Umræður um umhverfismál skjóta upp kollinum á tyllidögum. Sérstaklega þegar lausnir eru kynntar, hvort sem þær eru raunhæfar eða ekki. Ein slík var bann við plastpokum sem kemur til framkvæmda í náinni framtíð. Önnur var um útblástur skemmtiferðaskipa og löngun til að tengja skip í höfn við rafmagn úr landi. Skemmtiferðaskip eru eins og stór sveitarfélög og því mun tæknileg lausn kosta meiri fjárhæðir en líkur eru á að menn séu tilbúnir að borga. Hafnirnar í Ósló og Kaupmannahöfn íhuga fjárfestingu sem áætlaður kostnaður í Kaupmannahöfn er 3,7 milljarðar auk kostnaðar um borð í skipunum. Þetta er sem sé ekki bara eins og brauðrist sem maður setur í samband. Hins vegar er hið besta mál að tengja togara og flutningaskip við rafmagn, en slík skip skila þó mestum arði þegar þau eru á sjó. Ekki hefur þó verið talað um að setja bann við notkun olíu með hærri brennisteinsinnihald en 0,1% við strendur Íslands eins og gert er í Eystrasalti og við Norður-Ameríku. Það hefði sennilega mikið betri umhverfisáhrif en milljarðafjárfestingar í búnaði. Í byrjun 2020 verða brennisteinsmörk olíu í heimshöfunum lækkuð úr 3,5% í 0,5% og við það mun kostnaður við rekstur skipa aukast umtalsvert. Rætt er um að hafa 0,1% hámark í Miðjarðarhafi.
Olía fyrir 2,1 milljarð fórnað fyrir meint gæði samkeppninnar
Sá hluti íslenska gámaflotans sem er í flutningum innan Evrópu eyðir helmingi meiri olíu, 37 þúsund tonnum á ári, en þörf væri á ef hagkvæmni stærðarinnar fengi að ráða í flutningum gáma milli Íslands og hafna í Norður-Evrópu. Þessi olíunotkun nemur um 13% af olíunotkun allra ökutækja á Íslandi. Ökutækin brenna þó mun hreinni olíu en skip.
Nú fara milli Íslands og Norður-Evrópu tólf gámaskip sem að jafnaði hafa 930 TEU-burðargetu, og sigla um 900 þúsund sjómílna á ári. Það eru 4 skipakomur til Rotterdam og til Árósa á viku.
Með siglingakerfi sem byggist á hagkvæmni stærðarinnar, tryggir að vörur nái á réttum tíma á markað og miðast við að mest af innflutningi komi í byrjun viku og hitt fyrir miðja viku – má fækka skipum um helming og þá stækka þau sem því nemur. Stærri skip eyða mun minni olíu á flutningseiningu og halda betur ferð.
Í byrjun febrúar 2019 er olíuverð frekar lágt, en samt er sparnaðurinn miðað við verð í Rotterdam 2,1 milljarður á ári.
Að láta sem ekkert sé er mikill umhverfissóðaskapur og sóun á fjármunum.
Sóun á landi í Sundahöfn
Í mars á síðasta ári skrifaði ég í Kjarnann um sóun á landi í Sundahöfn, sem er af sömu rótum og sú olíusóun sem er rakin að ofan. Þar voru niðurstöðurnar að um aldamót dygðu um 20 hektarar lands fyrir gámavöll með tilheyrandi þjónustusvæði, þar sem gámar eru geymdir „milli skips og lands utan girðingar“, miðað við þá færu 430.000 tuttugu feta gámaeiningar, TEU, um höfnina á ári, og hver gámur að jafnaði geymdur í 14 daga. Það eru ekki til vísindi sem geta með neinni nákvæmni sagt til um flutningsmagn eftir 80 ár eða 40 ár, en mannfjölgun eða -fækkun er sennilega sá þáttur sem mestu ræður um magn gáma. Ljóst er að sparnaður á landi yrði 25- 30 hektarar að meðtöldu því landi sem er í þróun, umtalsverður mannafli mundi sparast og það tæki skemmri tíma að koma vöru úr skipi til neytenda.
Fyrirtækið KPMG skilaði skýrslu fyrir Faxaflóahafnir hálfu ári seinna, í október, þar sem komist var að svipaðri niðurstöðu um þörf fyrir land miðað við hver gámur verði að jafnaði 14 daga í geymslu og að nýtt yrði tækni sem hentar fyrir 20.000 TEU á hektara á ári.
Í skýrslu KPMG er rætt um náttúrulega einokun sem möguleika í vissum rekstri þar sem hagkvæmni stærðarinnar verður ekki við komið ef framleiðslueiningarnar eru of litlar. Þar var varpað fram þeirri spurningu hvort tvær farmstöðvar skipafélaganna væru hagkvæmasti kosturinn, og hvort ein farmstöð leiddi til sparnaðar.
Það sem þarf til að spara 37 þúsund tonn af olíu á ári og 25-30 hektara lands á besta stað í Reykjavík er ekki verkefni sem áhugamenn út í bæ eða ráðgjafar á vegum stjórnvalda geta klárað einir og sér.
Hvorki undirritaður né ráðgjafinn KPMG eru fyrstir að leiða líkur að því að komast megi af með mun minna land og búnað í hafnarafgreiðslu. Í skýrslu hafnarstjóra frá 1985, Flutningahöfn til framtíðar, er bent á að gámakrani Eimskips gat þá afgreitt öll skip sem komu til hafnar, og að með auknu samstarfi skipafélaganna mundi fjöldi skipa til hafnar minnka.
Í febrúar 2011 lögðu tveir borgarfulltrúar í stjórn Faxaflóahafna til að aflað yrði upplýsinga um rekstur fyrirtækja sem sérhæfa sig í losun og lestun fraktskipa, þar sem fýsilegt gæti verið að greina losun og lestun frá annarri starfsemi skipafélaganna til að ná hagræðingu og sparnaði í fjárfestingum og viðhaldi. Svar kom 17 dögum síðar með mikið af upplýsingum, sem að mati höfundar þessarar greinar svaraði ekki megin spurningunni.
Öðruvísi svar er nú komið, 92 mánuðum síðar, í skýrslu KPMG, Sundahöfn – Starfsumhverfi og breytingar til framtíðar.
Öllu landi næst hafnarbökkum nýtanlegu fyrir gámavöll er skipt milli Eimskips og Samskipa. Þarna virðist meðvirk hafnarstjórn hafa úthlutað tveimur aðilum öllum kvóta í gámaafgreiðslu. Engir aðrir komast að. Og ef, segjum, eigandi Samskipa fengi gott tilboð í fyrirtækið, þá væri sennilega hafnarkvótinn verðmætastur, mun verðmætari en skipin. Væri viðeigandi að stjórn Faxaflóahafna skoðaði þetta mál gaumgæfilega og birti yfirlýsingu um stefnu hafnarinnar í samkeppnismálum og langvarandi hafnarkvótum. Þetta á ekki að þegja í hel. Það er of mikil meðvirkni.
Sundahöfn og Sundabraut
Landnýting í Sundahöfn verður að miðast við að hagsmunir heildarinnar séu við stjórnvölinn, ekki sérhagsmunir. Það á meðal annars við um langrædd áform um Sundabraut, sem flestir telja sjálfsagða á næstu áratugum. Eftir því sem höfundur veit best er sá helst í umræðu um brúarkosti að hafa þar hábrú, til þess að gámaskip framtíðarinnar komist inn að legunni við Vogabakka. Þó er a) nægt bryggjupláss norðan brúarstæðisins samkvæmt alþjóðlegum stöðlum sem m.a. er minnst á í skýrslu KPMG, b) ekki þörf fyrir mikinn hluta þess lands sem nú er úthlutað til skipafélaganna ef stefnan yrði tekin á góða landnýtingu og minni upp- og útskipunarkostnað.
Lægri brú er ódýrari en hábrú og nýtist betur í vondum veðrum. Yfir lágbrú komast göngumenn og hjólreiðamenn, sem ekki er reiknað með á hábrú. Það veltur á hæð brúarinnar hversu stór skip komast undir. Það koma mörg minni skip til hafnar til losunar og lestunar.
Hagkvæmni stærðarinnar
Grein birtist eftir undirritaðan í Viðskiptablaðinu 31. júlí 2014, „Leiðir samkeppni skipafélaganna til hærri flutningskostnaðar?“ Þar færði ég rök fyrir hagkvæmni sem mundi leiða af þeim samrekstri skipafélaganna, í sömu mynd og erlendis, að nota sama skip fyrir tvö flutningafyrirtæki, rétt eins og tvö olíufélög geta notað sama tankinn eða sama dreifingarkerfið, eða að tvo símafyrirtæki nota sama mastrið.
Greinin vakti vissa umræðu, en ekkert gerðist. Hagsmunaaðilar þögðu þunnu hljóði. Það er helst núna að framkvæmdastjóri SFS minnir á að fyrir sjávarútveginn er erfitt að keppa við Norðmenn, því flutningsgjöld eru lægri þar.
Flestar þjóðir búa við frjálsa samkeppni í flutningum þar sem margir sem keppa um viðskiptin. Í Noregi slást bæði Eimskip og Samskip við fjölda norskra og alþjóðlegra fyrirtækja um flutninga til að koma norskum sjávarafurðum á markað.
Hér á landi ríkir tvíkeppni þar sem stærri aðilinn hefur 2/3 af kökunni og sá minni 1/3. Þeir sem keppa um fyrsta og annað sæti í gámaflutningum í heiminum, Maersk og MSC, eru með mjög svipaðan markaðshlut, og á helstu siglingaleiðum samnýta þeir skipakost hvor annars til að standast samkeppni við hin félögin. Saman hefur samstarfseining þeirra 34% af heimsflutningum í gámum. Næsta samstarfseining hefur 29% markaðshlutdeild og sú minnsta hefur 17% hlut.
Ekkert hinna átta félaga á toppnum hafa eina endahöfn þar sem skipin eru að mestu tæmd og fyllt aftur og hafnarkvóti hefur fengist fyrir slikk. Þess vegna er barist, verðin hækka og lækka á víxl og fjöldi fyrirtækja vinnur við að upplýsa markaðinn um verð á helstu leiðum. Útflutningur Kínverja hefur vaxið gífurlega á síðustu áratugum, að stórum hluta vegna gámavæðingar og lægri flutningskostnaðar. Þar er skylda að skrá öll flutningsgjöld og alla flutningasamninga hjá stofnun sem vikulega gefur út meðalverð, annars vegar á dagsmarkaði og hins vegar á markaði flutningasamninga til margra mánaða.
Þjóðir háðar útflutningi hafa almennt ekki íslenska háttinn á, að láta eins og ekkert sé og að verð (stundum kallað okur) komi engum við. Ástralska stjórnin fylgist mjög vel með kostnaði við útflutning og er sögð tilbúin að grípa inn í ef það mikill munur reynist á verði og kostnaði við flutninga.
Hérlendis er ekki einu sinni hægt að fá áreiðanlegar upplýsingar um flutninga um hafnir. Höfnum ber skylda til að upplýsa Vegagerðina um magn sem kemur og fer. Bæði hafnirnar (þó ekki allar) og Vegagerðin virðast líta svo á að hér ríki valfrelsi um upplýsingagjöf, um réttmæti upplýsinganna þegar þær eru gefnar, og um samræmi í upplýsingum milli hafna. Þessi vinnubrögð þættu kannski ekki til eftirbreytni þegar kemur að upplýsingum um landaðan afla.
Nýtt rekstrarform
Í greininni frá 2014 var gert ráð fyrir að hægt væri að koma á samvinnu um skiparekstur milli félaga. Eftir á að hyggja má útiloka slíka lausn, þar sem stærðarmunur er um of, og skipafélögin tvö hafa með hafnarkvóta komið í veg fyrir að nokkur sé að abbast upp á þá.
Það er mikið betra að byrja upp á nýtt. Segja að þjóðin eigi rétt á hagkvæmni stærðarinnar og að í útflutningsatvinnuvegunum verði menn að hafa það á tilfinningunni að þeir hafi betri díla en Norðmenn!
Í skýrslu KPMG segir að náttúrleg einokun geti verið eðlileg þegar rekstrareiningar eru of smáar til að ná hver fyrir sig hagkvæmni stærðarinnar. Til að spara 37 þúsund tonn af skipaolíu og 2 milljarða króna væri rétt að huga alvarlega að slíkum rekstri og fela útgerð skipa rekstraraðila sem væri eins og heildsali sem má aðeins selja til smásala. Núverandi skipafélög væru sjálfsagðir smásalar, sem og flutningsmiðlarar og erlend skipafélög. Gámaafgreiðslan í Sundahöfn væri falin sérhæfðum rekstraraðila sem tryggði hraða afgreiðslu fyrir skip og gáma, hefði strangar kröfur um þjónustu og miðaði til dæmis við að fyrirtæki í sjávarútvegi bæru ekki hærri útskipunargjöld (THC) en í Noregi. Opinber verðskrá síðasta árs sýnir að útskipunarkostnaður í Reykjavík er sjö sinnum meiri en í Ósló, án vörugjalda sem eru sex sinnum hærri hér en í Ósló fyrir 40 feta gám með 20 tonna innihaldi.
Skipafélög dagsins sitja vegna hafnakvóta, ein að kökunni. Í framtíðinni ætti að fara ágætlega um þá sem smásala,– nema hvað þeir missa kvótann í upphafi. Oft nemur skipahlutinn minna en helmingi af heildar flutningskostnaði. For- og framhaldsflutningur, akstur, vöruhús og skjalagerð eru þeir þættir sem menn græða peninga á. Alþjóðlegir flutningsmiðlarar fjárfesta eins lítið í fasteignum og tækjum og þeir komast af með, og skila betri og jafnari hagnaði en skipafélögin. Og þarna væri komin frjáls samkeppni, því bæði skiparekstur og gámaafgreiðslan hafa opinberar verðskrár.