Það er undarlegt að lesa í blöðum að það sé álitið að konur séu ekki eins frjósamar í dag og stjórnvöld telja sig vilja og þjóðfélagið að þurfa. En það er ekki talað þá staðreynd að það er mikil vinna að sinna börnum rétt frá blautu barnsbeini, og að í dag þurfi báðir foreldrar að hafa fulla vinnu til að geta borgað reikninga, lifað og séð um lána greiðslur frá íbúðarkaupum. Svo enda sambönd og annað foreldri endar uppi með að sinna börnunum eitt nema þegar og ef hitt foreldrið er samvinnuþýtt og þykir nógu vænt um börnin og vill vera foreldri áfram. Það að borga meðlag nærir börnin ekki tilfinningalega.
Nú eru kynslóðirnar sem komu á eftir okkur sem fæddumst um miðju síðustu öld og sem upplifðum komu pillunnar sem var mikil bylting, leið til að geta stýrt sínu lífi sem samt var ekki veitt á þeim árum fyrr en við höfðum orðið að koma með alla vega eitt barn sem tillegg til samfélagsins áður en við fengum lyfseðil upp á pilluna.
Það sá ég sem mjög slæma ráðstöfun því að það er óréttlátt gagnvart blessuðum börnunum sem ekki allar konur voru í raun tilbúnar fyrir að sjá um. Það kostar að fæða og klæða börn, en það að fæða og klæða er ekki allt sem börn þurfa, og það þarf að hafa tíma og mikinn áhuga fyrir því að læra almennilega hver einstaklingurinn er sem hefur fæðst í heiminn. Og foreldrar sem vinna 40 tíma vinnuviku eiga ekki það mikinn tíma til slíks og þá upplifa börn sig vanrækt.
Það kostar að sjá um að þau geti sinnt áhugamálum sínum. Það kostar að þurfa að fá stærri bíl til að koma fleiri en þrem börnum fyrir í bíl. Það kostar að kaupa húsgögn handa þeim. Það kostar að mennta þau. Og ef þau hafa fötlun af einhverju tagi kostar það enn meira. Og í dag gæti ég ekki séð um mig og tvö börn sem einstæð móðir á Íslandi með þau laun sem ég fékk í bankanum. Dýrtíðin er meiri og öll hlutföll önnur um lífið á Íslandi önnur en þegar ég bjó þar fyrir rúmum þrjátíu árum. Samfélög heimsins eru líka alltaf að breytast og möguleikar til að gera áhugaverða hluti fyrir líf sitt, fyrir heilabúið og það sem fólk upplifir sem tilgang sinn í lífinu. Og það er ekki alltaf um foreldrahlutverkið. Svo er ekki mikið af kennslu í boði um hvernig eigi að vera rétt foreldri.
Sannleikur vandamála við foreldrun er að koma æ meira í ljós eftir að einstaklingar hafa komið út með lífsreynslu sína af foreldrum og öðrum og upplifað misnotkun.
Á meðan að dýrtíð samfélaga er eins og hún er víða í heiminum, og ekki nærri nógur skilningur á þörf barna fyrir alvöru tjáskipti við foreldra sína og mun meiri tíma með þeim en mögulegt er þegar báðir eða eitt foreldri vinnur allan daginn. Þá er ekki einu sinni sanngjarnt að ætlast til að fólk sé æst í að fæða ótal börn í heiminn.
Svo að hvað þyrfti að breytast til að fólk fengi köllun til að fæða meira en tvö til þrjú börn í heiminn og geta lifað sómasamlegu lífi og sinnt öllum andlegum og tilfinningalegum þörfum barnanna? Það eru trúlega margar hugmyndir sem væru til um það.
Það þyrfti mun meiri stuðning, hærri laun, og á hinn veginn að vera tilbúinn að hægja ferð efnishyggju samfélagsins. Ég hef ekki öll ráðin um það í mér, en veit og skil að viðhorfin í mörgum konum til þess að fæða börn í heiminn eru frá öðru stigi meðvitundar en var á tímum foreldra minnar kynslóðar, af því að það eru ótal aðrir hlutir í boði til að lifa fyrir. Einstaklingar eru ekki lengur bara fórnarlömb kynhvatar sinnar eins og kynslóðirnar á undan voru.
Ég spurði ömmu mína einu sinni sem var fædd árið 1891 hvernig hún hafði forðast að eignast fleiri börn en þau fimm sem hún og afi fengu inn í líf sitt. Þá sagði hún bara, það eru leiðir. En hún var ekki tilbúin að segja að það þýddi að eiginmaðurinn yrði að taka tillit til óska hennar um að ekki kæmu fleiri börn, sem þýddi að hann yrði að aga sínar þarfir.
Það sagði mér og segir mér sem eldri konu í dag að það voru margir aðrir hlutir sem hún vildi gera við líf sitt en vera endalaust þunguð. Og nú geta ungar konur ráðið þessu og samt haft það kynlíf sem þær vilja.
Öll börn eiga það skilið að vera elskuð fyrirfram, það er að þeir sem standi að því að koma þeim í heiminn virkilega þrái þau og hlakki til að hitta þau þegar þau koma, kynnast og leiðbeina í gegn um æskuna þar til að þau fljúgi úr hreiðrinu. Því miður hafa milljónir barna komið í heiminn um aldir og koma enn í dag án þeirrar þrár foreldra og eiga mörg þeirra mjög erfitt við að upplifa sig óvelkomin.
Kahil Gibran segir í bók sinni „The Prophet“ Spámanninum að við „Eigum ekki börnin“ heldur komi þau í gegn um okkur til að sinna en ekki ætlast til að þau hugsi eins og við en við þurfum að senda þau áfram inn í sitt líf. Ég valdi því að segja ekki „eignast börn“ heldur að fæða börn í heiminn.