Nú, þegar framleiðslu- og stjórnunarmannvirki Sementsverksmiðjunnar á Akranesi eru að hverfa af yfirborði jarðar, finnst mér við hæfi að setja fram nokkur minningarorð um þetta merka og ágæta fyrirtæki. Vægi þessara minninga er að mestu leyti tengt þeirri tæknilegu þróun, sem átti sér stað innan verksmiðjunnar á starfstíma hennar. Sementsverksmiðja ríkisins var reist á árunum 1956 til 1958 og hóf hún starfsemi 1958. Rekstur hennar og starfsemi voru í samræmi við það sem tíðkaðist hjá öðrum opinberum fyrirtækjum sem reist voru á Íslandi um miðja 20.öldina. Voru flest stærstu framleiðslufyrirtæki landsins þá í opinberri eigu, annað hvort ríkisins eða sveitafélaga. Stjórnir ríkisfyrirtækjanna voru kosnar af sameinuðu Alþingi til fjögurra ára í senn og skipaði sitjandi iðnaðarráðherra formann stjórnarinnar. Þetta fyrirkomulag var lítið þekkt í löndum með markaðsbundnum efnahagskerfum, en segja má að það hafi gefist vonum framar hér. Er það áhugavert verkefni fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að skoða.
Tæknilegar aðstæður til framleiðslu sements á Íslandi voru að mörgu leyti erfiðar og óhefðbundnar. Lítil reynsla var erlendis frá af notkun skeljasands og líparíts sem hráefni í sement, markaðurinn var lítill og framleiðslueiningin lítil og óhagkvæm. Af þeim sökum var upphaflega sett í lög einkasala ríkisins á sementi, sem síðan var felld niður í áföngum frá árinu 1971 vegna aðildarinnar að EFTA.
Ekki fer mörgum sögum af Sementsverksmiðju ríkisins fyrstu ár starfseminnar en síðan rísa þar upp deilur um framleiðslugæði og stjórnunarhætti. Deilurnar urðu harðvítugar, fram komu fullyrðingar um að sementsgæðin væru undir staðalmörkum og auk þess kom í ljós viss fjármálaóreiða, m.a. skattalagabrot. Bæði verkfræðingar og stjórnmálamenn blönduðu sér í umræðurnar og þess var jafnvel krafist að verksmiðjunni yrði lokað. Árið 1971 var að mestu komin regla á þessi mál verksmiðjunnar og ári seinna breytti iðnaðarráðuneytið stjórnun hennar á þann veg, að tveir framkvæmdastjórar komu í stað eins áður; annar stýrði tækni- og framleiðslusviði hennar en hinn fjármálasviðinu. Í kjölfarið var ég ráðinn til starfa í verksmiðjunni sem framkvæmdastjóri tækni- og framleiðslusviðs.
Í aðdraganda þessarar endurskipulagningar kynntist ég nokkuð þeim vandamálum, sem framleiðsla íslenska sementsins átti við að stríða. Ég kom til landsins frá námi erlendis í efnaverkfræði árið 1965 og fékk þá starf hjá nýrri stofnun á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, sem nefndist Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Meðal verkefna þar var að skoða eiginleika íslenska sementsins, sérstaklega vegna hættu á svonefndri alkalíþenslu í steypu. Mörg íslensk steypuefni, sérstaklega þau sem voru í notkun á höfuðborgarsvæðinu, voru virk gagnvart alkalísöltum og íslenska sementið hafði hátt innihald af þessum söltum.
Á áætlun stjórnvalda voru stórframkvæmdir í virkjana- og hafnargerð þar sem krafist var lágalkalí-sements, svo að mikið var í húfi fyrir verksmiðjuna að missa ekki þennan markað. Vegna alvarleika málsins var af hálfu stjórnvalda stofnuð sérstök nefnd, Steinsteypunefnd, til þess að leysa alkalívandamálið og önnur mál er vörðuðu gerð steinsteypu og endingu hennar. Nefndin hafði samastað hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og starfaði þar meðan sú stofnun var við lýði. Ég fékk það verkefni að finna leið til þess að breyta samsetningu íslenska sementsins í þá veru, að notkun þess skapaði ekki hættu á alkalíþenslu. Verkefninu lauk 1971 og niðurstaða þess var, að með íblöndun vissra fínmalaðra gosefna, svonefndra possólanefna, í sementið mætti draga verulega úr alkalíþenslunni. Í framhaldinu var mér boðin áðurnefnd framkvæmdastjórastaða við verksmiðjuna og hóf ég þar störf í ársbyrjun 1972.
Hófst nú góður kafli í starfsemi verksmiðjunnar. Ég mun í þessum minningarorðum mínum aðallega fjalla um þann þátt í starfsemi hennar sem ég var mest upptekinn af næstu 20 árin. Þetta voru tæknilegar framfarir, sem byggðust mest á aukningu á gæðum sementsins, en einnig á þróunarvinnu við að útvíkka og nútímavæða notkun þess. Sementsverksmiðja ríkisins var t.d. fyrst í heiminum til að framleiða svonefnt kísilryks-sement og í framhaldinu nýja sementstegund til nota í virkjanir og skyld mannvirki. Sementsverksmiðjan hóf síðan þróunarvinnu við framleiðslu á tilbúnum múrblöndum og gjörbreytingu á flutningi þeirra og notkun. Þá er þess að geta að endanleg hönnun „Íslenska múrkerfisins“ var á vegum Sementsverksmiðjunnar. Kom sér þá vel að starfsfólk verksmiðjunnar var harðsnúið lið sem kunni vel til verka og átti mestan þátt í að leysa öll þau vandamál sem upp komu.
Strax árið 1972 féllust stjórn Sementsverksmiðjunnar og viðskiptamenn hennar á að breyta framleiðslunni á þann hátt, sem rannsóknirnar á alkalíþenslunni höfðu leitt í ljós. Líparítið, sem var kísilhráefnið í sementsbrennsluna, hafði góða possólaneiginleika og var farið af stað í áföngum að blanda því saman við sementsgjallið við sementsmölunina. Þetta nýja sement sýndi strax jákvæð áhrif.
Um þetta leyti var hafin bygging kísiljárnverksmiðju á Grundartanga, sem síðan tók til starfa 1979. Aðalvandamálið þar var myndun mikils magns af örfínu kísildufti við framleiðslu málmblendisins, sem talið var að myndi valda mikilli mengun og umhverfisvanda. Rannsóknir á þessu ryki, t.d. í Noregi, höfðu sýnt mikil og jákvæð áhrif þess á gæði steinsteypu, ef því var blandað í hana. Af hagkvæmniástæðum var ákveðið að blanda því frekar beint í sementið hér hjá okkur. Þeirri aðferð fylgdu þó vandamál, mikill fínleiki ryksins reyndist t.d. erfiður við flutning þess í loftflutningstækjum sem nota þurfti til að koma rykinu að mölunarkvörnum sementsins. Flutningstækin voru hönnuð í Noregi, en eftir mörg vandamál við að láta þann búnað virka, tókst snjöllum starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar að láta hann flytja nægilegt magn af ryki. Þarna kom einstæð þekking og reynsla starfsmanna framleiðslu- og viðhaldsdeilda verksmiðjunnar af margs konar tæknivanda að góðum notum. Þetta nýja possólanefni, sem fékk nafnið „kísilryk“, reyndist frábærlega vel í baráttunni gegn alkalíþenslunni; svo vel, að engin skemmdatilfelli hafa komið fram í steypu bygginga reistra eftir árið 1979, þ.e. eftir að farið var að framleiða þetta kísilryksement. Á þessum tíma hafði enginn sementsframleiðandi framleitt sement með kísilryks-íblöndun. Um þetta leyti var verið að taka í notkun nýjan Evrópustaðal fyrir sement. Í honum hafði ekki verið gert ráð fyrir kísilrykssementi. Með aðstoð Sambands evrópskra sementsframleiðenda, sem Sementsverksmiðjan var aðili að, tókst þó á síðustu stundu að fá þessa nýju sementstegund skráða sérstaklega í staðalinn. Með íblöndun kísilryksins má segja að vandi íslenskrar steinsteypu með alkalívirkum steypuefnum og alkalíríku sementi hafi verið leystur og menn vörpuðu öndinni léttar.
En þó að íbúðarhúsnæðið væri laust við alkalíþenslu var aðalvandamálið eftir, þ.e.a.s. steypa í vatnamannvirki: Virkjanir, hafnir, brýr o.s.frv. Íslenski steypuiðnaðurinn var ekki hrifinn af sementi með háu possólaninnihaldi, því það dró úr hörðnunarhraða. Því var ráðist í nýja rannsóknaáætlun; framleiðslu á svonefndu virkjanasementi. Fyrsta virkjanasementið var blandað 25% af líparíti og notað í Sigölduvirkjun og nefnt „Sigöldusement“. Framkvæmdaaðilar þar létu sér þessa nýju sementsgerð vel líka þó að hörðnunarhraði hennar væri minni en almenna sementsins, og reynslan af henni reyndist góð. Þróun þessara sértegunda var haldið áfram og þegar Blönduvirkjun var reist á níunda áratugnum var framleitt í hana ný, mjög possólanrík blanda með þrem grunnefnum; sementsgjalli, kísilryki og líparíti. Var gjallið 65%, líparítið 25% og kísilrykið 10%. Þannig sérsement hefur fengið nafnið „þríblöndusement“ (ternary cement). Sementstegundin sem Sementsverksmiðjan framleiddi var nefnd „Blöndusement“ og fékk hún skráningu í possólankafla Evrópustaðalsins. Eins og með kísilrykssementið var þetta í fyrsta skipti, sem sement með tveim possólanefnum var framleitt á markað. Síðan hafa margir erlendir sementsframleiðendur fetað í fótsporin enda er Blöndu-sementið talið sérstaklega umhverfisvænt með aðeins 65% af brenndu gjalli.
Þegar leið á níunda tug síðustu aldar virtust gæði íslenska sementsins vera orðin mjög mikil, reyndust jafnvel meiri en þeirra sementstegunda sem farið var að flytja inn um aldamótin 2000.
Var athyglinni þá snúið mjög að því að minnka kolefnisspor verksmiðjunnar með umbótum á brennslu sementsgjallsins. Það verk hafði hafist tuttugu árum áður eða frá því eldsneytinu var breytt úr olíu í kol. Um 1980 var ekki mikið farið að tala um loftslagshlýnun eða kolefnisspor, en verð á olíu hækkaði upp úr öllu valdi á áttunda áratugnum og ógnaði rekstri verksmiðjunnar. Var þá lagt í að reisa búnað til brennslu kola við verksmiðjuna, sem komst í gagnið árið 1983. Sú framkvæmd var ekki auðveld, margir fundu henni flest til foráttu og sérstaklega var talin mikil mengunarhætta af kolaryki. Í samkomulagi við bæjaryfirvöld og íbúa var reynt að sýna fram á framfarir í mengunarvörnum og kynningarferð farin með fulltrúum þessara aðila í sementsverksmiðjur í Danmörku og Svíþjóð. Eldsneytisumskiptin gengu tiltölulega vel fyrir sig og óánægjuraddirnar hljóðnuðu.
Undir lok aldarinnar, sérstaklega eftir ráðstefnuna í Kyoto, var mikil hreyfing í sementsiðnaðinum að minnka eldsneytisþörf hans. Auk notkunar á óbrenndum efnum eins og possólönum var farið að huga að notkun óhefðbundins eldsneytis svo sem úrgangsefna. Hefur þess konar notkun vaxið stöðugt síðan, t.d. brennsla hjólbarða. Í Sementsverksmiðju ríkisins höfðu möguleikar possólaníblöndunar verið fullreyndir á þessum tíma, en athuganir hófust á möguleikanum á brennslu spilliefna.
Þegar verksmiðjan var gerð að hlutafélagi árið 1993 hætti ég störfum sem framkvæmdastjóri hennar en gerði samkomulag við stjórn hins nýja hlutafélags um ráðgjafastarfsemi. Sérstaklega var þar hugsað til umhverfisvænni brennslu sementsgjallsins. Við þetta og fleiri verkefni vann ég til ársins 2003, þegar Sementsveksmiðjan var einkavædd. Úrlausn brennsluverkefnisins reyndist erfiðari en við var búist. Ofn verksmiðjunnar var af úreltri gerð, lokaður votofn, en flestallir ofnar til gjallbrennslu í Evrópu voru þá orðnir hagkvæmari þurrofnar. Aðstoð var helst að fá í Bandaríkjunum, þar sem gamlir votofnar voru enn í notkun og eigendur þeirra að reyna að umbreyta þeim. Í samvinnu við þessa aðila hófumst við handa í Sementsverksmiðjunni en verkefnið reyndist erfiðara en Bandaríkjamennirnir töldu og við eignaskiptin 2003 var þessum tilraunum hætt.
Eitt af stóru verkefnum áranna milli 1970 og 1990 var að halda mengunarvöldum hennar innan marka starfsleyfis. Eins og þeir sem þekkja til reksturs sementsverksmiðja vita, er staðsetning þeirra í næsta nágrenni við íbúðabyggð ekki ákjósanleg. Þessu fundum við sem þarna störfuðum að finna fyrir. Sementsverksmiðjan var í upphafi þokkalega búin hreinsitækjum miðað við þáverandi kröfur. En kröfurnar jukust hratt á þessum árum og óánægjan með þá mengun sem kom frá verksmiðjunni líka. Mengunin, hvort það var sandur, gjall- eða sementsryk, kom illa við nágrannana, sem voru í allt of mikilli nálægð við verksmiðjuna. Innan verksmiðjunanr var sömu sögu að segja um aðbúnað starfsfólks, ryk og hávaða. Mikill léttir var að því, þegar reist var stjórnstöð árið 1989, þar sem hægt var að fjarstýra stærstu framleiðslutækjunum.
Nokkur viðamikil rannsóknaverkefni sem Sementsverksmiðjan tók þátt í á þessum árum skiluðu ekki árangri. Eitt þeirra var vinnsla og útflutningur á perlusteini úr Prestahnjúk. Það verkefni var unnið í samvinnu við vinnuhóp á vegum Iðnaðarráðuneytisins sem átti að finna nýtingarmöguleika á íslenskum gosefnum. Var reist tilraunaverksmiðja í Sementsverksmiðjunni til þess að þenja perlusteininn. Eftir miklar rannsóknir á vinnslu perlusteinsins og á hagkvæmni við útflutning hans kom í ljós að víst var hægt að framleiða góðan, þaninn perlustein, en samkeppnisstaðan gagnvart perlusteini frá Grikklandi var óhagstæð. Var því þessari tilraun hætt.
Annað rannsóknaverkefni varð til við athugun á nýju eldsneyti í stað olíunnar um 1980. Hugmyndin var að kanna hvort hægt væri að brenna sementsgjallið með rafmagni í ljósbogaofni, líkum þeim sem notaður er við framleiðslu á kísiljárni á Grundartanga. Rannsóknin var unnin fyrir Gosefnanefnd í samvinnu við framleiðslufyrirtæki Sementsverksmiðjunnar í Danmörku, F.L.Schmith, og Iðntæknistofnun Íslands og tilraunaofn settur upp þar. Tilraunin tókst, framleiddir voru nokkrir tugir kílóa af alkalífríu sementsgjalli með góðum styrk við mjög hátt hitastig.
Hagkvæmniútreikningar sýndu aftur á móti, að framleiðslukostnaður slíks gjalls yrði allt of hár til að keppa við hefðbundnar aðferðir. Var þá ekki um annað að gera en setja upp kolabrennslu til þess að lækka framleiðslukostnaðinn.
Eitt stærsta rannsókna- og þróunarverkefni Sementsverksmiðjunnar var stofnun sérstaks þróunarfyrirtækis í samvinnu við Íslenska járnblendifélagið. Þetta fyrirtæki hlaut nafnið „Sérsteypan s.f“. Hóf það starfsemi árið 1985 í iðnaðarhúsi við Kalmansbraut 3 á Akranesi. Grundvöllur þessarar samvinnu voru nýsköpunarhugmyndir um nýtingu kísilryksins frá Járnblendiverksmiðjunni í óhefðbundna steinsteypu með nýja nýtingamöguleika, sem komið höfðu fram við rannsóknir á kísilrykssementinu. Starfaði þetta fyrirtæki í níu ár. Voru tekin fyrir allmörg stór verkefni, sem sum náðu fram að ganga með góðum árangri. Þekktast þeirra er sennilega framleiðsla á tilbúnum viðgerðarefnum fyrir steinsteypu og á tilbúnum múrblöndum. Þá voru flutt inn fullkomin flutningstæki fyrir múrblöndur í lausu og innleidd ný tækni við múrverk. Þetta stóra verkefni var unnið í samvinnu við fyrirtækið Sand hf. í Reykjavík, stærsta framleiðanda múrsands á höfuðborgarsvæðinu. Einnig var tekið fyrir verkefni, sem lengi hafði verið í umræðunni út af of hröðum rakaflutningi í steyptum útveggjum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Höfðu ýmsir verkfræðingar lagt til aðra útfærslu á steypta útveggnum, þ.e. vegg með einangrunina að utan en ekki að innan eins og hefðbundið var. Í samvinnu við Verkfræðistofuna Línuhönnun var þarna unnin verkfræðileg endurhönnun á steypta veggnum og fékk verkefnið nafnið „Íslenska múrkerfið“. Þróun á þessu verkefni leiddi af sér nýtt framleiðslu- og sölufyrirtæki í samvinnu við Sand hf. og Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki undir nafninu Íslenskar múrvörur, skammstafað Ímúr. Hlutur Sementsverksmiðjunnar í því var svo seldur við einkavæðinguna 2003. Lauk þar með ferli mestu þróunarvinnu í nýsköpun á múrverki hér á landi. Hún varð þess valdandi að teknar voru upp nútímalegar vinnuaðferðir í múrverki, og kom auk þess lengi vel í veg þörf á innflutningi viðgerða- og múrblandna erlendis frá.
Annað stórt verkefni Sérsteypunnar var framleiðsla á sementsrýrri steinsteypu til notkunar í sértæk verkefni svo sem vegagerð, virkjanastíflur o.þ.h. Þessi steinsteypa er nefnd „þjöppuð þurrsteypa“, þ.e. mjög þurr steypa, sem lögð er niður með þungum vegagerðarvölturum. Þessi steypugerð hefur ekki náð mikilli fótfestu hér, aðalframkvæmdin þar sem hún var notuð er tástíflan í Kárahnjúkavirkjun, en einnig var hún notuð í iðnaðargólf og vinnusvæði þar sem þungum vélum er beitt. Eitt af því sem kom út úr þessu verkefni hefur síðar rutt sér rúms, en það er svonefnd sementsfesta, þar sem undirbygging vega er styrkt með sementi sem bindiefni.
Þriðja stórverkefni Sérsteypunnar voru tilraunir með notkun plasttrefja í steypu, til að auka beygjutogþol hennar. Voru margs konar tilbúnar steypuvörur hannaðar, t.d. léttar einingar fyrir flotbryggjur, þunnar klæðningsplötur fyrir byggingar, gólfflísar og trefjastyrktar steypueiningar. Tókst að framleiða mjög þunnar en þó níðsterkar klæðningsplötur.
En stærsta þróunarverkið, sem Sementsverksmiðjan tók þátt í var þó gerð jarðganga undir Hvalfjörð. Hugmyndin að því kviknaði fyrst í samtölum tækni- og viðskiptasérfræðinga Sementsverksmiðjunnar og Járnblendiverksmiðjunnar um miðjan níunda áratuginn. Hagur beggja fyrirtækja af því að losna við veginn fyrir Hvalfjörð var augljós; Sementsverksmiðjan flutti allt sement á höfuðborgarsvæðið með skipi til Reykjavíkur í dreifingarstöð þar, og fjöldi starfsmanna Járnblendiversmiðjunnar bjó hinu megin fjarðarins. Eftir að hafa kynnt frumskoðun á gerð jarðganganna, sem verksmiðjurnar framkvæmdu, gaf stjórn verksmiðjunnar grænt ljós á áframhaldandi vinnslu verkefnisins á fundi 27.október 1988. Eftir það fór málið í kynningu viðkomandi opinberra aðila og endaði síðan með stofnun fyrirtækisins Spalar ehf.. Var Sementsverksmiðjan einn af aðalstofnhluthöfum Spalar.
Framangreindir minnispunktar höfundar þessarar greinar eru mest tengdir lýsingu á tæknilegum hugmyndum og verkefnum er unnin voru á vegum Sementsverksmiðju ríkisins frá 1972 til aldamóta. Margt fleira hefði verið áhugavert að rekja, svo sem almennan rekstur fyrirtækisins, tæknilegan sem viðskiptalegan, kynni af starfsfólki sem flest varð um 180 manns um 1980 og stjórnun verksmiðjunnar. Fyrir það var ekki rúm í þessari blaðagrein. Fyrir þá sem áhuga hefðu á vita meira um verksmiðjuna má benda á bókina, Sementsiðnaður á Íslandi í 50 ár, sem ég ritaði 2008 og gefin var út á vegum Verkfræðingafélags Íslands. Svo er skjalasafn Sementsverksmiðjunnar geymt hjá Þjóðskjalasafni Íslands.
Þá eru margs konar upplýsingar um verksmiðjuna á vefsíðu minni: Hér og hér.