Umræðan um stöðu karlmanna í nútímasamfélagi hefur aukist undanfarið. Sú umræða er þó á viðkvæmu stigi og virðist oft afvegaleiðast inn í deilur um einstaka álitsgjafa og pólitík eins og oft vill verða.
Þá er mikilvægt að skoða aðalatriðin. Erlendar rannsóknir benda eindregið í þá átt að karlar sæki síður til sálfræðinga og geðlækna vegna tilfinningavanda eða geðraskana en konur. Þeir virðast einnig tregari til að sækja til læknis almennt. Þetta virðist þó ekki einungis vera bundið við heimsóknir karla til sérfræðinga heldur eru þeir einnig talsvert ólíklegri til að ræða tilfinningavanda sinn við vini og vandamenn en konur.
Þeim sem líður verst eru síst líklegir til að sækja sér hjálp sem kemur því miður fram því í að karlar eru 3-4 sinnum líklegri til að falla fyrir eigin hendi en konur. Karlar leita sér einfaldlega síður hjálpar. Ég hef starfað sem sálfræðingur á stofu og í fjarviðtölum í að nálgast áratug. Á þeim tíma hef ég hitt rúmlega þúsund skjólstæðinga og mundi ég áætla að um 35% þeirra væru karlar, sem samræmist öðrum tölum sem ég hef lesið erlendis frá. Aukið jafnvægi í þessu væri allra hagur.
Karlmenn lifa í nýjum og breyttum heimi
Samfélagslegar breytingar hafa verið ótrúlegar á síðustu áratugum og ekki sér fyrir endann á þeim. Hlutverk kynjanna hafa breyst samhliða. Allt er á hreyfingu. Það sem var í gær er líklega orðið úrelt á morgun. Allar breytingar, hversu jákvæðar sem þær kunna síðar að reynast valda óvissu hjá fólki. Óvissu fylgir óöryggi. Þessar áskoranir í breyttum heimi kalla því á ný viðbrögð af okkar hálfu. Þar held ég að tilfinningaþroski og skilningur á eigin hegðun og annarra muni skipta lykilmáli.
Hlutverk karla hafa áður snúið að verkefnum sem byggja á líkamsstyrk eins og veiðum eða vörnum fyrir utanaðkomandi hættu á meðan konur hafa frekar sinnt verkefnum þar sem samskipti og umönnun eru í fyrirrúmi. Það er því eðlilegt að konur eigi að öllu jöfnu auðveldara með að tjá tilfinningar sínar og eiga í samskiptum í dag. Það er hætt við að þeir sem eiga erfiðar með samskipti í nútímasamfélagi muni dragast aftur úr samhliða þessum breytingum og þar eru karlar viðkvæmari en konur.
Karlar og konur hafa sömu tilfinningar og hafa sömu getuna til að finna þær innra með sér. Karlar tala hins vegar síður um það við aðra hvað bærist þeim í brjósti. Þetta kannast ég við úr eigin starfi þar sem karlar eru oft mun knappari í lýsingum á líðan sinni en konur auk þess sem þeir eru mun líklegri til að koma í viðtöl af áeggjan konu sinnar en öfugt. Nú gæti einhver sagt að karlar geti sjálfum sér um kennt. Þeir séu bara svo bældir og þeir þurfi bara að taka sig á til að læra að tala eins og menn til að geta tekið þátt í umræðunni. En munum þá hversu risavaxinn líffræðileg og félagsleg öfl eru að verki og ekki létt verk að reyna að hnika þeim til. Ef að karlar finna sér ekki sína eigin rödd í þessu ferli og læra á sínum eigin forsendum að tala sínu máli er hætt við að margir verði ósáttir og fyllist ótta og vanlíðan. Sem hefur slæmar afleiðingar fyrir alla.
Getur þú hjálpað mér?
Það er því gríðarlega mikilvægt að karlar og drengir nái öflugari tökum á þessu flókna tjáningarformi – að tjá tilfinningar sínar. Til þess að geta það þurfum við að æfa okkur. Af krafti og einlægni. Þá er nauðsynlegt að tala við fólk í kring um sig eða leita til fagmanna. Við þurfum að átta okkur á að þetta er oft sársaukafullt ferli því við erum að brjóta upp gömul hegðunarmynstur. Hin nýja birtingarmynd karlmennskunnar er að geta tjáð sig opið og óhikað í eigin persónu og það er ólíklegt að rétti vetvangurinn til þess séu samfélagsmiðlar til að byrja með. Við þurfum að gera það með öðrum formerkjum en hingað til.
Ef að maður hefur áður beitt bolabrögðum og stjórn gagnvart umhverfinu þarf hann að finna sársaukann sinn og segja frá honum:
Stundum verð ég svo hrikalega hræddur án þess að vita hvað er að og þá verð ég reiður í staðinn
Ef að maður hefur vanist að gefa eftir og sýna undirgefni þarf hann að fara að setja mörk og tjá sig af festu um hvað það er sem hann vill:
Mér líður ekki vel þegar þú talar svona við mig og vil að þú hættir því.
Maður sem hefur ávallt verið sjálfstæður og fjarlægur vegna þess að hann treystir ekki mundi mögulega þurfa að horfast í augu við:
Ég hef alltaf óttast að vera hafnað og hef því valið að vera einn
Sumir sem breyta engu af ótta við mistök þótt þeir eigi sér drauma um breytt líf gætu sagt:
Mig hefur lengi dreymt um þetta en ekki treyst mér að sækjast eftir því. Getur þú hjálpað mér?
Þetta er óvissuför og tilfinningar okkar virðast oft fjarlægari en sjálfur himingeimurinn. Við erum varir um okkur og stígum varlega til jarðar. Stundum verðum við klaufalegir eða skellum aftur í lás ef að okkur finnst tilraunum okkar ekki nógu vel tekið. Munum þó að öll slík vinna er óendanlega spennandi og gefandi og aldrei að vita hvert hún leiðir okkur.
Þessi vilji til breytinga er á ábyrgð hvers og eins en því opnara sem samfélagið, konur og karlar, eru fyrir slíkri vinnu því betur mun þetta ganga. Það er nauðsynlegt að allir fái tækifæri til að tala og tjá sig um það sem liggur þeim á hjarta. Við öðlumst ekki styrk án viðnáms og þroskumst ekki í einrúmi.
Höfundur er sálfræðingur.