Margt er til umfjöllunar í umræðunni þegar kjaraviðræður standa yfir. Meðal þess sem umræðan hverfist um eru skoðanir fólks um hverjar séu skynsamlegustu kjarabæturnar og hver það sé sem hafi skyldum að gegna í því að höggva á hnútinn í þeim efnum. Þegar allt kemur til alls skiptir aukinn kaupmáttur hvað mestu máli. Það er hin raunverulega kjarabót. Vonandi getum við öll verið sammála um það.
Allir þurfa þak yfir höfuðið. Þannig eru húsnæðismálin t.d. gott dæmi um innlegg stjórnvalda inn í kjaraviðræðurnar enda málaflokkurinn grunnforsenda velferðar.
Engum dylst að húsnæðisverð og húsnæðiskostnaður er allt of hár á höfuðborgarsvæðinu. Leyfi ég mér í þessu samhengi að fullyrða að kaupmáttaraukning undanfarinna ára hafi brunnið inni með of háum húsnæðiskostnaði. Sitt sýnist hverjum hvað þarf til svo lækka megi fasteignaverð. Það hefur haldið áfram að hækka þrátt fyrir að margt hafi verið gert til að bregðast við.
Í janúarmánuði 2014 voru stimpilgjöld af lánsskjölum afnumin og veittur afsláttur fyrir fyrstu íbúðakaupendur. Þannig hefur verið auðveldara að endurfjármagna og skipta úr verðtryggðu láni yfir í óverðtryggt. Í þessu samhengi má nefna að verðbólgan hefur verið sögulega lág undanfarið og þá hafa vextir lækkað jafnt og þétt. Fólki hefur verið gert kleift að greiða séreignasparnaðinn sinn inn á íbúðalán með varanlegum skattaafslætti. Þá mega fyrstu íbúðakaupendur ráðstafa sparnaðnum sem innborgun á íbúð. Byggingarreglugerðin hefur verið einfölduð en enn má gera betur eins og að auðvelda einyrkjum og einstaklingum að byggja án strangra krafna um byggingarstjóra og fleira. Þá hafa mörg sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins haft gott lóðaframboð, gefið afslátt af gatnagerðargjöldum og haldið umsýslugjöldum í lágmarki.
Gjöld sem hafa bein áhrif á fasteignaverð
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa hins vegar valið að fara öfuga leið. Eins og flestir þekkja hafa þau sveitarfélög, sem hér um ræðir, ekki haft nægt framboð lóða, sem hentar þeim hópum sem helst vantar húsnæði. Þeim lóðum sem þó er úthlutað á höfuðborgarsvæðinu kosta heilan handlegg með byggingarréttargjöldum, álagi á gatnagerðargjöld, innviðagjöldum, umsýslugjöldum o.fl. gjöldum, sem eru ekkert annað en skattar. Gjöld þessi hafa svo bein áhrif á fasteignaverðið, bæði vegna skorts á eignum og hás byggingarkostnaðar, sem skilar sér beint í vasa sveitarfélaganna í gegnum aukin fasteignagjöld af hærra fasteignaverði.
Stofnkostnaður + byggingarkostnaður + álagning verktaka mynda húsnæðisverð nýbygginga sem hefur svo aftur áhrif á fjármagnskostnað af húsnæðinu. Þessi sviðsmynd af raunveruleikanum kom skýrt fram í umræðum mínum við Ásmund Einar Daðason ráðherra húsnæðismála um áhrif lóðarframboðs og lóðarkostnaðar á fasteignaverð á Alþingi 4. febrúar síðastliðinn.
Það má því með sanni segja að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu fíllinn í herberginu, sem eru búin að seilast í vasa bæði fyrirtækja og íbúa sinna með húsnæðisgjöldum, m.ö.o. sköttum. Þetta sést vel á því að staðan er allt önnur á landsbyggðinni, þar getur ungt fólk miklu frekar fjárfest í íbúðarhúsnæði og fleiri geta farið út í nýbyggingar. Vandinn á landsbyggðinni er raunar sá að húsnæðisverðið er ekki nægilega hátt svo það borgi sig að byggja.
Lausn kjaraviðræðnanna hlýtur því að felast í því að auka kaupmátt fólks og gera það með skynsömum hætti. Sjálfur tel ég að svigrúm ætti að vera til staðar til að lækka húsnæðiskostnað á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stærðahagkvæmni sveitarfélaga ætti að gefa svigrúm til að lækka byggingarréttargjöld, innviðagjöld og útsvarsprósentu líkt og sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa gert, eins og t.d. í Grindavík.