Eftir hamfarir bankahruns og öskumistur jökulsins lenti gullgæsin við sviðna strönd Íslands. Öllum að óvörum urðu umskipti í efnahagsmálum þjóðarinnar. Á örfáum árum fimmfaldaðist fjöldi ferðamanna til landsins og þjóðarkakan stækkaði á ævintýralegan hátt. Veisluborðið svignaði undan kræsingunum. Kapphlaupið hófst um að ná sem stærstu sneiðinni og sem mest á sinn disk.
Á árinu 2007 voru 68 ferðaskrifstofur skráðar með leyfi frá Ferðamálastofu. Tíu árum síðar voru þær orðnar 308. Á þessum sama tíma jókst fjöldi fyrirtækja sem bjóða uppá afþreyingu tengda ferðaþjónustu um 900% eða úr 150 fyrirtækjum í 1.348. Svona mætti halda lengi áfram.
Breytt samfélagsumgjörð
Ferðaþjónusta er flókin atvinnugrein, hún kemur inn á fjölmörg svið atvinnulífsins og getur af sér margskonar afleidd störf. Áhrif greinarinnar geta verið bæði góð og slæm.
Síðustu ár hefur umræðan um ábyrga ferðaþjónustu einnig skotið upp kollinum hér á landi. Þá er átt við að greininni sé stýrt og að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi þannig að efnahagslegir, umhverfislegir og samfélagslegir þættir verði í jafnvægi. Þannig mætti notast áfram við myndlíkinguna um veisluborðið, að því sé stýrt hvernig borðhald fer fram. Markmiðið með þeirri stýringu er að allir fari sáttir úr veislunni, fremur en að freku gestirnir ryðji sér leið að kræsingunum, skilji eftir allt í rúst og hina gestina með kaldar kartöflur í fanginu.
Umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg fótspor ferðaþjónustunnar eru orðin greinileg í samfélaginu, enda hefur hingað til lítið verið gert til að sporna við þróun fjöldatúrisma á Íslandi. Hérlendis lýtur því greinin lögmálum sem þekkt eru um allan heim, s.s. undir nöfnum eins og áreitiskvarða (Doxey) og lífsferli áfangastaða (Butler).
Þegar lítil sem engin stýring er á þróun vinsælla áfangastaða og helsti drifkrafturinn er gróðasjónarmið blasir við hnignun greinarinnar og óánægja heimamanna. Undirboð og svört atvinnustarfsemi blómstra sem leiðir til skekktrar samkeppnisstöðu þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem eru að gera vel. Eftirlit er máttlítið. Áskorunin felst í því að skipuleggja leiðir til að koma í veg fyrir hnignunina og vinna að framgangi ferðaþjónustu í þá átt að sátt ríki á öllum sviðum samfélagsins.
Að bíta í eigið skott
Fylgifiskar fjöldatúrisma eru margir og vel þekktir. Hvað hagræn áhrif varðar gildir þar lögmálið að lítil staðbundin fyrirtæki byrja að heltast úr lestinni, samruni og samþjöppun á sér stað og fjölþjóðleg stórfyrirtæki rata inná þessa markaði til að fá bita af kökunni. Þannig er ekki óalgengt að efnahagslegur leki eigi sér stað, þ.e. að gjaldeyristekjur flæði út úr landinu. Að sama skapi eykst húsnæðisvandi heimamanna, framfærslukostnaður eykst, láglaunastörfum innan greinarinnar fjölgar, heimamenn flýja ákveðin hverfi og staði, þar sem staðbundið menningarlegt yfirbragð þjóðarinnar fer hverfandi. Vörumerkjavæðing menningararfsins, í okkar tilviki lundabúðir, yfirtaka bæjarbraginn.
Þessi skólabókardæmi fræðimanna um heim allan hljóma kunnuglega, ekki satt?
Alþekkt er einnig að fjöldaferðamennsku fylgi sú þróun að þolmörk umhverfisþáttarins eru þanin. Náttúran, aðalaðdráttarafl greinarinnar og það sem hún byggir fyrst og fremst á, er nú víða komin að þolmörkum. Innviðir landsins eru farnir að láta á sjá og fjármagn ekki nægjanlegt til að aðlaga þá álaginu sem fjöldaferðamennskan hefur í för með sér. Fjöldi þjónustuþátta, eins og vegakerfið, heilbrigðisþjónusta og löggæsla eru þarafleiðandi í lamasessi.
Er ferðaþjónustan á Íslandi að bíta í eigið skott og ganga frá sjálfri sér?
Víst er að neytendavitund ferðamanna hefur aldrei verið meiri og það er ekkert lögmál að ferðamenn komi til landsins. Þeir fara einfaldlega annað ef áfangastaðurinn stenst ekki væntingar þeirra.
Þolmörk samfélagsins á enda
Það er ólga í yfirstandandi kjaraviðræðum og fólki er sagt að kröfur verkalýðsfélaganna ógni rekstrarskilyrðum ferðaþjónustunnar. Síðustu vikurnar hefur athyglin beinst að þeim lægst launuðu innan greinarinnar. Sannarlega ekki að ósekju. Ferðaþjónustan er borin uppi af láglaunafólki á Íslandi. Lágmarkslaun í landinu eru nú 300 þúsund krónur og það þarf ekki stærðfræðing til að reikna það út að á þessum launum ná fáir endum saman á Íslandi í dag. Þetta eru laun þeirra ófaglærðu sem starfa við t.a.m. þrif, móttöku gesta og veitingasölu en þau eru einnig sambærileg þeim faglærðu í greininni s.s. rútubílstjóra og hámenntaðra leiðsögumanna.
Ferðaþjónustan er stór áhrifavaldur í íslensku efnahagslífi síðustu ára og samtímis hefur hún fært stjórnvöldum og fyrirtækjum í greininni margar og flóknar áskoranir. Ábyrgð stjórnvalda er mikil varðandi framtíðarstefnumótun greinarinnar. Nú er hins vegar komið þolmörkum samfélagsins, ekki síst láglaunastéttarinnar sem heldur lykilatvinnugrein þjóðarinnar gangandi.
Áleitin spurning skýtur því því óneitanlega upp kollinum; Ætla stjórnvöld og rekstraraðilar að nýta gullgæsina á ábyrgan og sjálfbæran hátt þannig að allir þættir, efnahagslegir, umhverfislegir og samfélagslegir verði metnir heilt yfir? Eða á skeytingarleysi villta vestursins að hlaðborðinu að vera leiðarljósið áfram? Gullgæsin lenti við strönd Íslands, færandi hendi í öskumistrið fyrir nokkrum árum. Ef ekkert verður að gert er næsta víst að hún liggi vængstífð í nýsviðinni jörð, fyrr en síðar.
Höfundur er í framboði til stjórnar VR. Kosningar standa nú fram rafrænt á www.vr.is til hádegis föstudaginn, 15. mars.