Við kunnum mannasiði.
Við þekkjum muninn á réttu og röngu, bæði á því sem okkur sjálfum finnst rétt og rangt og því sem við vitum að samfélaginu þykir rétt og rangt, en þau viðhorf fara ekki alltaf saman.
Oft gerir fólk eitthvað sem brýtur gegn betri vitund þess sjálfs, slugsar þegar á að drífa sig, keyrir of hratt, sýnir tillitsleysi, hreytir ónotum í aðra, dæmir ómaklega, svindlar bara smá eða stelur. Oft veit maður bara af þessu sjálfur, en stundum kemst upp um mann. Það er vont þegar kemst upp um mann, því þá lendir maður í vandræðum í samskiptum við aðra, fær umvandanir, fordæmingu, missir traust og þar með þá aðstöðu sem fyrra traust hafði gefið, er krafinn um bætur og allskonar óþægindi.
Hvað á þá að gera? Þá er nú gott að kunna mannasiði: Segjast sjá eftir þessu og að þetta hafi verið voðalegt dómgreindarleysi og að biðjast fyrirgefningar! Eftir þessa ræðu á allt að verða gott aftur, til þess var jú ræðan flutt.
Eða hvað? Hverju sérðu eftir, því sem þú gerðir, eða því að hafa gert það á þann hátt að upp um þig komst? Hvernig eiga aðrir að sjá hvort er?
Yfirlýsing um iðrun og yfirbót, er hvorki iðrun né yfirbót nema henni fylgi breytt hegðun, að hætt sé að haga sér á þann hátt sem maður segist iðrast og sýni í verki hvað hann gerir til að bæta fyrir miskann. Fram að því eru orðin í besta falli fyrirheit, sem á svo eftir að sýna hvort staðið verði við.
Nú lýsir maður því yfir að hann sjái mikið eftir niðrandi ummælum eða óviðurkvæmilegri hegðun, telji þau ummæli/hegðun vera sjálfum sér til vansa og ómakleg gagnvart þeim sem þau beindust að, biðst fyrirgefningar hjá bæði þeim einstaklingum sem hann braut gegn og öðrum þeim sem hann rauf traust hjá með framkomu sinni.
Hvernig veist þú að hann meinar þetta allt í alvöru? Það gerir þú með því að skoða breytni hans eftir yfirlýsingarnar um iðrunina.
Næst sérð þú til hans þar sem hann lýsir því yfir að þetta hafi í raun verið meinlaust hjal þar til einhver sagði frá því og skaðinn því ekki skeð fyrr en uppljóstrað var og sé þetta sé því þeim fjölmiðlum að kenna sem birtu uppljóstrunina. Eða þú heyrir hann lýsa því yfir að hann sé í fyrsta lagi búinn að viðurkenna og biðjast afsökunar á þeim yfirsjónum sem eru til skjalfestar, í öðru lagi sé hann saklaus af þeim sem engar skriflegar sannanir eru um, í þriðja lagi sé hann sjálfur fórnarlamb hóps fólks sem hafi tekið upp á að hata hann.
Þar næst sérð þú hann reyna að klekkja á uppljóstraranum, bera út allskyns sögur um það að uppljóstrarinn hafi verið útsendari annarlegra afla, kæra uppljóstrarann til yfirvalda og krefjast refsinga yfir honum. Nú eða lest eftir hann lýsingar á því hve ásakandi sé klikk og hve stuðningsmenn ásakenda séu mikil fól og fúlmenni, samansafn öfgasinna og afleitra stjórnmálamanna.
Er þetta það sem þú álítur iðrun? Finnst þér þetta vera yfirbót? Átt þú núna að fyrirgefa?