Fyrir u.þ.b. 30 árum birtist í Tímanum, málgagni hins afturhaldssama bændaflokks, Framsóknarflokksins, grein eftir Steingrím Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra landsins. Þótt ótrúlegt sé, leyfði Steingrímur sér í greinarskrifunum að halda því fram að Helmut Kohl, þáverandi kanslari heimalands míns, sambands-ríkisins Þýskalands, stefndi að því að framkvæma það sem Hitler hafði mistekist, þ.e. að ná yfirráðum yfir og kúga þjóðir Austur-Evrópu.
Auðvitað fór Steingrímur út fyrir velsæmismörk í greinarskrifunum. Þótt tjáningafrelsi sé einn af hornsteinum frjálsra samfélaga, þá er fjöldi skoðana sem frjálsir fjölmiðlar forðast sjálfviljugir að fjalla um vegna eðlis þeirra. Af illri nauðsyn eru takmörk fyrir slíkum skrifum og orðræðum á forsendum sann- og heiðarleika, nákvæmni, siðferði og ekki síst tillitsemi fyrir öðrum og er óásættanlegt að fara út fyrir slík takmörk.
Því miður virðast móðganir og ósannindi af ofangreindum toga enn viðloðandi a.m.k. hluta bændastéttarinnar. Þ. 28 febrúar s.l., skrifaði Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins, áróðursrits sem er fjármagnað af almannafé í gegnum niðurgreiðslur til landbúnaðarins, grein í ritið undir fyrirsögninni „Hið Heilaga ESB“. Þar heldur hann því fram að skriffinnunum í Brussel með pennunum einum að vopni sé að takast það sem Hitler með milljónaher tókst ekki, að kúga og arðræna Evrópu.
Það er í hæsta máta eðlilegt að skoðanir manna á Evrópubandalaginu séu mismunandi, á móti því eða með því, eða jafnvel hlutlausar. En að bera Evrópubandalagið saman við Hitler og gjörðir hans og hans fylgifiska, er í fyrsta lagi móðgandi og særandi, en ekki síður vottur um hreina fávisku og algjört skilningsleysi á sögunni. Því miður læðist að manni sá grunur að barátta viðkomandi við að verja hagsmuni bændastéttarinnar á kostnað neytenda, svipti þennan „risa“ íslenskrar blaðamennsku getunni til að hugsa rökrétt.
Þessum manni á að víkja úr starfi!