Nýleg grein Andra Snæs Magnasonar var ansi mögnuð og hressandi, enda beitt, vel skrifuð og löngu tímabær. Ekki er hreyft við hugmyndum um framtíðarorkumiðla Íslendinga (sem mér eru hugleiknir), en risastóra vandamálið okkar, ætli megi ekki kalla það stundarhagsmunasýki, tekið föstum tökum. Andri Snær sýndi glögglega vankanta heimsmyndar (lélega) kontóristans, sem hefur mikil áhrifavöld í krafti menntunar sinnar og stöðu í burðargrein íslenska hagkerfisins.
Íslensk hrein orka er að stærstum hluta notuð í mengandi stóriðju sem ekki er bráðnauðsynleg, vöntun á áli hrjáir ekki heiminn, ekkert alþjóðaráð bannar framleiðslu áls með kolum eða gerir kröfur um hreina framleiðslutækni. Nei hreint ekki, Kolabrennslu-álframleiðsla hefur aukist verulega á heimsvísu.
Eitt er á hreinu, stóriðjustefna síðustu áratuga var rándýr og okkur ekki til sóma. Það er meiriháttar kúl að eiga fullt af grænu rafmagni en ansi heimskulegt að nota það í fullt af óþarfa (eins og gosdósir sem fara í urðun) og menga stórt í leiðinni. Er ekki kominn tími á glimrandi grænt orkuhagkerfi?
Vísar að framförum í orkugeiranum
Rannsóknir og þróun er mikilvæg á öllum sviðum ekki síst í orkugeiranum. Vindmyllur Landsvirkjunar og kolefnisbinding Orkuveitunnar –Carb fix verkefnið eru góð dæmi – húrra fyrir þeim.
Orkumiðlar framtíðar
Sem stendur er aðal áherslan á rafbíla og hleðslustöðvar fyrir þá. Rafhlöðubílar henta að mestu vel sem einkabílar (óhreyfðir 23 klst. á sólarhring og því nægur tími til hleðslu). Vankantar raf-farartækja eins og langur hleðslutími, þungar rafhlöður og minni drægni eru sérlega óþægileg í langferðaflutningum, bæði í samgöngum fólks og vöruflutningum. Gerald Killman vélaverkfræðingur Toyota telur að vegna þessara vankanta komi efnarafallinn til með að ná yfirhöndinni á markaði, - af rafhlöðubílum.
Hvað er í deiglunni?
Japönsk stjórnvöld hafa mikla trú á efnaraflinum og vetni sem framtíðarorkumiðli. Þeir sjá fyrir sér að álitlegur hluti orkuhagkerfisins verði drifinn áfram með vetni, og styrkja því m.a. þróun efnarafalsins um 300 milljónir evra árlega. Notkun vetnisrafals hefur þann frábæra kost að koldíoxíð kemur ekki við sögu. Orkuhagkvæmni rafbíla er hins vegar meiri. Yfirleitt fylgja bæði kostir og gallar öllu sem gert er og mikilvægt að máta breytingar á vettvangi.
Vetnið
Hvernig hentar vetnistækni hérlendis? Mjög snemma eða um 1970 hóf dr. Bragi Árnason prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands að skoða möguleika á notkun vetnis, sem framleitt væri með umhverfisvænni raforku, sem aðalorkugjafa fyrir Ísland. Hann taldi að landið gæti orðið leiðandi með almennri innleiðingu þessarar orku fyrir samgöngur, flutninga og iðnað. Fyrir 50 árum var þessi hugmynd af flestum ekki talin raunhæf vegna kostnaðar við vetnisframleiðslu með rafgreiningu vatns. Hún leiddi þó til risaverkefnis, þar sem Háskóli Íslands, ríkisstjórnin og ýmis stórfyrirtæki tóku þátt í. Nú er í gangi þróun um alla veröld að framleiða umhverfisvænt vetni með háhitarafgreiningu og hefur þegar tekist að lækka kostnað verulega.
Hvað nú?
Nú er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni erlendis, því t.d.samgöngutækin koma þaðan. Á ráðstefnu IASA (InternationalAssociation of Sustainable Aviation) sem fram fór í nóvember sl. voru þátttakendur almennt á því að svokölluð Power to Liquid tækni yrði brátt ráðandi í fluginu. Rafmagn kemur við sögu (Power), og „Liquid“,er afurðin, þ.e. orkuríkur vökvi (PtLFuel).
Með PtL tækninni er hægt að framleiða kolefniseldsneyti, einskonar jarðolíulíki (metan, bensín, dísilolía, kerosin o.fl.) sem unnið er úr vatni/vetni (vetnið fæst með rafgreiningu vatns) og koldíoxíði. Mikilvægt er að koldíoxíð sem notað er í ferlinu sé loftslagshlutlaust, semsé tilkomið af öðru en bruna jarðolíu eins og hauggasi, iðnaði, eða jafnvel andrúmslofti.
Þannig má hugsa sér að allri afgangsraforku verði breytt í vetni og dreift til notkunar sem eldsneyti á skip, flugvélar bifreiðar og bruna á úrgangi, en einnig til umbreytingar á koldíoxíði frá iðnverum eða úrgangsbrennslu. Eldsneytisbransinn í Evrópu sér þessa tækni sem „sína framtíð“, enda hagstætt að geta haldið gömlu sprengjuhólfsvélunum gangandi áfram.
Orkan og við
Það blasir við að sennilegasta lausnin á nýtingu hreinnar raforku á Íslandi til lengri framtíðar liggur í framleiðslu og nýtingu á vetni, sem t.d. má geyma og dreifa í fljótandi formi.
Þetta er léttasta frumefnið og hefur fjölmarga nýtingarmöguleika fram yfir önnur efni, auk þess að leysa flest vandamál sem fylgja myndun koldíoxíðs og annara lofttegunda sem skaða loftslag jarðar.
Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur.