Segja má að 20. öldin hafi birt okkur í hnotskurn heiminn sem þorp; þyrpingu af húsum þar sem fólk býr og deilir sameiginlegu rými; gengur um sömu göturnar, skiptist á vörum og orðum og tengist hvert öðru margvíslegum böndum, bæði efnahagslegum og siðferðilegum. Það hefur nefnilega komið á daginn að jörðin er í raun lítil og að allt mannkyn deilir sameiginlega þessu litla rými, reiðir sig á sömu gæðin og hversdagslegar athafnir í einum afkima þessa heimsþorps hafa áhrif á fólkið sem býr á fjarlægum jaðri þess.
En í öðrum skilningi er heimurinn sorglega langt frá því að vera þorp. Sumt fólk streitist við að loka sig af í eigin kima og vill byggja múra til að halda öðrum í burtu. Og svo eru þeir sem láta eins og jörðin sé óendanlega stór, að hún geti endalaust skaffað meira og tekið við meiri úrgangi. Þeir sem mestu ráða gera hvað þeir geta til að vinna gegn þeim þorpsbrag sem annars hefði kannski getað þróast og eiga sér marga viðhlægjendur í þeirri iðju.
Utan garðs
Á sama tíma og við finnum svo tilfinnanlega fyrir því hvað jörðin er lítil eru reistir múrar og leitast við að búa til ný landamæri til að sundra rýminu. Á sama tíma og örlög fólks hnýtast sífellt þéttar saman, vaxa upp hópar, fjölmennir og háværir, sem varpa út þeim boðskap að fólk sé í raun svo ólíkt hvað öðru að við eigum enga samleið. Eða öllu heldur, skilaboðin eru þau að ekki sé til neitt „við“ sem nær yfir allt mannkyn. „Við erum svo sérstök,“ er sagt, og síðan bætt við til áréttingar: „Annað fólk (ef fólk skyldi kalla) er svo ólíkt að það ógnar sérleika okkar“.
Á meðan fólki er skipt í „okkur“ og „aðra“ – það fólk sem býr innan múranna og svo það sem eru utan þeirra og þar með fyrir utan lög og rétt – er lítið vit í að tala um heiminn sem þorp. Þegar það fylgir sögunni að það sem sameini „okkur“ og aðgreini frá „hinum“ er hversu ólíkir þessir tveir hópar eru, þá er hugmyndin um heimsþorp vart annað en fjarlægur draumur.
Þorpin eru og hafa verið af ólíku tagi. Sum einkennast af jöfnuði og samhygð, önnur lúta kannski sterku og óbilgjörnu yfirvaldi. Hvernig sem þessu er farið eru þorpsbúar allir settir undir lög og reglu – réttlát eða ranglát eftir atvikum – en hinir sem ekki tilheyra þorpinu – þau sem eru utan garðs – eru líka utan við lög og rétt. Ef allur heimurinn væri þorp þá væru engir utan við lög og rétt, það væri ekkert utangarðsfólk því þorpið næði yfir allt rýmið. En á hverjum degi erum við sorglega minnt á að fjöldi fólks býr utan við lög og rétt. Múrarnir sem aðskilja fólk eru ekki lengur hlaðnir úr grjóti (nema í Ísrael og á nokkrum öðrum stöðum) heldur með lögum og reglum. Við sem erum innan múranna teljum okkur kannski trú um að lögin og reglurnar séu sett til að stuðla að almannaheill. Og í vissum skilningi er það rétt, þau eiga að stuðla að heill þeirra sem eru innan múranna en skeyta litlu eða engu um þá sem eru utan garðs.
Lífsverkefnið
Lífsverkefni hverrar manneskju er að finna lífi sínu farveg og merkingu. Þetta verkefni er best unnið í tengslum við annað fólk og í snertingu við umhverfið, bæði manngert og villt. Hugmyndin um að heimurinn sé þorp er falleg því hún lætur í ljósi von um að sá brunnur sem við getum ausið úr til að ljá lífi okkar merkingu þekki engin takmörk hér á jörð. Kannski mætti segja að hugmyndin um heimsþorp sé í raun hugsjón um ótakmörkuð samskipti og óþrjótandi þrá eftir gagnkvæmum skilningi. Og raunar fæli hún þá einnig í sér hugsjón um ótakmarkaða ást, ekki rómantíska ást heldur ást sem birtist í innilegri þrá eftir fegurð og sannleika. Slík ást fer ekki í manngreinarálit heldur hefur hún sig yfir hverskyns sundrungu því það er einungis með því að nálgast aðra manneskju sem elskuverða sem hægt er að skilja hana.
En því miður er heimurinn ekki þorp og samskipti fólks einkennast ekki af þrá eftir gagnkvæmum skilningi. Samskipti sem einkennast af græðgi, valdafýsn og oflæti eru of algeng. Og það er ekki nóg með að slík samskipti séu algeng, heldur er þeim jafnvel hampað af fólki í valdastöðum (kannski ættum við að hugsa um Klausturmálið í þessu samhengi.)
Sundrung heimsins
Sundrung heimsins er samt ekki bara til komin vegna græðgi, valdafýsnar og oflætis. Þær raddir verða sífellt háværari sem segja að frábrigði fólks séu til marks um óyfirstíganlegan mun og að sérstöðu menningarinnar stafi ógn af því sem er framandi eða ólíkt. Stundum eru þessi sjónarmið sett fram með fræðilegri íhugun, öðrum stundum bera þau frekar vott um hræðslu við það sem er framandi.
Þegar ég var námsmaður vestur í Calgary í Kanada fyrir ríflega tuttugu árum kaus fólk í Quebec fylki um hvort það ætti að segja sig úr lögum við Kanada og stofna sjálfstætt ríki. Rökin fyrir því að fylkið ætti að vera sjálfstætt voru m.a. þau að fólkið í Quebec væri öðruvísi en aðrir Kanadabúar, ekki síst af því að það talaði annað tungumál og ætti sér franskan uppruna en ekki enskan. Í Calgary kynntist ég Vestur-Íslendingum, m.a. Þórdísi Gutnick sem hafði alist upp sem íslensk stúlka í vatnahverfinu í Saskatchewan, næsta fylki vestan við Winnipeg. Þórdís gaf ekki mikið fyrir þau rök að Quebec ætti að vera sjálfstætt af því að fólkið þar væri svo frábrugðið öðrum Kanadabúum. Hún var samt alveg sammála því að frönskumælandi íbúar í Quebec væru frábrugðnir öðrum, en hún bætti því við að í Kanada væru allir í raun frábrugðnir. Hún sem hafði alist upp á íslensku heimili á sléttum Saskatchewan gifst síðar Nelson, sem var af gyðingaættum og kom úr allt annars konar umhverfi. Þau höfðu sest að í villta vestrinu í Kanada, unnið langa starfsævi sem félagsráðgjafar, ekki síst með frumbyggjum Kanada, sem reyndar virtust oft gleymast í allri umræðunni um hverjir væru eins og hverjir væru öðruvísi.
Sannleikurinn er sá að ef við höfum hugrekki til að opna huga okkar fyrir því sem eru öðruvísi – og líka hlusta á þá sem eru annarar skoðunar, hafa aðra sögu að segja og sjá lífið í öðrum litum – þá verður sá brunnur merkingar sem við getum sótt í til að finna lífinu gildi bæði dýpri og margslungnari. Lífið verður ríkulegra.
Sá sem lokar á margbreytileikann kann að gera það af heimsku eða hugleysi. Stundum er það ósjálfrátt viðbragð sem viðkomandi er tilbúinn að endurskoða þegar tími og tilefni gefast en því miður er of algengt að margbreytileika heimsins sé mætt með þröngsýni og þvergirðingshætti. Það er ekki endilega sársaukalaust að opna hjarta sitt fyrir þeim heimi sem við byggjum; að leyfa öðrum manneskjum að hræra við tilfinningum manns og hugsunum. Það sem blasir við er ekki alltaf fallegt og þær tilfinningar sem kvikna í brjóstinu eru ekki endilega þægilegar; stundum verðum við reið, stundum döpur.
Það þarf hugrekki til að opna hjarta sitt og leyfa sér að elska heiminn. Stundum kann að virðast hagfelldara að loka sig af og njóta þeirra gæða sem í hendi eru; bregða hönd fyrir augu og láta hinn stóra heim sigla sinn sjó. Heiðrekur Guðmundsson frá Sandi orðaði þetta með eftirfarandi hætti í kvæðinu „Ég minnist þess“. Síðasta erindið er svona:
Er ljómar sól og lífið fegurst er
og loginn skín við jökultindinn háa,
við skraut og munað skeikar gleðin mér,
þá skynja ég næmast kvöl hins hrjáða og smáa.
Þá finnst mér allt, sem fyrir augu ber,
af fegurð snautt og tengt við strætið gráa.
– Þeim líður best sem lítið veit og sér
og lokast inni í fjallahringnum bláa.
En það sem er hagfellt er ekki endilega gott eða rétt. Þótt manni kunni að líða vel inni í fjallahringnum bláa þar sem hnökrar heimsins eru utan sjónmáls, þá er ekki þar með sagt að slíkt líf sé gott líf. Skeytingarleysi um hagi annarra kann að forða manni frá ónotum, jafnvel sársauka, en skeytingarleysi er ekki dygð heldur löstur.
Hugsjón fyrir nýtt ár
Það gefur vart fegurri hugsjón fyrir nýtt ár en þá að fólk byggði heiminn eins og hann væri þorp. En því miður er sú hugsjón vart annað en fjarlægur draumur á meðan þeir sem mestan mátt hafa virðast einbeittir í því að una sælir við eigin forréttindi og heimsku – loka sig inni í fjallahringnum bláa – og hampa eigin skeytingarleysi sem dygð hins sterka.
En getur ein lítil manneskja gert eitthvað þegar heimskan og valdið ganga fram hönd í hönd? Hver manneskja er í raun máttug; þar sem hún mælir göturnar á venjulegum skóm, bundin sínu daglega amstri, býr hún yfir mætti til að skapa þorpsbrag á þessum annars ótrúlega heimi. Þorp verður ekki til fyrir tilstilli valdboðs, heldur verður það til þar sem fólk mætist af vinsemd og með samvinnuhug í hversdagslegum athöfnum. Þar sem handtakið einkennist af hlýju fremur er stjórnsemi, þar sem tillitið lýsir viðurkenningu frekar en skeytingarleysi og þar sem samskiptin einkennast af því að hver sem er á sér líf og sögu.