Hreiðar og Magnús.
Karen Millen og ég höfum verið talin „vinir Kaupþings“, en þar sem við vorum notuð í svikamyllu sem þið bjugguð til, og tíu árum síðar hefur Kaupþing stefnt okkur á nýjan leik vegna svika ykkar, þá viljum við koma eftirfarandi á framfæri.
Kaupin á Karen Millen árið 2001 voru fyrstu erlendu viðskiptin sem Kaupþing tók þátt í. Í kjölfarið vorum við hvött til að kynna aðra viðskiptavini fyrir bankanum, eins og Ármann Þorvaldsson sagði frá í bók sinni „Ævintýraeyjan“.
Við unnum með Kaupþingi frá árinu 2001 og litum á ykkur sem viðskiptafélaga og „vini“.
Þann 6. ágúst 2008 misnotuðuð þið ykkur hins vegar traust okkar með því að nota okkur í samsæri með Deutsche Bank til að lækka skuldatryggingarálag Kaupþings. Við vorum nauðsynleg í svikunum eins og lýst er í kröfu gegn Deutsche Bank (skjal 1). Sakamálarannsóknin sem fylgdi í kjölfarið skaðaði orðspor okkar og möguleika okkar til að stunda áfram viðskipti.
Hreiðar, þann 6. ágúst 2008 hringdir þú í mig og sagðir mér að Kaupþing væri „komið í gegnum versta storminn“ og spurðir mig hvort ég vildi kaupa fleiri hlutabréf í bankanum, án þess að nefna magn. Ég man daginn vel því ég var í París vegna afmælis eiginkonu míns.
Magnús, þú sendir mér svo tölvupóst þann 18. ágúst 2008 (skjal 2) þar sem þú staðfestir að „við“ (sem þýðir Kaupþing banki í Lúxemborg, eins og kemur fram á yfirliti mínu: skjal 3) hefðum keypt 17.300.000 hluti í Kaupþingi. Þessi hlutabréf voru skráð á mitt nafn en eigandi þeirra var Kaupþing í Lúxemborg. Bankayfirlit mitt sýnir að Kaupþing í Lúxemborg lét mig fá yfirdrátt vegna þessa án þess að láta mig vita.
Hreiðar, þú varst svo ákærður hinn 19. september 2016, vegna viðskipta með þín eigin bréf í Kaupþingi sem þú seldir sama dag og þú hringir í mig, 6. ágúst 2008. Í útdrætti úr ákærunni segir (skjal 4) að hún sé á „hendur ákærða Hreiðari Má fyrir innherjasvik með því að hafa 6. ágúst 2008 selt 812.000 hluti í Kaupþingi banka hf., sem hann keypti í eigin nafni sama dag, til einkahlutafélagsins Hreiðars Más Sigurðssonar kt. 500506-1990, sem var í eigu og laut stjórn ákærða, fyrir 571.648.000 krónur þrátt fyir að hafa þá búið yfir innherjaupplýsingum um Kaupþing banka hf. sem hann var áskynja um í starfi sínu sem forstjóri þess banka og lutu að því að skráð markaðsverð hlutabréfa í bankanum gaf á þessum tíma ranga mynd af verðmæti þeirra og hærri en efni stóðu til, vegna langvarandi markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum sem þá hafði staðið yfir að minnsta kosti frá nóvember 2007 og ákærði átti þátt í.“
Hæstiréttur Íslands dæmdi þig svo Hreiðar (skjal 5) þann 6. október 2016 í fangelsi fyrir hið meinta lán sem veitt var þann 6. ágúst 2008 án samþykkis, þar á meðal minnar.
Eftir hrunið þann 12. nóvember 2008 færðir þú tap Karenar, vegna kaupa þinna á skuldabréfum Kaupþings, inn á minn reikning í Kaupþingi í Lúxemborg án þess að segja mér frá því.
Þann 10. september 2008 sendi Ármann Þorvaldsson eftirfarandi tölvupóst til mín (skjal 7):
„Hæ Kevin. Það er æðislegt hversu vel þér gengur með All Saints, og ég gæti ekki verið ánægðari fyrir þína hönd – mikill árangur. Fólk er hrifið! Ég get flesta daga í október, ég myndi stinga upp á fimmtudaginn annan eða áttunda. Gengur það? Annars er ég mjög góður og okkur gengur vel í að koma okkur út úr krísunni (sjö, níu, þrettán). Bestu kveðjur, Ármann.“
Hinn 25. september 2008 sendi ég ykkur báðum uppfærslu á eignasafni mínu í Kaupþingi í Lúxemborg sem var sett saman af endurskoðanda mínum, Tony Bogod, þar sem stuðst var við tryggingarhlutföll og eiginfjármöt samþykkt af Magnúsi. Tony Bogod sagði að eignasafnið væri innan áður samþykktra viðmiða og að innan þess væri eigið fé upp á 105 milljónir punda.
Sama dag, eftir stjórnarfund í Kaupþingi (þar sem þú felldir úr gildi ábyrgð starfsmanna bankans á lánum sínum vegna þess að þú vissir að bankinn væri gjaldþrota), þá svaraði þú uppfærslu minni Hreiðar, klukkan 19:00 (skjal 8):
„Sæll Kevin og takk fyrir upplýsingarnar, það er uppörvandi að sjá hversu mikill fagmaður þú hefur verið og við erum mjög hrifnir af þinni Kaupthinking!
Ég, Magnús og Ármann hlökkum til næstu mánaða og að vinna náið með þér við að ná þínum markmiðum og styðja við hugmyndir þínar. Ég þarf kannski ekki að segja þér, en þú hefur unnið þér inn mikla virðingu meðal okkar vegna þess hvernig þú hefur tæklað þau vandamál sem við höfum lent í.
Allt það besta, Hreiðar.“
Þann 6. október 2008 tókst þér, Hreiðar, á ótrúlegan hátt að plata Seðlabanka Íslands til að lána Kaupþingi 500 milljón evrur þegar þú vissir að Kaupþing var gjaldþrota; þú notaðir svo 171 milljón evrur af peningum landa þinna til að borga niður skuld Kaupþings í Lúxemborg við Lindsor Holdings Corporation (skjal 9) til að undirbúa yfirtöku þína á Kaupþingi í Lúxemborg (greiðslustaðfesting, skjal 10).
Seðlabanki Íslands endurheimti aldrei þessar 171 milljón evrur sem þú millifærðir til Lúxemborgar.
Áætlun ykkar um að taka yfir Kaupþing í Lúxemborg fól í sér að þið báðir misnotuðuð aðstöðu ykkar til að færa skuldir frá Lúxemborg til Íslands án samþykkis réttra aðila, sem bjó til meira en milljarð evru skuld frá Kaupþingi hf. við Kaupþing í Lúxemborg (m.a. hin meinta tilfærsla á eignum mínum) sem setti Kaupþing í Lúxemborg í hagstæða stóðu í tengslum við endurskipulagningu.
Magnús, eftir hrunið sagðir þú mér að þú hefði áhyggjur af því hvað við myndum segja við saksóknarann, svo þú baðst mig um að hitta þig, en krafðist þess að fundurinn yrði í gufubaði vegna þess að þú værir hræddur um að ég myndi taka upp samtal okkar (sjá upptöku hér að neðan).
Þú sagðir mér á fundinum að skilanefnd Kaupþings hefði ákveðið að taka eignir mínar og nota þær til að borga skuldir Kaupþings á Íslandi við Kaupþing í Lúxemborg (sjá upptöku hér að neðan).
Þú sagðir mér einnig að Steinar Þór Guðgeirsson, þá formaður skilanefndar Kaupþings, hafi neitað að skrifa undir minnisblað sem dagsett var 20. febrúar 2009 (sjá skjal 11), sem útlistaði samkomulagið (skjal 12) dagsett 3. mars 2009, vegna þess að hann sagði að í minnisblaðinu fælist samsæri um að stela eignum frá mér og nota þær til að borga niður skuldir Kaupþings á Íslandi gagnvart Kaupþingi í Lúxemborg (sjá upptöku hér að neðan).
Magnús, þú stjórnaðir samningaviðræðunum og varst á sama tíma að undirbúa kaup þín á hinum endurreista banka í Lúxemborg ásamt Ágústi og Lýði Guðmundssonum. Það var áætlun ykkar.
Í yfirheyrslu hjá embætti sérstaks saksóknara sagðir þú: (skjal 13) „Móðurfélagið lagði sig í líma við að afhenda okkur fjármuni, lét okkur til að mynda fá fjármuni Kevin Stanfords og önnur skuldabréf og annað drasl og dóterí sem þeir áttu til þess að geta staðið við sínar skuldbindingar.“
Nú er tekist á um eignirnar sem stolið var af mér í dómsmáli sem rekið er í Lúxemborg við Kaupþing ehf. og Banque Havilland.
Ég tók upp samtal okkar Magnús til að sanna svindlið, þessi gögn eru hins vegar ekki hægt að leggja fram í dómi í Lúxemborg, en ég hef síðar sannað þessa framvindu með framlagningu skjala.
Blekkingar ykkar í ágúst 2008, sem þið hafið farið í fangelsi fyrir, hafa nú á nýjan leik komið upp á yfirborðið því Kaupþing ehf. hefur nú ólöglega krafið okkur um meira en 200 milljón pund (m.a. dráttarvexti í tíu ár) vegna láns sem Kaupþing hf. á að hafa lánað mér til að kaupa hina verðlausu 17.300.000 hluti í bankanum þann 19. ágúst 2008, án vitneskju minnar eða neins samþykkis. (skjöl 14-14.2). Lánasamningur var gerður eftir fall bankans af „Nýja Kaupþingi“. (skjal 15). Á meðan þið lifið á peningum vegna „Kaupthinking”, sem geymdir eru á leynilegum bankareikningum eiginkvenna ykkar í Sviss, erum við nauðbeygð til að verjast óréttlátum kröfum frá arftökum Kaupþings í Lúxemborg (Banque Havilland) og Kaupþingi hf. sem nota blekkingar ykkar til að reyna að hagnast.
Það er líka kaldhæðnislegt að eftir að þið stáluð (171 milljón evrum) af íslensku þjóðinni, sem myndi duga til að borga fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, til að fjármagna hugmyndir ykkar um að kaupa Kaupþing í Lúxemborg, þá heldur íslenska þjóðin áfram að fjármagna hótelin ykkar í gegnum ríkisbankana, Landsbanka og Íslandsbanka. Það er líka ótrúlegt að Stefnir hf., dótturfélag Arion banka (sem áður hét Kaupþing hf.), hafi fjárfest í hótelverkefnum ykkar.
Við bjóðum ykkur að hrekja ásakanir okkar, og ef þið getið það ekki, þá virðist það liggja fyrir að í þessu tiltekna tilviki borgi glæpir sig á Íslandi.
Kevin Stanford og Karen Millen OBE.
Ensk útgáfa greinarinnar/English version of the article