Í heitu pottunum er fátt meira rætt þessa dagana en það hvort vorið sé komið. Lóan er komin að kveða burt snjóinn og það í orðsins fyllstu merkingu. Síðasta vika hófst með snjókomu í Reykjavík, sama dag og vorhreingerning borgarinnar átti að hefjast en vikunni lauk svo með dásamlegum sólardögum. Fram undan eru eflaust fleiri dagar þar sem kallast vetur og vor, með tilheyrandi andstæðum. Nú er frítt í strætó á gráum dögum, tilraun sem við erum mjög ánægð með og mun vonandi bera tilætlaðan árangur.
Uppbygging vegna rafbílavæðingar i Reykjavík
Lagt var fyrir borgarráð samkomulag við Orkuveitu Reykjavíkur og Veitur ohf. um uppbyggingu innviða til hleðslu á rafbílum í Reykjavík á næstu þremur árum. Markmiðið er að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla, sérstaklega ætlað þeim sem eiga erfitt með að koma upp slíkum búnaði heima fyrir og starfsfólki Reykjavíkurborgar. Stefna okkar í loftslagsmálum er skýr og við vinnum markvisst gegn svifryki, m.a. með því að leggja áherslu á vistvæna ferðamáta og styðja við orkuskipti í samgöngum. Þessi samningur er einmitt þess eðlis því með því að tryggja innviði fyrir rafbíla auðveldum við íbúum borgarinnar að eiga og reka rafbíla.
Um er að ræða þrenns konar aðgerðir. Settar verða upp 30 hleðslur við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar, ýmist við skóla, stofnanir eða aðra starfsstaði borgarinnar og 60 hleðslum verður komið fyrir víðs vegar á landi borgarinnar. Auk þess verða 120 milljónir settar í sérstakan sjóð til að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði. Gert er ráð fyrir að kostnaður Reykjavíkurborgar vegna samkomulagsins verði 20 miljónir kr. á ári í þrjú ár.
Frumkvæðisskýrsla innri endurskoðunar vegna verklegra framkvæmda og innkaupamála
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar kynnti skýrslu um úttekt á verklegum framkvæmdum og innkaupamálum í vikunni. Úttektin felur annars vegar í sér skoðun á tilteknum verkframkvæmdum og hins vegar á innkaupamálum. Þær verklegu framkvæmdir sem rýndar voru sérstaklega í úttektinni eru framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur, Mathöll á Hlemmi, viðbyggingu við Vesturbæjarskóla og gerð hjólastígs við Grensásveg.
Niðurstaða er að þrjár framkvæmdir fóru ekki yfir kostnaðaráætlun eða eru innan óvissumviðmiða. Ein framkvæmdanna fór umfram þau, það var Mathöllin sem fór 79% fram úr áætlun.
Ég verð að segja að ég fagna þessari skýrslu. Fyrirsagnir ýmissa fjölmiðla gáfu til kynna að skýrslan væri svört og að um framúrkeyrslur væri að ræða en reyndin er önnur. Langflestar framkvæmdir borgarinnar ganga vel og eru í samræmi við áætlanir og innan vikmarka. Þau fáu verkefni sem eru það ekki eiga það m.a. sameiginlegt að farið var af stað í framkvæmdir áður en hönnun lá fyrir og ástand bygginga hafði verið fullkannað.
Slík vinnubrögð eru að sjálfsögðu ekki í lagi og því leggjum við mikla áherslu á að breyta því hvernig nálgast skal framkvæmdir borgarinnar, Það verður að passa vel upp á kostnaðaráætlanir og áætla nægan tíma til undirbúnings. Einmitt þess vegna stöndum við nú í miklum umbótum á stjórnsýslu borgarinnar sem m.a. er ætlað að bæta ákvarðanatöku, auka gegnsæi í framkvæmdum borgarinnar og styrkja innkaupa- og framkvæmdaráð sem mun efla eftirlit með innkaupum, útboðum og framkvæmdum.
En skýrslan veltir því einnig upp hvort önnur sjónarmið liggi að baki vanmetnum kostnaðaráætlunum. Því hvort framkvæmdir sem fara langt yfir áætlanir geti orðið þess valdandi að einhverjir álíti að um ásetning starfsmanna borgarinnar sé að ræða í trausti þess að hægt sé að sækja viðbótarfjárheimildir síðar, þegar of seint er að stöðva framkvæmdir. Ég á erfitt með að trúa að nokkur sem starfar hjá borginni, hvorki kjörnir fulltrúa né starfsfólk, myndi gera slíkt vísvitandi. Hjá Reykjavíkurborg er unnið af heilindum fyrir borgarbúa og slík vinnubrögð og skammtímahugsun myndu ganga þvert á það.
Skýrslu sem þessari er ætlað að rýna vinnubrögð, greina mál og koma með tillögur að því sem betur má fara. Þær ábendingar mun ég svo sannarlega taka með mér inn í þá vinnu sem framundan er.
Þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð flugvallar í Vatnsmýri
Stundum framkalla sakleysisleg mál ágreining og geta jafnvel orðið að eins konar pólitísku hættusvæði. Umsögn borgarlögmanns um þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem lögð var fyrir borgarráð, er dæmi um slíkt. Í þessu máli þurfti borgarráð að taka afstöðu til umsagnar borgarlögmanns og þá kom í ljós þrefaldur klofningur meðal borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðismanna. Umsögnin var samþykkt með 5 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Hildar Björnsdóttur, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, gegn atkvæði Mörtu Guðjónsdóttur, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sat hjá við afgreiðslu málsins. Málið mun fara til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar og þá verður áhugavert að sjá hvað aðrir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks gera.
Þjóðarleikvangur
Mikil umræða hefur verið um aðstöðumál fyrir íþróttir í Laugardalnum og hafa ýmis íþróttasambönd vakið máls á því að huga verði að nýjum þjóðarleikvangi fyrir handbolta, körfubolta og frjálsar íþróttir. Borgarráð hefur þegar líst yfir áhuga á að fara yfir þessi mál en þjóðarleikvangur er ekkert einkamál Reykjavíkurborgar. Því var lagt fyrir borgarráð bréf Reykjavíkurborgar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til ábendinga frjálsíþrótta sambandsins um þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum annars vegar og hins vegar til ábendinga handknattleikssambandsins og Körfuknattleikssambandsins um aðstöðu sérsambanda fyrir innanhússíþróttir og skilgreiningu á þjóðarleikvangi þeirra. Það er ágætt að minna á þetta nú því á miðvikudaginn er einmitt landsleikur í handbolta á milli Íslands og N-Makedóníu. Áfram Ísland!
Þetta og margt fleira var til umfjöllunar í borgarráði s.l. fimmtudag líkt og lesa má í fundargerð borgarráðs á reykjavik.is en ég læt hér við sitja í bili.
Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.