Nýverið kom fram skýrsla frá hinni háæruverðugu Hagfræðistofnun Háskóla Íslands varðandi það hvernig við Íslendingar ættum að taka á hvalveiðum Kristjáns Loftsonar. Það er gaurinn sem er milljarðamæringur og heldur m.a úti Mogganum og reiðir vafalítið fram milljónir til Valhallar. En látum það liggja milli hluta.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands leggur sumsé til að Alþingi beri að setja lög sem skilgreina umhverfisverndarsamtök sem hryðjuverkasamtök.
Þið lásuð rétt.
Hryðjuverkasamtök. Umhverfisverndarsamtök ættu að vera skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Alþingi Íslendinga.
Þetta segir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands!
Embættismenn hins opinbera hjá æðstu menntastofnun Íslendinga rýna í excel-skjöl og benda á þessa nauðsyn. Vafalítið búnir að rukka fyrir fleiri tíma en í Braggamálinu. Hlutfallslega.
En Hagfræðistofnun Háskóla Íslands bætir um betur og setur fram dæmi (og það er byggt á beinhörðum „hagfræðilegum“ útreikningum) þar sem stofnunin bendir náðarsamlegast á að ef Íslendingar minnka markvisst stofna hvala um 40% þá megi þeir hinu sömu Íslendingar vænta ávinnings sem nemur tugum milljarða í útflutningstekjum.
Það var og.
Við skulum skoða hvaða áhrif 40% minnkun hefur á t.d langreyðarstofninn. Langreyðar eru þeir hvalir sem auðkýfingurinn Kristján Loftson hefur fengið að veiða og reynt að selja á Japansmarkaði með ærnum tilkostnaði, þar sem hverfandi áhugi er fyrir þveistinu. Einhver 150 dýr til eða frá. En honum er skítsama, enda á hann nóg af seðlum.
Langreyðarstofninn telur mögulega einhver 50.000 dýr í N-Atlantshafi. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands leggur því til að Kristján Loftson fái að drepa 20.000 dýr.
Þið lásuð rétt. 20.000 dýr.
Líklega gæla þessir hagfræðingar við ágæti þess að græða á daginn og grilla á kvöldin.
Hagfræðingarnir hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands myndu samt aldrei láta sér detta til hugar að grilla langreyðarsteikur. Þeir hafa jú ágætar tekjur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands við að reikna út svona þvætting og hugnast vafalítið betur að grilla innflutta strúta eða kengúrur.
En ráðleggingar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands varða allar hvalategundir. Þannig má bæta við einhverjum tugum þúsunda annarra hvala sem við aumu Íslendingar ættum að drepa til að auka útflutningstekjur.
Kannski sirkabát 40.000 spendýr. Við eigum sumsé bara að skjóta sprengiskutlum í hvalina og þá mun þorskaflinn og loðnan aukast um tugmilljarða í útflutningstekjum.
Þessir svokölluðu „fræðingar“ hafa ekki hundsvit á því hversu flókið vistkerfi sjávar er. Þar fyrir utan hafa þeir ekkert siðvit, sem er öllu verra. Þessar hagfræðilegu „ráðleggingar“ þeirra eru ekkert annað en viðurstyggilegar!
Satt að segja þykir mér réttast að leggja niður Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skömm sé Háskóla Íslands.