Íslensk stjórnvöld eru með metnaðarfull áform um sókn íslenskunnar á tæknitímum. Þau leggja umtalsvert fé í að þróa máltæknilausnir, háskólarnir bjóða uppá nám í máltækni og atvinnulífið hefur lýst yfir miklum vilja til þátttöku í þessum slag. Þessi þróun er gríðarlega jákvæð en stóra spurningin er hvort við eigum möguleika á að vinna slaginn við enskuna, sem er að verða meira og meira tungumál tungumálanna.
Ekki skal dregið á nokkurn hátt úr mikilvægi íslenskunnar fyrir samfélagið, þjóðarvitund og samkennd okkar. Við erum stolt af því að eiga fjölbreytt og fallegt tungumál sem er miðja okkar samskipta, þar sem við finnum alltaf svar og getum tjáð tilfinningar okkar og leyst okkar þrautir. Við eigum tungumál með stórkostlegum orðum eins og ljósmóðir, tölva, þyrla eða jólabókaflóð. Við eigum tuttugu mismunandi orð um snjó og annan eins fjölda um vind. Þetta segir okkur óþægilega mikið um veðurfarið en sýnir okkur líka að við höfum þróað og þroskað málið saman um langa hríð og af því getum við verið stolt.
Við stöndum samt sem áður frammi fyrir nokkrum vanda. Áhrif ensku eru orðin yfirþyrmandi þegar græjurnar í okkar umhverfi tala ensku, forritin eru á ensku, fjölmiðlar eru á ensku og vinnumarkaðurinn stöðugt meira á ensku. Frekari rannsóknir á máltöku barna þarf að gera en vísbendingar eru um að enska gegni stærra hlutverki í málþroska þeirra en áður, tvö íslensk börn leiki sér jafnvel saman á ensku og ömmur og afar sem tala ekki ensku þegar þau eru ávörpuð á ensku eru talin fornar, utangátta furðuverur.
Íslenskan er númer þrjú hundruð
Í heiminum talar fleira fólk um þrjú hundruð tungumál en talar íslensku. Til dæmis tala færri íslensku en hið smellna Xhosa tungumál í Suður-Afríku eða basknesku sem finna má í Baskalandi á mörkum Frakklands og Spánar.
Ljóst er, þrátt fyrir glæsta sögu tungumálsins okkar, að það er ekki eitt helstu tungumála heimsbyggðarinnar. Fá stór tungumál eru að taka yfir; kínverska, spænska, og í okkar nærumhverfi, enska.
Spár gera ráð fyrir því að stjórnun tækja með raddstýringu aukist um 20–40% á ári næstu árin og nú þegar eru snjallhátalarar á þriðjungi heimila í Bandaríkjunum. Röddin verður viðmótið í stað innsláttar í tækjum á heimilum, farartækjum og vinnustöðum. Þessum væntingum hefur fylgt mikil fjölgun tækja sem tala við okkur. Símar sem eru með talviðmót eru í vösum nánast allra og síðasta árið seldust yfir 40 milljónir snjallhátalara í Bandaríkjunum og spáð er sölu um 60 milljóna í ár.
Þessir hátalarar sem hægt er að tala við eru til dæmis Google Home, með Google Assistant, og Amazon Alexa. Þá er hægt að spyrja um eiginlega allt; spyrja um veðrið, biðja um að leika tónlist eða stilla niðurtalningu á tíu mínútur svo maturinn brenni ekki við.
Þessar talgræjur eru enn sem komið er ekki bestu vinir minni málsvæða. Í dag talar Alexa, vinsælasti snjallhátalarinn á markaðnum, þrjú tungumál. Google Assistant talar sex tungumál og Siri frá Apple tuttugu. Við þurfum að geta svarað þessum fyrirtækjum af hverju í ósköpunum Amazon Alexa eða Google Home ætti að læra að tala íslensku, tungumál sem er ekki meðal þeirra þrjú hundruð stærstu. Sjónvörp, ljós, ryksugur, gluggatjöld, læsingar og ísskápar sem taka við raddstýringu eru nú þegar komin á markað. Farartæki og mótorhjólahjálmar eru einnig farin að hlusta og tala til að auka öryggi ökumanna.
Máltækniáætlun markar kaflaskil
Íslendingar ætla þó að gera sitt til að draga úr líkunum á stafrænni andnauð tungumálsins okkar. Í ágúst árið 2018 skrifaði sjálfseignarstofnunin Almannarómur undir samning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið um rekstur miðstöðvar um máltækni næstu fimm árin. Að Almannarómi standa háskóla- og rannsóknarstofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem öll brenna fyrir því brýna verkefni að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í síbreytilegum tækniheimi. Markmið Almannaróms er að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri máltækni svo framtíðin hljómi vel á íslensku. Aðalmarkmið miðstöðvar máltækniáætlunar er að sjá til þess að verkefni máltækniáætlunarinnar verði framkvæmd hjá þeim sérfræðingum, stofnunum og fyrirtækjum sem fengin eru til að útfæra þau. Almannarómur mun afla tilboða og gera samninga við þá sem vinna að verkefnum á grundvelli verkáætlunarinnar Máltækni fyrir íslensku 2018-2022.
Eitt af markmiðum Almannaróms er að koma íslensku inn í þær máltæknilausnir sem líklegt er að verði á íslenskum heimilum hvort sem er í ísskápum, hátölurum eða öðrum tækjum. Margar af þeim lausnum sem unnið verður að í gegnum íslensk máltækniverkefni verða svo þær tæknilegu undirstöður sem erlend tæknifyrirtæki geta notað til að íslenska komist á dagskrá innleiðingar tungumála stærstu máltæknilausna okkar tíma. Við þurfum að sjá til þess að lausnir fyrir íslensku verði notaðar af stærstu tæknifyrirtækjum heims og þannig aðgengilegar í tækjunum sem við notum alla daga.
Þessi slagur er vissulega ekki einfaldur en við getum nýtt styrk smæðarinnar, hversu hvik við erum og hversu tæknilega sterkar undirstöður tungumálsins eru með allt frá risamálheild, beygingarlýsingu nútímamáls og svo framvegis.
Tökum slaginn saman
Öruggt er að við þurfum að leggjast á eitt. Við þurfum áfram á hinni sterku þverpólitísku sátt að halda og tilheyrandi stuðningi stjórnvalda. Við þurfum tæknilegan slagkraft úr menntakerfinu. Við þurfum djörfung og framsýni atvinnulífsins til að tryggja að íslenskan verði um ókomna tíð fullgilt fyrsta val okkar í öllum okkar samskiptum, hvort sem það er okkar í milli eða milli okkar og tækjanna sem til verða og talað verður við.
Þetta er eitt af stórum málunum. Nú er okkar allra að taka slaginn.
Höfundar eru í stjórn Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni