Í hvert skipti sem ég hef fengið útborgað síðastliðna fjóra mánuði eða svo hef ég farið alveg þónokkrar ferðir í Kringluna og í Smáralind til að skoða tösku fyrir ræktina. Þið vitið svona sérstaka ræktartösku með vösum fyrir allt dótið sem þarf í ræktina, fyrir brúsann, teygjurnar og próteindúnkana. Allar nauðsynjarnar. Ástæðan? Mér er farið að finnast mín gamla Nike taska ljót. Hún er ljót af því að hún er æpandi bleik og þó hlýtur mér hafi fundist hún flott á sínum tíma þegar ég keypti hana, kannski var hún í tísku þá ég bara hreinlega man það ekki. Ég hef verið að reyna að sannfæra sjálfa mig um að ég eigi nú skilið nýja ræktartösku. Ég er búin að eiga þessa ljótu bleiku mjög lengi, líklegast um fimm ár, svo það er góð nýting er það ekki? Og ný taska yrði svo mikil hvatning til að fara oftar í ræktina og verða hraustari og betri manneskja. Það er nú ekkert að því að vilja vera hraust á sál og líkama. Í hvert skipti sem ég hef farið í þessa leiðangra mína þá hef ég byrjað að telja upp þessar og margar aðrar ástæður til kaupa. Ég myndi auðvitað velja mér svarta og klassíska, einhverja sem myndi ekki fara úr tísku á korteri. Tösku sem ég gæti sko klárlega átt í alveg tíu ár eða meira. Hún yrði aldurslaus og fullkomin, svona gáfuleg kaup.
Afhverju er ég að segja ykkur þessa sögu og afhverju hef ég ekki bara keypt fjárans töskuna ? Það er einfaldlega vegna þess að mig í raun vantar þessa tösku ekki neitt.
Ég hef verið að hugsa mikið um neyslu og kauphegðun einstaklinga í nútíma samfélagi. Hvernig við kaupum endalaust án þess að spá nokkuð í hvaðan varan kemur, hvert hún fer eftir að við verðum leið á henni, hvernig hún mun nýtast okkur og hversu lengi. Ég á líklegast ófá tískuslysin grafin í jörð. Skyrtur með göddum sem ég notaði í tvö ár og henti svo í Rauða Krossinn. Strigaskó af útsölumörkuðum og flíkur í nýjasta neon - tískulitnum. Já það friðaði samvisku mína að ég setti alltaf allt í endurvinnslu. Í raun mun líklegast helmingurinn af því sem ég ein hendi frá mér af fatnaði og fylgihlutum enda í stórri hrúgu í landfyllingu á endanum. Ég fékk sumsé bullandi samviskubit og hef ekki getað keypt mér ræktartösku vegna þess. Ég get samt sagt mér að ég fer nú stundum og kaupi mér notað og Vintage og þess vegna sé ég ekki jafn slæm og aðrir. En er það svo? Og afhverju í ósköpunum er til eitthvað sem heitir sérstök ræktartaska?
Ég, eins og líklegast ótal aðrir, er mjög ginnkeypt fyrir alls konar vitleysu sem er auglýst til mín á óbeinan eða beinan hátt. Það er auðvelt að plata mig. Ég dett á hvert æðið á fætur öðru. Fór til dæmis út í búð um daginn og keypti mér endalaust af selleríi til að búa til djúsa. Ég var bara að vakna upp úr mókinu núna áðan og átta mig á því að ég veit eiginlega ekki neitt hvað þessi sellerídjús-drykkja á að gera fyrir heilsu mína. Sama má segja um önnur fegrunarráð í krukkum, ég á ófáar krukkur. Ég dett í einhverskonar dá í hvert skipti sem ég fæ útborgað því þessu skal sko eyða enda vann ég hörðum höndum á hverjum virkum degi frá 9 - 5 til að fá þessa útborgun og ég á skilið að líða vel og vera fín alveg eins og hinir. Þessi fullvissa og öll þessi áhrif sem segja mér að það sé töff að kaupa og kaupa og kaupa þangað til maður er orðinn betri en hinir gerir það að verkum að ég tek kannski ekki mjög skynsamlegar ákvarðanir. Í raun á þetta ekki að snúast um einstaklingshyggjuna. Við höfum séð það núna að kaup mín og kaup ykkar hinna, hafa slæm áhrif fyrir okkur öll. Það er auðvelt að kaupa og svo henda, pæla ekkert meira í því. En við getum ekki leyft okkur að vera svona blind lengur, sífellt benda á næsta mann og segja “já nei ef ég kaupi ekki þá kaupir hann það bara”.
Núna er fermingartíðin að hefjast og allar auglýsingar beinast að því hvernig þú ætlar að hafa veisluna. Allt snýst um að toppa sig og toppa aðra. Ég man þegar ég sjálf var á fermingaraldri og farin að verða heimtufrek á það hvaða flíkur yrðu keyptar á mig. Ég grátbað mömmu um að kaupa fyrir mig Adidas skó áður en ég byrjaði í áttunda bekk því annars yrði ég útskúfuð af jafnöldrum mínum. Þá var það þekkt dæmi í mínu hverfi að þeir sem voru ekki í nýjustu merkjavörunni voru kölluð ‘’Hagkaups-börnin’’. Það þótti hallærislegt að vera ekki vel efnaður. Börnin sjúga upp þekkingu og hegðun út frá umhverfi sínu. Ég sem betur fer átti góða frænku sem arfleiddi mig að öllum töff dýru flíkunum sínum eftir að hún hætti að nota þær og endurnýtti fyrir einhverja nýja tískuna. Kröfurnar þá enn meiri í hennar skóla. Þessi hópþrýstingur samfélagsins á neysluhyggju er rótgróin og gömul saga. Hinsvegar var fermingin mín frekar látlaus og ég þakka fyrir það á hverjum degi að ég valdi sjálf að vera í gömlum kjól af móður minni frekar en í einhverri tískubylgjunni sem var stýrt að manni á þeim tíma. Vinkonum mínum hryllir enn við eigin fermingarmyndum, þær íklæddar svokölluðum ‘’ermum’’ og hvítum krumpustígvélum. Fermingar í dag eru auðvitað bara í takt við allt annað, það þarf allt að vera stórt og íburðarmikið og miklu flottara og betra en hjá Jóa nágranna. Ertu bara með kúlukökur á plastpriki? Hvað með fötin? Kosta þau ekki örugglega meira en meðalmánaðarlaun. Einnota og einstök, brakandi og gljáandi nýkeypt. Þú þarft meira annars ertu minni maður, er það ekki? Nammibar, myndabás, ísbar, uppblásnar blöðrur, gervineglur og brúnkusprautun. Dót í bland við meira dót. Ekkert nýdæmi auðvitað að fermingar séu hættar að snúast um trú eða vissan áfanga og farnar að vera einungis sýndarmennska á ríkidæmi og upphafning á hlutum og peningum. Eins og ég segi, ég þakka enn fyrir að hafa verið í gamla klassíska kjólnum af móður minni. Þegar á endann er komið eru það einmitt svoleiðis hlutir sem skilja eitthvað raunverulegt gildi eftir. Tíska, sýndarmennska, magn af hlutum og merkjavörum eru flöktandi hlutir sem eru síbreytilegir og gerðir til þess að veita aldrei fullkomna ánægju.
Ég áttaði mig síðan á því að ég á líklegast þrjár eða fjórar töskur heima sem gætu líklegast tekið að sér þetta hlutverk. Ég gæti jafnvel skipt þeim út til að vera í stíl við fötin sem ég er í hverju sinni. Sem virðist einmitt vera það sem okkur er talið trú um að skipti máli. Markaðurinn þrífst á því að okkur líði stöðugt eins og við eigum ekki nóg og séum þar af leiðandi sjálf ekki nóg. Umhverfið og loftslagið hinsvegar þola þetta ekki. Veislan þarf að taka áherslubreytingum. Þá á ég við þessa neysluveislu sem við erum búin að fá að lifa við í nokkuð langan tíma. Það þarf að fara verða töff að eiga minna og að vera meðvitaður. Við getum ekki stanslaust falið okkur á bak við þá limru að allt annað en við sjálf þurfi að taka breytingum, á sama tíma og við kaupum af Asos í fjórða skiptið í mánuðinum. Tvær af þeim sendingum innihéldu flíkur sem pössuðu síðan ekki á okkur. Samviskubitið er í rauninni okkur hollt og kannski eigum við það bara vel skilið.
Við verðum einnig að átta okkur á því og muna að kauphegðun og gerviþörf okkar er ekki eitthvað sem hægt er að setja á eina kynslóð, á einn aldurshóp eða á ákveðnar týpur. Þetta er í raun kerfisbundið vandamál sem gegnsýrir alla okkar tilveru. Við erum öll sek en við lærum að hlutir hafi visst merkingargildi. Erfitt getur verið að komast út úr eða umturna þeim heimi sem við þekkjum. Við eigum að vera fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir í stað þess að smána og lítillækka hvort annað ef við erum ekki algjörlega fullkomin í átt að breytingum. Við erum öll mannleg og breysk en akkúrat núna, því miður, felst það í mannleikanum að vera neysluvera. Við höfum í raun svo gríðarleg áhrif á hvort annað og við ættum öll að reyna að miða að því takmarki á hverjum degi að nota þau áhrif til góða. Vonandi getum við breytt þessu mynstri en það tekur að sjálfsögðu tíma og vilja allra í samfélaginu.