Flestum er mikilvægi menntunar ljóst. Menntun er hornsteinn samfélaga, það er með menntun sem þjóðum tekst að ná tökum eigin velferð, taka sér á hendur ábyrgð á eigin tilveru; menntun er þannig lífsnauðsynleg ef þjóðir vilja hafa eitthvað um það að segja hvernig framtíð þeirra þróast.
Menntun er þó ekki gripin upp úr götunni, hún vex ekki á trjánum og við getum ekki reitt okkur á að menntunin komi með farfuglunum yfir hafið. Við verðum að vinna sjálf að henni og þar gegna kennarar afar mikilvægu hlutverki – svo ekki sé meira sagt!
En hvers vegna ætti ungt fólk að sækjast eftir því að verða kennarar?
Þrjár víddir kennarastarfsins
Sennilega eru svörin við þeirri spurningu jafn mörg og starfandi kennarar en mig langar til að nefna þrjú mikilvæg atriði sem geta skipt máli þegar ákvarðanir eru teknar um framtíðarstarfið.
Það má hugsa um kennarastarfið frá þremur mismunandi sjónarhornum sem hvert um sig getur verið mikilvægt innlegg í ákvarðanir sem tengjast vali á framtíðarstarfinu og þeirri menntun sem skiptir máli í því samhengi.
Drifkrafturinn
Fyrsta ástæðan, og kannski hin augljósasta í hugum margra, er faglega hliðin. Áhugi á tilteknu fagsviði er gjarnan drifkrafturinn hjá þeim sem kjósa að mennta sig til kennslu. Brennandi áhugi á íslensku, eðlisfræði eða myndlist fær fólk oft til að hugsa um fagið út frá sjónarhóli miðlunar, að kenna þessar greinar getur dýpkað skilninginn á þeim og þannig getur lærdómsþráin orðið að drifkrafti fyrir þá sem vilja verða kennarar. Þessi hugsun á sér djúpar heimspekilegar rætur því forvitnin hefur allt frá tímum forn-Grikkja verið aðalsmerki hugsuða og vísindamanna.
Stuðningur við börn og ungmenni
Önnur ástæðan tengist áhuganum á því að vera þátttakandi í því að styðja börn og ungmenni í því að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Kennarar geta þannig veitt nemendum tækifæri til að takast á við dýpri og flóknari spurningar um mannlega tilveru; heimspekilegar spurningar sem snerta vangaveltur um það hvað hið góða líf feli í sér og hvernig manneskjunni sé kleift að haga lífi sínu þannig að til farsældar horfi til lengri tíma. Slíkar spurningar eru siðferðilegs eðlis og endurspegla mikilvægar hugmyndir um mannkostamenntun en því má halda fram að raunveruleg markmið menntunar séu einmitt fólgin í því að leitast við að verða meiri manneskja í anda þess sem Páll Skúlason benti ítrekað á í skrifum sínum um nám og menntun.
Kennarar veki nemendur til umhugsunar
Þriðja ástæðan á rætur sínar að rekja til áhugans á samfélagslegum málefnum og þörfinni til að láta gott af sér leiða. Þar vega þungt mikilvægar spurningar um jafnrétti, mannréttindi, félagslegt réttlæti og lýðræði.
Skólar gegna afar mikilvægu hlutverki við miðlun siðferðilegra gilda en viðhorf kennara skipta miklu máli á þeim vettvangi. Kennarar hafa þannig hlutverki að gegna að vekja nemendur til umhugsunar um jafnrétti kynjanna, mannréttindi, stöðu ólíkra hópa í bæði í nærsamfélaginu og á alþjóðavísu að ógleymdu lýðræðinu sem hornsteins samfélagsins. Lýðræði þarfnast þess að við séum meðvituð um stöðu þess á hverjum tíma og ein áhrifamesta leiðin til þess að viðhalda lifandi lýðræði felst í því að setja umræður um lýðræði á dagskrá í skólastofum landsins.
Ættir þú að verða kennari?
Ef þessar hugmyndir hringja einhverjum bjöllum hjá þér er spurning hvort þú ættir ekki að hugleiða það hvort kennsla eða starf með börnum og ungmennum geti ekki verið farsæll starfsvettvangur fyrir þig.
Höfundur er aðjúnkt og starfandi fagstjóri sjónlista í listkennsludeild, myndlistamaður. Hann er með M.Ed í heimspeki menntunar frá Háskóla Íslands og er í doktorsnámi í menntavísindum. Hann hefur auk þess kennt heimspeki, lífsleikni og myndmennt og verið umsjónarkennari nemenda á unglingastigi í Garðaskóla í Garðabæ í árafjöld.