Á Vestfjörðum er fólk ekki óvant því að hafa fyrir lífinu. Óblíð náttúruöfl hafa mótað þar útsjónarsama Íslendinga, sem eru útbúnir seiglu og langlundargeði. Nú bregður hins vegar svo við að Vestfirðingar þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum á mörgum vígstöðvum í einu. Barist er fyrir bættum samgöngum, fyrir því að mega stunda fiskeldi og fyrir því að mega virkja vatnsföllin í eigin heimabyggð.
Átakalínur eru oft ekki alveg skýrar enda eru málefnin um margt ólík. Eitt eiga þessi mál þó sameiginlegt - þau snerta öll samspil nýtingar, umhverfisáhrifa og afkomu. Átökin hafa víða orðið ljót og óvægin og á tímum mjög hatrömm og persónuleg.
Vanhæfur ráðherra
Athyglisverð er einörð afstaða umhverfisráðherra í málefnum Vestfjarða en hann hefur ekki farið leynt með afstöðu sína til ákveðinna mála vestra. Það er skoðun mín að umhverfisráðherra sé algerlega vanhæfur til að fjalla um málefni Vestfjarða þar sem hann barðist áður með oddi og egg, sem framkvæmdastjóri Landverndar, gegn nánast öllum uppbyggingaráformum á Vestfjörðum.
Það skal tekið fram að ég skipa mér í hóp náttúrverndarsinna og hef því skilning á því að náttúran skuli njóta vafans. Ég er engu að síður talsmaður þess að náttúran sé nýtt í samræmi við sjálfbæra þróun og ekki síst með byggðasjónarmið að leiðarljósi.
Fordæmalaus eignaupptaka
Sem leikmaður og heimamaður er ég fylgjandi Hvalárvirkjun og hef fengið mig fullsaddan af stöðugum áróðri virkjunarandstæðinga (friðunarsinna) - áróðri þar sem sannleikurinn víkur oftar en ekki fyrir málstaðnum. Málstaður friðunarsinna er illskiljanlegur en hann virðist að mestu ganga út á heildarfriðun á svokölluðum Drangajökulsvíðernum, sem myndi þýða stórfellda og fordæmalausa eignaupptöku og sjálfkrafa flutning á umráðarétti eigenda jarðanna til ríkisins.
Óeðlileg afskipti íslenskra auðkýfinga
Ýmsum meðulum hefur verið beitt í baráttunni gegn virkjunarframkvæmdunum í Ófeigsfirði. Má þar nefna óeðlileg afskipti íslenskra stórkaupmanna, fyrrverandi aðstoðarmanns umhverfisráðherra og annarra nafntogaðra einstaklinga. Ósannar fullyrðingar og myndefni um yfirvofandi náttúruspjöll tengd framkvæmdinni hafa ítrekað verið settar fram og tilraunir hafa verið gerðar til stórfelldra uppkaupa á atvinnurekstri og jörðum í hreppnum.
Steininn tók svo úr þegar friðunarsinnar gerðu tilraun til yfirtöku á hreppnum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2018 með því að flytja í hreppinn lögheimili einstaklinga á kosningaaldri gagngert til að hafa áhrif á úrslit kosninganna. Þetta getur ekki flokkast undir neitt annað en aðför að lýðræðinu. Yfirtakan mistókst og er mikill meirihluti aðal- og varamanna í hreppsnefnd Árneshrepps fylgjandi virkjunaráformum.
Ábyrgð friðunarsinna
Nú er svo komið að hluti hins háværa minnihluta í hreppnum er tilbúinn að framselja (með friðun) eignarhald á jörð sinni í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir eða hafa áhrif á framvindu mála í Ófeigsfirði og til að koma höggi á ferðaþjónustu í hreppnum.
Ljóst má vera að þessi framkoma ákveðins hóps er ekki til þess fallin að skapa frið eða stuðla að áframhaldandi búsetu í Árneshreppi. Það er mín skoðun að friðunarsinnar eigi stóran þátt í stöðunni eins og hún er í dag. Sá áróður, sem rekinn er af háværum minnihluta friðunarsinna, á ekkert skylt við náttúruvernd - hvað þá sjálfbæra þróun.
Virkjun fylgja framfarir
Það liggur fyrir að virkjunarframkvæmdum mun fylgja veruleg innviðauppbygging. Vegurinn frá Ingólfsfirði inn í Ófeigsfjörð verður lagaður og ráðgert er að leggja veg yfir Ófeigsfjarðaheiði yfir í Ísafjarðardjúp sem hringtengir hreppinn að sumri til. Allar vegabætur eru af því góða. Afhendingaröryggi rafmagns stórbatnar, jafnvel um leið og framkvæmdir hefjast, þar sem áætlað er að leggja nýjan rafmagnsstreng að framkvæmdasvæðinu ásamt ljósleiðara. Á sama tíma gefst tækfæri til að tengja staði sem fram að þessu hafa ekki verið tengdir við rafmagn, eins og Eyri við Ingólfsfjörð. Þriggja fasa rafmagn bætir lífsgæði og samkeppnistöðu hreppsins og skapar hugsanlega störf. Svo má nefna að hreppurinn fær stórauknar tekjur, m.a. af fasteignagjöldum og útsvari, á þeim 4-5 árum sem framkvæmdir standa yfir. Það gæti orðið nægjanleg vítamínsprauta til að snúa byggðaþróuninni í hreppnum við.
Engar galdralausnir
Eins og staðan er núna mun heilsársbúseta í Árneshreppi líða undir lok ef ekkert kemur til sem styður og skapar tækifæri til atvinnu og gerir íbúum kleift að blómstra og dafna. Ekkert eitt kemur í veg fyrir áframhaldandi hnignun sveitarfélagsins. Hvorki þjóðgarður né virkjun eru galdralausnir í því samhengi heldur þurfa margir samhangandi þættir að koma til. Hvalárvirkjun getur verið einn þeirra þátta en fyrst og fremst þarf pólitískan vilja. Þingmenn fjórðungsins síðustu áratugi hafa brugðist Árneshreppi. Staðan á ekki að þurfa að koma á óvart þar sem krafan um betri samgöngur og jöfnun búsetuskilyrða hefur verið hávær í gegnum tíðina. Þrátt fyrir þá kröfugerð hafa engar stórar vegabætur átt sér stað í hreppnum síðan 1994.
Ríkið ber sína ábyrgð
Tækifærin eru mörg í Árneshreppi. Það eina sem þarf er að koma auga á þau og vinna út frá þeim. Þar að finna vannýttar auðlindir á borð við heitt vatn, landgæði, riðulaust og sjúkdómalaust sauðfjárræktarsvæði, gjöful fiskimið og mörg tækifæri í ferðaþjónustu. Um Árneshrepp verður ekki skrifað án þess að nefna bændur sem hafa í tímans rás náð ótrúlegum árangri í kynbótum á sauðfé. Nú er svo komið að féð á Ströndum er með hærri fallþunga en þekkist annars staðar á landinu. Það er ríkisins að styðja við þá sérstöðu og hlúa að afskekktum byggðum eins og Árneshreppi með því að tryggja sæmilegar samgöngur og styrkja innviði. Upp á það hefur verulega vantað.
Runnin er upp ögurstund í málefnum Árneshrepps. Því er tími til kominn fyrir þá, sem á annað borð vilja áframhaldandi byggð í hreppnum, að snúa bökum saman í þeim málefnum sem samstaða er um. Nágrannasveitarfélögin á Vestfjörðum verða að láta sig varða um málefni Árneshrepps - sérstaklega í eins stóru máli og framkvæmdin í Ófeigsfirði er. Það yrði mikið högg fyrir Vestfirði í heild ef heilsársbúseta leggðist af í Árneshreppi. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að vestfirsk sveitarfélög standi vörð um sameiginlega hagsmuni sína.
Höfundur er uppalinn í hreppnum, býr þar hluta úr árinu og er stoltur rafbílaeigandi.