Það ólgar blóð í samfélagsumræðunni okkar þessa dagana. Tilfinningar eru það fyrsta sem sést þegar orðræðan er skoðuð. Fólk er sjóðandi reitt yfir því að einhverjir hælisleitendur hafi ruslað út Austurvöll og annað fólk er bandbrjálað yfir því að þetta fólk skuli leyfa sér að vera sjóðandi reitt. Ásakanir ganga á víxl á milli hópa sem hafa mismunandi afstöðu til útlendingamála. Skotgrafirnar dýpka við stóru orðin sem falla á báða bóga.
Hvað er til ráða? Mig langar að gera tilraun með þessum skrifum. Tilraun til að skilja og tilraun til að brúa. Ég er lögfræðingur og kenni flóttamannarétt í lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ég vann auk þess árum saman sem lögmaður fyrir fólk á flótta sem hefur leitað til Íslands eftir alþjóðlegri vernd. Það væri því auðvelt fyrir lesendur að setja mig í kassa „góða fólksins” og loka eyrum og augum gagnvart því sem mig langar til að segja á grundvelli þess að ég sé hlutdræg. Ég bið samt í einlægni um að fólk lesi þetta til enda.
Mig langar til byrja á því að berskjalda mig. Mig langar til að segja við fólkið sem er sjóðandi reitt yfir því að útlendingarnir hafi ruslað út Austurvöll: Ég skil óttann sem veldur þessari reiði. Ég skil að þér líði eins og þú vitir hvað við, í þessu litla, einsleita og friðsæla samfélagi, höfum en ekki hvað við fáum ef samsetningin þjóðarinnar breytist mikið á stuttum tíma. Ég skil að þú óttist að upplifa þá tilfinningu að verða gestur í eigin landi. Ég skil að þú óttist það að trúarlegt ofstæki geti leitt til gjörða í okkar landi sem samrýmast ekki þeim mannréttindaviðmiðum sem við byggjum samfélagið okkar á. Mér finnst þessi ótti ekki bara skiljanlegur mér finnst hann að mörgu leyti líka réttlætanlegur. Það er eitt sem við þráum jú öll og það er að tilheyra. Á Íslandi getum við svo auðveldlega sagt að við tilheyrum því skýra og skilgreinda mengi sem er að vera Íslendingar. Hvað ef breytingarnar verða svo miklar og hraðar að við missum þessa tilfinningu?
Það er sársaukafullt að finnast maður ekki tilheyra. Þetta hafa rannsóknir ítrekað sýnt og reyndar er það sérstaklega sársaukafull tilfinning að hafa upplifað það í æsku að vera utanveltu, sem gerist til dæmis þegar fólki finnst því hafa verið hafnað af fjölskyldum sínum eða verið utanveltu í skóla og vinahópum. Nú sýna rannsóknir til dæmis ítrekað að ungum drengjum líði illa og séu upp til hópa utanveltu í skólakerfinu en við höfum ekki fundið leiðir til að bregðast við því ástandi. Félagsfræðingar á borð við Brené Brown, hafa lagt fram kenningar sem segja að ef maður upplifir slíka tilfinningu séu í raun bara þrjár leiðir til þess að kljást við afleiðingarnar:
- Láta eins og sársaukinn sé ekki til staðar þar til hann lamar okkur að lokum. Líkaminn gefur sig undan andlega álaginu sem felst í að bæla niður þessar erfiðu tilfinningar.
- Nota sársaukann til þess að láta öðrum líða illa. Það er jú auðveldara að valda öðrum sársauka en að gangast við því að maður upplifi hann sjálfur.
- Að gangast við sársaukanum, skilja hvaðan hann kemur og nota hann að lokum til þess að sjá betur og skilja heiminn og sársauka annarra.
Á ýmsum stundum, eins og þegar hælisleitendur tjalda skyndilega á Austurvelli og setja spjöld á hann Jón okkar Sigurðsson, getur fólki upplifað ákveðið valdaleysi. Það finnur fyrir tilfinningunni um að hér sé of langt gengið en hefur ekki völd til þess að breyta ástandinu og hrópar því eins hátt og það getur á Netinu að nú sé mál að linni. Þegar við reiðumst notum við gjarnan óheflaðra orðalag en annars. Ef við upplifum auðmýkingu, eins og að verið sé að gera lítið úr okkar gildum og hefðum, verðum við nógu reið til að láta allt það grimmasta sem okkur dettur í hug flakka. Auðmýking er reyndar sú tilfinning sem mannskepnan á hvað erfiðast með að vinna úr og hún er því orsök ótal deilna sem hægt væri að leysa en í stað þess að lausn finnist versna þær og stækka þar til allt logar í illindum og gremju. Bál sem er gríðarlega flókið að hemja hvað þá slökkva.
Á tilfinningalegum hápunktum sem þessum er mikilvægt að allir þátttakendur í samfélagslegri umræðu átti sig á mörkum tjáningarfrelsisins. Tjáningarfrelsið er ein af grunnstoðum réttarríkisins. Í því felst að öllum er heimil tjáning en fólk ber ábyrgð á orðum sínum fyrir dómi. Samkvæmt almennum hegningarlögum takmarkast tjáningarfrelsi borgaranna með þeim hætti að refsivert er að breiða út hatursáróður á opinberum vettvangi. Hatursáróður er skilgreindur sem tal, texti, tjáning eða framkoma þar sem hvatt er til ofbeldis, fordóma eða fordómafullrar hegðunar gegn einstaklingi eða hópi af fólki á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Til hatursáróðurs telst einnig tjáning þar sem markmiðið er að vanvirða, smána, hræða eða ógna viðkomandi einstaklingi eða hópi. Hver sem viðhefur slíka tjáningu getur sætt sektum eða jafnvel fangelsi, samkvæmt lögum. Þessi takmörkun tjáningarfrelsisins er byggð á þeirri forsendu að hatursáróður brjóti gegn réttindum þeirra sem tilheyra umræddum hópum auk þess sem slík tjáning brjóti gegn almannahagsmunum. Hatursáróður grefur undan samstöðu í samfélaginu vegna þess að í slíkri tjáningu felst alltaf einhvers konar hópaskipting í “okkur” og “hina”. Hins vegar getur sá sem tjáir sig með slíkum hætti sjálfur talið að hann sé að efla samstöðu meðal “sinna” en slík afstaða breytir engu hvað varðar túlkun laganna.
Til þess að upplifa það að við höfum völd þurfum við að finna að við getum haft áhrif á aðstæður. Við lifum á tímum þar sem allt er að breytast í kringum okkur og afar erfitt er að hafa stjórn á þeim aðstæðum sem eru uppi í samfélaginu hverju sinni. Það gerir það að verkum að almennir borgarar upplifa enn meira valdaleysi en ella.
Í grunninn eru allar manneskjur svipaðar. Við viljum að öðrum líki vel við okkur, hvort sem við viðurkennum það eða ekki. Við viljum tilheyra. Við viljum hafa stjórn á aðstæðum af því við óttumst það óþekkta. Skiljanlega. Það er erfitt að vera manneskja í dag á tímum ógnarhraðra breytinga.
Geta okkar til að tengjast hvert öðru hefur mikil áhrif á það hversu góðu lífi við lifum. Ómeðhöndlaður innri sársauki veldur því að við veljum stundum með ómeðvituðum hætti að valda öðru fólki sársauka. Flestir ef ekki allir eru að burðast með ósýnilegan bakpoka fullan af sársauka og skömm vegna fyrri upplifanna, þó að þeir séu vissulega misþungir. Ef við lítum nú öll í spegilinn og skoðum það hvaða sársauki það er sem við þurfum að vinna úr til þess að geta meðtekið sársauka annarra erum við ekki aðeins að minnka líkur á því að við meiðum aðra heldur einnig að auka gríðarlega líkurnar á eigin hamingju. Eitthvað þarf í öllu falli að gerast til að við sem samfélag getum tekið skref í átt að betri líðan og dýpri samkennd. Í dag erum við upp til hópa í skuldasúpu, ofnotandi deyfilyf og áfengi, í misslöku líkamlegu formi og undir of miklu álagi. Slíkt ástand elur varla af sér hamingjusama tilvist.
Ég trúi því að við sem manneskjur séum tengd hvort öðru á órjúfanlegan hátt. Á hátt sem er umfangsmeiri en við sjálf fáum skilið. Það er ekki hægt að rjúfa þessi tengsl milli allra manneskja en það er hins vegar hægt að gleyma þeim. Mig langar til þess að tengjast fólkinu sem er sjóðandi reitt yfir því að flóttamenn hafi tjaldað á Austurvelli. Ég er ósammála ýmsum fullyrðingum þeirra, og sumar tel ég að varði við fyrrgreind lög um bann við hatursáróðri, en ég ætla ekki að leyfa tengingu minni við þetta fólk að gleymast. Með öðrum orðum: rétt eins og við erum öll tengd flóttamönnunum sem grípa til þess örþrifaráðs að tjalda fyrir framan Alþingi til þess að fá áheyrn yfirvalda í landinu okkar, erum við líka öll tengd fólkinu sem trompast af reiði yfir þessu og lætur þung orð falla. Við þurfum að reyna að skilja hvort annað betur og finna leiðir til að valdefla almenna borgara. Ef okkur tekst að skilja betur hvert annað, og þann sársauka, ótta eða auðmýkingu sem grundvallar viðbrögð okkar oft og tíðum, getum við reynt að breyta því kerfi sem í gegnum aldirnar hefur byggt á ofríki fárra yfir almenningi.
Ég hef séð á nokkrum stöðum að fólkið sem hefur tjáð sig með neikvæðum hætti um mótmæli flóttamanna á Austurvelli hefur verið kallað „fasistar” af öðrum borgurum sem eru þeim ósammála. Samkvæmt mínum skilningi þýðir fasisti sá sem vill nota ofbeldi til þess að binda enda á lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag. Það að trompast yfir auðmýkingu á tilteknum gildum eða ótta við miklar breytingar er ekki það sama og að vera fasisti. Það að berja á fólki með orðum fyrir að vera reitt eða hrætt lætur fólk ekki hætta að vera reitt eða hrætt. Með því að stimpla þann sem lætur tilfinningaleg viðbrögð flakka sem fasista erum við ekki að finna lausnir heldur að ýta frá okkur fólki. Þetta fólk finnur þá mögulega reiði sinni og ótta annan farveg.
Við höfum ekki marga staði til þess að eiga í yfirveguðu samtali um breytingarnar á heiminum í dag. Við verðum að búa til slíka staði og lýðræðislegar aðferðir til að skilja betur hvert annað og ná tengslum í gegnum virka hlustun. Það eru til hundruð húsa sem hafa verið byggð yfir íþróttir í landinu en ekkert hús hefur sérstaklega verið byggt utan um samfélagslegt samtal borgaranna. Við þetta bætist að við búum við úrelt stjórnkerfi sem býður upp opinbera umræðu sem felst fyrst og fremst í rifrildi á milli kjörinna fulltrúa mismunandi stjórnmálaflokka, frekar en uppbyggilegu samtali. Fyrir vikið hefur umræða um samfélagsleg gildi og gildi almennt ekki náð að þroskast.
Ég geri það að tillögu minni að slíkt samtalshús verði byggt, en í millitíðinni að haldinn verði samtalsfundur með þjóðfundarsniði á Austurvelli okkar allra á næstunni þar sem við reynum að koma saman skilja hvert annað og tengjast frekar en að öskra á hvert annað á netinu.
Við erum sem fyrr segir tengd órjúfanlegum böndum, treystum þau frekar en að hylja þau með gagnkvæmu hatri. Í lok dags verður ekki hjá þeirri samfélagslegu staðreynd komist að það er miklu fleira sem sameinar okkur sem manneskjur en sem sundrar.
„Hinir” eru nefnilega „við”.