Lenging fæðingarorlofs er í senn risastórt hagsmunamál barna og foreldra en ekki síður mikilvæg aðgerð fyrir samfélagið allt. Það er mikilvægt fyrir þroska barnsins að fá tækifæri til að njóta fyrsta árs ævi sinnar fyrst og fremst í faðmi foreldra sinna. Á sama tíma er mikilvægt fyrir báða foreldra að geta notið þessa mikilvæga tíma án þess að það skerði tækifæri þeirra á vinnumarkaði. Ísland var leiðandi í fæðingarorlofsmálum, sérstaklega þegar kemur að því að báðir foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs. Sá þáttur er ekki síður risastór aðgerð til að jafna tækifæri og kjör kynjanna. Mikill árangur náðist þegar nýja löggjöfin var tekin upp og feður fóru í auknum mæli að taka fæðingarorlof. Það fór að vera eðlilegt að feður væru í orlofi og gengju um með barnavagna, færu með börnin til læknis og sinntu öllum þörfum þeirra. Þörfum sem á árum áður var yfirleitt sinnt af mæðrum. Í kjölfar hrunsins var dregið úr fjármagni út úr sjóðnum með því að lækka verulega hámarksgreiðslur sem greiddar voru út. Sú aðgerð dró verulega úr því að feður tækju fæðingarorlof, vegna þess að því miður er það enn svo að karlmenn hafa oftar hærri laun en konur. Áherslur stjórnvalda á síðustu árum hafa verið að hækka hámarksgreiðslur aftur og á árinu 2018 var hámarkið komið í 600.000 kr. á mánuði, en nú er komið að því að lengja orlofið úr 9 mánuðum í 12 mánuði.
Markmið er að bjóða upp á kerfi sem hvetur og tryggir báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi, þangað til barninu býðst dagvistun. Án þess að það hafi í för með sér verulega röskun hvað varðar þátttöku hvors foreldris um sig á vinnumarkaði. Á sama tíma er mikilvægt að sveitarfélögin tryggi dagvistun þegar fæðingarorlofinu sleppir. Flest sveitarfélög hafa það á sinni stefnuskrá og sum eru að sinna því vel, önnur þurfa að taka sig á til að tryggja þá mikilvægu þjónustu.
Lækkandi fæðingartíðni, öldrun þjóðarinnar
Fæðingartíðni hefur lækkað verulega á síðustu áratugum þó Ísland skeri sig enn úr með hærri tíðni en víða á Vesturlöndum. Árið 2016 átti hver kona að meðaltali 1,75 börn sem er það minnsta sem mælst hefur frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2017 lækkaði talan enn frekar og var þá 1,71 barn á hverja konu. Almennt er miðað við að hver kona þurfi að eignast 2,1 barn að meðaltali til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Það er því ljóst að við þurfum, til að viðhalda mannfjöldanum, að bjóða fleira fólk velkomið í okkar samfélag og líklega verður enginn hörgull á fólki sem vill flytja til okkar á okkar fallegu og friðsamlegu eyju.
Þjóðin eldist hratt eins og víðast hvar í vestrænum heimi. Bæði er það vegna lægri fæðingartíðni en líka vegna þess að við lifum lengur. Með öldrun þjóðarinnar fækkar vinnandi höndum á hvern ellilífeyrisþega. Árið 2018 voru 4,7 einstaklingar á vinnualdri fyrir hvern einstakling 65 ára eða eldri. Árið 2050 verða þessi tala komin niður í 2,7 samkvæmt mannfjöldaspám. Allar aðgerðir okkar þurfa að miða að því að bregðast við þessari breyttu samfélagsmynd og hafa vissulega verið að gera það m.a. með öflugri uppbyggingu lífeyrissjóðskerfisins, áherslu á heilbrigðis- og velferðarmál en ekki síður með áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. En það er líka mikilvægt að hvetja frekar en letja til barneigna. Við eigum að halda áfram að byggja fjölskylduvænt og gott samfélag þar sem einstaklingar fá jöfn tækifæri á vinnumarkaði og geta samræmt skyldur sínar þar við skyldur og langanir til að njóta samvista með fjölskyldu sinni.