingu þegar þau sigla hjá, að aukinn kaupmáttur annara hlýtur að vera huggun harmi gegn þegar hún drífur sig af stað í vinnu númer tvö, að þegar hún kemst á eftirlaun og fær því sem næst ekki neitt fyrir öll skúruðu gólfin og öll pössuðu börnin þá á hún að muna að Ísland er til algjörrar fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi þegar kemur að jafnrétti kynjanna og mun eflaust sjálft geta sæmt sig Fálkaorðu fyrir það afrek mjög fljótlega.
Mig langar að stíga til baka og bjóða uppá yfirsýn og innsýn en mér líður svo skringilega; mér líður eins og ég sé föst og ég get ekki stigið til baka og horft fyrst hingað og svo þangað. Ég er pikkföst í skrítnu skapi og ef ég á að vera alveg heiðarleg, 100% heiðarleg akkúrat núna, þá langar mig bara að segja að ég skil ekki af hverju það má ekki deila gæðunum jafnt. Mig langar bara að segja það og mig langar líka pínkulítið að einhver svari mér. Sem láglaunakonu finnst mér jafnvel að einhver skuldi mér svar, næstum eins mikið og hann skuldar mér pening.
Ég skil ekki af hverju við viljum búa til samfélag þar sem sum eiga allt og önnur ekkert, þar sem sum fá afhentan milljarð fyrir að hafa lifað eitt ár í viðbót og önnur vinna alla sína mannsævi og fá ekkert afhent fyrir alla sína ótal einstöku manneskjutíma, þar sem sum eiga 13 íbúðir og önnur eiga enga íbúð, þar sem sum ferðast um víða veröld og önnur fara ekkert, þar sem sum eignast næstum allt og önnur tapa næstum öllu, þar sem skúringarkonan og barnapíukonan fá 358.000 krónur á mánuði fyrir að nota hendurnar sínar og hjörtun sín og mega aldrei láta sig dreyma um neitt meira af því að þær eru útvaldar til að axla stöðugleikann, útvaldar til að bera þungar byrðar fyrir hina heilögu þrenningu Stöðugleika, Hagvaxtar og Íslands, af því að þær eru útvaldar til að sanna efnahagsleg lögmál þeirra trúarbragða sem stunduð eru hér. Af því að tíminn er allt og þær eru ekkert, aðeins hræ tímans.
Ég ætti að stíga og horfa, benda og segja en klukkan er margt og þetta var skrítinn dagur og ég er í skrítnu skapi og mig langar bara að segja tvennt akkúrat núna:
Af hverju má ekki deila gæðunum jafnt?
Og:
Ég vona að allar láglaunakonur á samræmdum íslenskum láglauna-vinnumarkaði sameinist í baráttunni fyrir meira plássi, meira réttlæti, meira örlæti, meiri peningum, meira öryggi og meira frelsi. Ef við gerum það eigum við í það minnsta séns á því að mennirnir með þrjár og hálfa milljón á mánuði telji sig ekki hafa alveg jafn mikið pláss, ekki alveg jafn mikinn rétt á því að segja okkur að við höfum bara því miður fengið nóg, það sé einfaldlega óábyrgt í þjóðhagslegum skilningi að afhenda okkur meira. Ef við gerum það eigum við í það minnsta séns á því að komast aðeins nær því að fá sjálfar að verðleggja vinnuaflið okkar, aðeins nær að fá sjálfar að ákveða hve mikils virði við erum, bæði í samfélagslegum og þjóðhagslegum skilningi. Það er því sannarlega til einhvers að vinna. Mig langar bara að segja það.