Alþjóðlegi hrósdagurinn á Íslandi verður haldinn hátíðlegur í sjöunda sinn föstudaginn 1. mars n.k. Öll höfum við þörf fyrir að fá hrós. Það er ekkert sem gleður meira, gefur meiri orku og gerir fólk ánægðara en hrós sem er sett fram af einlægni. Á vinnustöðum skiptir hrós sköpum fyrir frammistöðu og vellíðan starfsmanna. Hrós hvetur okkur til dáða og eflir sjálfstraustið og stoltið. Vel meint og einlægt hrós ýtir undir jákvæð samskipti og getur breytt andrúmsloftinu í einni svipan. Hrós er auk þess staðfesting á því að við séum að gera réttu hlutina, gerum hlutina rétt og að það sé tekið eftir því. Með því að hrósa af einlægni sýnum við persónulegan áhuga og viðurkenningu.
Að veita gott hrós
Gott hrós er veitt á áberandi og skýran hátt þannig að það fari ekki á milli mála að verið sé að hrósa. Hrós sem er vel sett fram einblínir á hegðun og atriði sem við getum haft stjórn á. Það er nákvæmt og sértækt. Gott hrós er einlægt, jákvætt orðað og veitt eins fljótt og hægt er eftir að tiltekin hegðun átti sér stað.
Þegar við hrósum er gott að nefna í fyrsta lagi það sem við ætlum að hrósa fyrir, í öðru lagi að veita hrósið og í þriðja lagi að nefna hvers vegna við erum að hrósa. Ef við ætlum t.d. að hrósa fyrir góða skýrslu væri hægt að segja:
“Ég vil hrósa þér fyrir skýrsluna sem þú skrifaðir um verkefnið sem við vorum að ljúka við. Mér finnst hún vönduð og afar skýr. Sérstaklega finnst mér gott að sjá hversu ítarlega þú fjallaðir um hindranirnar sem komu upp og hvernig við náðum að yfirstíga þær.“
Annað dæmi væri:
„Mig langar að hrósa þér fyrir að hafa rætt við Sigríði um samskipti ykkar sem hafa verið frekar stirð að undanförnu. Ég er ánægð með að þú skulir hafa haft frumkvæði að þessu samtali. Ég veit að þetta var ekki auðvelt og tel að þetta muni hafa jákvæð áhrif á móralinn í hópnum.“
Að þiggja hrós
Það er ekki aðeins list að hrósa á góðan hátt heldur einnig að kunna að þiggja hrós. Stundum skiptir fólk um umræðuefni þegar það fær klapp á bakið, verður vandræðalegt og horfir ofan í bringuna á sér, slær hrósinu upp í fíflagang eða byrjar jafnvel að þræta við þann sem veitti hrósið. Leyfum okkur að gleðjast yfir hrósi og venjum okkur á að horfa í augu þess sem hrósaði okkur. Segjum orð eins og „Takk fyrir“, „Ég með það mikils“ eða „Virkilega gaman að heyra“. Þessi viðbrögð sýna að við höfum meðtekið hrósið og gefa þeim sem hrósaði okkur tilfinninguna að við kunnum að meta það. Ekki er nauðsynlegt að endurgjalda með hrósi nema okkur finnist viðkomandi eiga það skilið.
Það er fátt sem yljar manni eins um hjartarætur og einlægt hrós. Æfum okkur markvisst í að hrósa fólkinu í kringum okkur fyrir það sem það á hrós skilið fyrir. Gott og sannfærandi hrós kostar ekki krónu en getur gert kraftaverk.
Höfundur hrinti hrósdeginum á Íslandi af stað árið 2013 og stofnaði Facebook-síðu kringum hann. Þar setja um 3.000 manns reglulega inn hrós.