„Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því.“ Svona hljómar textinn um fjármálakerfið sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kom sér saman um að ætti að vera í stjórnarsáttmála hennar.
Til þess að vinna að þessum markmiðum var látið vinna Hvítbók um fjármálakerfið þar sem þessi markmið voru höfð til hliðsjónar. Við vinnslu Hvítbókarinnar átti leiðarljósið líka að verða „aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleiki.“
Síðan að Hvítbókin var opinberuð 10. desember 2018 hefur umræðan nánast verið einokuð af einum hópi manna, þeirra sem vilja hefja sölu á bönkunum sem allra fyrst.
Tók fimm ár síðast að búa til vítisvél
Hvítbókin er að mörgu leyti vel unnið og þarft verk. Tvær helstu niðurstöður hennar eru að fjármálakerfið sé samfélagslega mikilvægt og að traust sé undirstaða þess að það virki sem skyldi. Það sé síðan hlutverk ríkisins að tryggja umgjörð sem stuðli að verðskulduðu trausti.
Í Hvítbókinni er einnig fjallað um eignarhald í bankakerfinu. Þar segir: „Heilbrigt eignarhald er mikilvæg forsenda þess að bankakerfi haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Samt er lagt til að Íslandsbanki verði seldur að öllu leyti og 66 prósent hlutur í Landsbankanum sömuleiðis. Rökin fyrir því að þetta verði gert, sem fram eru sett í Hvítbókinni, eru fremur veik.
Þar er í fyrsta lagi sagt að ríkissjóður beri áhættu af eignarhaldinu vegna þess að 300 milljarðar króna séu bundnir í eignarhlutum í bankakerfinu. Nú liggur fyrir að ríkisábyrgð er á íslenska fjármálakerfinu. Það hefur einfaldlega sýnt sig að það fær ekki að falla. Síðast þýddi það neyðarlagasetningu, yfirtöku á innlendri starfsemi allra íslensku viðskiptabankanna og fjármagnshöft.
Þegar fjármálakerfið hrundi 2008 voru liðin einungis rúm fimm ár frá því að það var að fullu einkavætt. Það tók ekki lengri tíma en það fyrir íslenska banka- og viðskiptamenn að búa til vítisvél úr kerfinu, þar sem örgjaldmiðillinn krónan varð að lykilbreytu. Í ljósi reynslunnar má þar af leiðandi færa sterk rök fyrir því að áhætta ríkisins, og samfélagsins alls, sé mun meiri af því að einkavæða bankanna en að gera það ekki.
Í öðru lagi er því haldið fram að ríkið beri fórnarkostnað með því að vera með um 300 milljarða króna bundna í bankakerfinu. Þá fjármuni mætti nýta t.d. til að greiða niður skuldir ríkisins. Á móti er er hægt að benda á að ríkisbankarnir greiddu 207 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018. Áætlað er að arðgreiðslur ríkissjóðs frá fyrirtækjum í eigu hans verði 27,5 milljarðar króna á þessu ári. Þær koma að nánast öllu leyti frá Landsbankanum og Íslandsbanka. Auk þess er eiginfjárhlutfall beggja banka er enn vel umfram eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins, sem er 20,5 prósent. Það er því klárt svigrúm til að tappa vel af eigin fénu. Þótt arðgreiðslur muni eðlilega lækka á næstu árum vegna þess að sala á eignum sem bankarnir fengu í arf eftir hrunið sé að mestu lokið þá er þetta alls ekkert svört staða.
Fjórði bankinn
Í þriðja lagi er því haldið fram í Hvítbókinni að yfirráð ríkisins yfir stórum hluta fjármálamarkaðar raski samkeppni og skapi aðstæður til stöðnunar. Nú má benda á að það fyrir þá sem þurfa á viðskiptabankaþjónustu að halda ríkir ekki, og hefur aldrei ríkt, nein alvöru samkeppni milli banka. Það er helst að lífeyrissjóðirnir hafi hrist upp í kyrrstöðunni á íbúðalánamarkaði með því að bjóða sjóðsfélögum sínum miklu betri vaxtakjör en bankarnir bjóða. Og „fjórði bankinn á Nordica“, en svo kallast norsku bankamennirnir sem lokkað hafa stærstu alþjóðlegu íslensku fyrirtækin í viðskipti til sín, íslensku bönkunum til mikilla skaprauna, á undanförnum árum með fundum sem iðulega eru haldnir á peningamannahótelinu við Suðurlandsbraut.
Þ.e. annað en þrýstingur hagsmunaaðila, og þeirra sem telja að þeir geti grætt peninga eða áhrif, á að það verði að gerast.
Hvaða útlendingar?
Þeir sem tala hæst um nauðsyn þess að það þurfi að selja bankana þurfa að minnsta kosti að koma með betri rök en þau sem tilgreind eru hér að ofan. Til viðbótar við það að svara spurningunni „af hverju“ þá þarf líka að svara því hverjir ættu að kaupa bankana?
Eigið fé Íslandsbanka var 175 milljarðar króna í lok september síðastliðins. Eigið fé Landsbankans var 236 milljarðar króna. Ef miðað er við það gengi sem var stuðst við í skráningu Arion banka í fyrrasumar (0,67 krónur á hverja krónu af eigin fé) þá ætti virði þeirra hluta í ríkisbönkunum sem heimild er til að selja í fjárlögum að vera um 322 milljarðar króna.
Einu erlendu aðilarnir sem hafa sýnt því raunverulegan áhuga að eiga í íslenskum fjármálafyrirtækjum eru skammtímasjóðir, líkt og þeir sem eiga uppistöðuna í Arion banka, sem henta augljóslega illa sem eigendur kerfislega mikilvægra banka með óformlega ríkisábyrgð.
Bankasýsla ríkisins telur að áhugi erlends banka á að kaupa einn íslenskan sé ekki líkleg til að bera árangur. Í minnisblaði sem hún skilaði inn til Hvítbókarhópsins sagði að regluleg samskipti við alþjóðlega fjárfestingabanka hefðu leitt í ljós að „á undanförnum árum og í kjölfar fjármálakreppunnar hefur verið afar lítið um samruna og yfirtökur á bönkum á milli landa í Evrópu. Bitur reynsla af fyrri yfirtökum, lág arðsemi, flóknara regluverk og auknar eiginfjárkröfur hafa átt sinn þátt í því[...]Bankar eru að draga sig út úr fjárfestingum fyrri ára og einbeita sér að kjarnarekstri á eigin heimamarkaði, en ekki að frekari landvinningum.“
Viljum við að útgerðarrisarnir eignist bankana líka?
Innanlands eru ekki margir sem koma til greina sem eiga nægjanlegt fjármagn til að kaupa stóran hlut í banka. Í raun er þar bara um að ræða lífeyrissjóði landsins, sem töpuðu 480 milljörðum króna í síðasta bankahruni. Í ljósi þess að þeir eru ekki, að megin uppistöðu, virkir eigendur að fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í þá verður að teljast ólíklegt þeir muni sækjast eftir að eignast kjölfestuhlut í ríkisbanka.
Nei, þess í stað hefur uppistaðan af arðinum vegna nýtingarinnar safnast saman í vösum örfárra fjölskyldna sem annað hvort eiga stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eða hafa selt sig út úr geiranum fyrir ótrúlegar fjárhæðir.
Niðurstaðan er sú að frá árinu 2010 og út árið 2017 námu arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna 80,3 milljörðum króna. Frá hruni hefur eiginfjárstaða sömu fyrirtækja batnað um 341 milljarða króna. Því hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um 421,3 milljarða króna á tæpum áratug. Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, hefur til að mynda hagnast um 100 milljarða króna á sjö árum. Eigið fé þess fyrirtækis, sem er í eigu þriggja einstaklinga, var um 95 milljarðar króna í árslok 2017. Samherji er að langstærstu leyti í eigu þriggja einstaklinga.
Aðra sem má nefna í þessu samhengi eru til að mynda fyrrverandi og núverandi aðaleigendur HB Granda, Kaupfélag Skagfirðinga, Skinney-Þinganes og Ísfélagsfjölskyldan í Vestmannaeyjum. Samhliða fordæmalausum hagnaði síðustu ára hafa allir þessir aðilar aukið umsvif sín, ítök og áhrif í íslensku samfélagi. Þeir eiga það nær allir líka sameiginlegt að vera í mikilli nálægð við áhrifafólk í stjórnmálum og standa saman að rekstri eins áhrifaríkasta hagsmunagæslufyrirbæris sem fyrirfinnst á jarðkringlunni, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Takist ekki að selja þessum tveimur hópum bankana þá má auðvitað alltaf gera eins og síðast, selja hópi reynslulausra manna þá fyrir lánsfé. En vonandi dettur engum það í hug.
Almenningur vill ekki selja bankana
Íslendingum hefur tekist vel til við að endurreisa efnahag sinn á undanförnum áratug. En orðsporið er enn afar laskað, jafnt innan lands sem erlendis.
Lítum á stöðuna sem birtist í afar gagnlegri rannsókn sem Hvítbókarhópurinn lét gera. Í niðurstöðum hennar kom meðal annars fram að þau þrjú orð sem flestum Íslendingum dettur í hug til að lýsa bankakerfinu á Íslandi eru háir vextir/dýrt/okur, glæpastarfsemi/spilling og græðgi. Þar á eftir koma orð eins og vantraust, hrun og há laun/bónusar/eiginhagsmunasemi. Öll voru þessi orð nefnd meira en nokkurt jákvætt var sagt um íslenska bankakerfið.
Og það virðist ekkert vera neinn sérstakur vilji hjá þjóðinni að selja bankana sem ríkið á. Rannsóknin sýndi að 61,2 prósent landsmanna er jákvæður gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Einungis 13,5 prósent þeirra eru neikvæðir gagnvart því og 25,2 prósent hafa ekki sérstaka skoðun á því.
Þegar fólk var spurt hver væri helsta ástæða þess að það væri jákvætt gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka voru algengustu svörin þau að ríkið væri betri eigandi en einkaaðili, að slíku eignarhaldi fylgdi öryggi og traust, að arðurinn af fjármálastarfsemi myndi þá fara til þjóðarinnar og að minni líkur væru á spillingu, græðgi og slæmum endalokum.
Svo sögðust einungis 16 prósent landsmanna treysta bankakerfinu, sem þó er að langstærstu leyti í eigu íslensku þjóðarinnar. Og 57 prósent sögðust alls ekki treysta því.
Í rannsókninni kom einnig fram að flestir Íslendingar óskuðu þess að bankakerfi framtíðar yrði sanngjarnt og réttlátt, traust, með góða þjónustu, hagkvæmt, heiðarlegt, gagnsætt og fyrir almenning.
Samandregið þá er enginn salur fyrir því að selja þessa blessuðu banka hjá eigendum þeirra.
Sölumennirnir taldir spilltir
Svo eru það þeir sem eiga að selja þá. Þ.e. íslenskir stjórnmálamenn. Það er ekki eins og að Íslendingar treysti þeim neitt sérstaklega vel.
Þótt traust á Alþingi sem stofnun hafi skriðið upp á undanförnum árum þá mælist það einungis 29 prósent. Og í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar, sem gerð var opinber 20. desember síðastliðinn, kom fram að 65 prósent landsmanna telji nánast alla stjórnmálamenn vera viðriðna spillingu. Í dag telja einungis níu prósent landsmanna að engir eða bara fáeinir stjórnmálamenn séu spilltir.
Hvaða ástæður ætli séu fyrir þessari stöðu? Nærtækast er að ætla að þorri landsmanna telji stjórnmálamenn sem séu í aðstöðu til að hafa áhrif á úthlutun gæða, eða hafi aðgengi að upplýsingum og tækifærum umfram aðra, séu taldir nýta sér þá stöðu til að ala undir sig og sína.
Stjórnmálamenn sem hafa málað sig sem umbótasinna í umræðunni, oft árum saman, hafa reynst frekar innihaldslausir þegar þeir hafa komist að völdum. Þess í stað hafa þeir nálgast hina pólitísku menningu um að athöfnum þurfi ekki að fylgja ábyrgð, að hagur einstakra stjórnmálamanna sé mikilvægari en trúverðugleiki kerfisins og að málamiðlanir ólíkra stjórnmálaafla sem tryggi þeim öllum völd megi fela í sér að heimila eitthvað sem viðkomandi beinlínis veit að er rangt, sem óhagganlega breyta.
Þótt áðurnefnd könnun Félagsvísindastofnunar sýni að 62 prósent landsmanna sé þeirrar skoðunar að það myndi auka traust þeirra til Alþingis mikið ef að meira væri um afsagnir þingmanna í kjölfar mistaka, þá eru slíkar afsagnir einhverskonar pólitískur ómöguleiki.
Til viðbótar við allt ofangreint þá virðist einfaldlega ekki vera meirihluti fyrir því á Alþingi að fara bratt í söluferli á bönkunum. Einungis Sjálfstæðisflokki og Viðreisn virðist liggja á með slíkt. Þeir eru samanlagt með 20 þingmenn af 63.
Ýmislegt hægt að gera
Niðurstaðan hlýtur að vera sú að það liggur ekkert á að selja þessa banka. Best væri að hagræða umtalsvert í rekstri þeirra, selja burt starfsemi sem þrífst vel á einkamarkaði, t.d. hluta af fjárfestingabankastarfsemi, í nokkrum litlum skrefum og einblína á að kjarnastarfsemin sem snýr að almenningi og fyrirtækjum tryggi þeim góð kjör. Að hún verði þjónustustarfsemi, ekki valdatól. Samhliða er hægt að greiða út umfram eigið fé og nota í nauðsynlega innviðauppbyggingu.
Ríkið ætti að minnsta kosti að setja sér það markmið að Íslandsbanka ætti ekki að selja nema til sérstaklega æskilegra eigenda, eins og erlendra banka. Þar ætti verð að skipta minna máli en æskilegt eignarhald. Á meðan að áhugi slíkra á bankanum er lítill eða enginn er engu áorkað með því að selja hann.
Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt, sagði ríkisstjórnin í sáttmála sínum. Það samrýmist varla því markmiði að stjórnmálamenn sem almenningur telur spillta selji banka sem almenningur treystir ekki, einungis vegna þess að fámennur þrýstihópur krefst þess svo að valdið yfir því að gera þær breytingar á bankastarfsemi sem almenningur kallar eftir verði fært aftur til svipaðra manna og settu bankakerfið á hausinn á fimm árum eftir síðustu einkavæðingu.