Á páskum fögnum við sigri lífsins sem er okkur hvergi hugleiknara en einmitt á þeim tímamótum er því er storkað.
Óvissan nagar og við upplifum óttablandnar hugsanir fyrir því ókunna. Þekking okkar er takmörkuð sem kyndir undir örvæntingu okkar og óvissu. Við skynjum að við erum ekki lengur við stjórnvölinn því eitthvert afl okkur æðra nálgast og fjarlægir jafnt og þétt völdin yfir okkar eigin lífi. Við eygjum aðeins eina lausn; vonina um að þetta afl sé afl ljóssins, afl hins góða.
Hugurinn og lífið
Stundum eru himnaríki og helvíti líkt við paradís eða vítisloga og hvoru tveggja eiga sér einhverja stoð. Þessar tvær andstæður lífsins bærast með okkur, hugsunum okkar og gjörðum. Himnaríki eða helvíti er okkar eigin hugur sem endurvarpast í mismunandi blæbrigðum allt okkar líf. Hugarfar okkar má líkja við óskrifað ljóð sem litar áruna mismunandi orku sem veldur hugbreytandi áhrifum í samneyti okkar hvert við annað og lífríkið í heild. Við teljum oft að hugsunin sé okkar prívat veröld sem enginn hafi getu né rétt til að skyggnast inn í en það er af og frá. Í mannheimum á þetta við nokkur rök að styðjast en ekki í heimi andans, hins varanlega lífs og efnis. Hugsunin er endurvarp alls þess sem við verðum áskynja, meðvitað sem og ómeðvitað. Öll þekkjum við hugboð og hughrif sem kristallast í vitund okkar og framkallar jafnvel fullmótaðar hugmyndir, kenningar eða lausn á flóknum viðfangsefnum í dagsins önn. Ljóðskáldum, rithöfundum og listamönnum eru þessi hughrif kunnugleg og ástkær í aðdraganda og vinnslu sköpunar þeirra.
Allir hugsuðir eru þess meðvitaðir að hugmynd á sér samruna og úrvinnslu í heila okkar þó efniviðurinn kunni að berast víða að. Þannig er hugarorka og flutningur hennar sjaldan sýnileg berum augum heldur er okkur fært að nema, móttaka og vinna úr með flóknu gangverki skynfæra og heilastöðva og endurvarpa þannig til hvers annars og umhverfisins.
Það er allrar athygli vert að lesa mannlegt samfélag frá tíma til tímabils og fylgjast með þeim ólíku hugmyndafræðilegu flóðbylgjum sem flestir hafa skoðun á í dag þar til umræðan líður hjá á morgun og bíður þess að næsta flóðbylgja ríði yfir daginn eftir. Hlutverk okkar og þátttaka í flóðbylgju umræðunnar er mikilvæg, mjög mikilvæg, því skoðun okkar myndar skoðun allra, sem framkallar einhverskonar niðurstöðu eða þráð sem sættir, fari svo að meirihluti uni. Í þjóðfélagi sem býr við heilbrigða skoðanamyndun ætti unandi niðurstaða fjöldans í flestum tilvikum, ef ekki öllum, að vera leiðarvísir okkar og þráður sannleikans. E.t.v. eigum við Íslendingar talsvert langt í land með að öðlast skilning á æðri tilgangi þess að komast að niðurstöðu sem fjöldinn unir, en á því er einföld skýring; vald og fégirnd fárra. Allt líf er samofin kerfi gagnvirkra samskipta, sýnilegra, ósýnilegra, meðvitaðra og ómeðvitaðra. Lífríkið er þannig heillandi fyrirbæri og óþrjótandi uppspretta nýtilegrar þekkingar sem við einungis þurfum að sækja til að skapa fallegra og sanngjarnara líf. En til þess þarf viðhorf okkar að vera kærleiksmiðað.
Við búum yfir afkastamikilli hugsanagetu, sem orkar tvímælis á líf okkar. Stundum náum við að friðmælast við umhverfi og lífríki en stundum ekki. Við höfum áttað okkur á að ef ekki á illa að fara í þróun okkar þurfum við margvísleg kerfi og stofnanir okkur til leiðbeiningar og verndar. Við þurfum einnig að vinna ötullega að aukinni nýtingu hugsunar okkar með aðstoð fordómalausra rannsókna sem miða að opnun landamæra hinna mismunandi hugmynda- og aðferðafræði vísindanna. Okkur ber að mynda skapandi hugsanavettvang þver-þekkingarlegra-fræða, raunvísinda, hugvísinda, lista, trúar og anda.
Eitt fordæmi af mörgum um þver-þekkingarlegan vettvang er t.d. „Hub“ sem sett var á stofn af John Hopkins University fyrir u.þ.b. fimm árum síðan. En tilgangur þessarar stofnunar er að leita samruna og margfeldisáhrifa hinna ýmsu ólíku sérfræðinga til að þróa aðferðafræði sem stuðlar að framför og nýjum uppgötvunum.
Hugmyndir þurfa andlegt og þekkingarlegt rými til að öðlast verðugt líf. Við þurfum að losa um hólfaskiptingu menntakerfisins til að hleypa inn nýju súrefni sem brýtur viðjar vanans og hafa samfara því kjark og dirfsku til að sækja þekkingu á æðri mið.
T.a.m. gerði Svissneskur banki sér grein fyrir því að hann væri allskostar óhæfur til að raunmeta verðmæti ákveðins lyfjafyrirtækis þar í landi án þess að ráða til sín þverfaglegt teymi eðlisfræðinga, lyfjafræðinga, líffræðinga, hagfræðinga, stærðfræðinga, náttúrufræðinga, lækna, hjúkrunarfræðinga, meinatækna, verkfræðinga, hómópata og fjárfesta. Þekking, viðhorf og skoðanaskipti hópsins myndaði niðurstöðu sem sætti heildina og reyndist talsvert frábrugðin þeim hugmyndum sem takmarkaðri þekkingargrunnur færri fjármálasérfræðinga komst áður að.
Með þverfaglegu þekkingarteymi helstu vísindamanna eigum við að búa svo að ylrækt, að hægt sé að framleiða undir glerþaki allt grænmeti og ávexti til eigin neyslu og útflutnings. Við eigum að búa svo að líftækni að hægt sé að byggja upp öfluga starfsemi. Nú er t.a.m. komin CLED ljósgjafar sem leysa af LED með 50% minni notkun orku. Ljósapera sem notar 5w varpar frá sér 100w án þess að hitna. Við höfum græna raforku til umhverfisvænnar framleiðslu sem skapar okkur algjöra sérstöðu meðal þjóða heims. Ísland er eyja mikilla vinda og er sú auðlind vannýtt en hana er mikilvægt að nýta með eigin hugviti nýrra tækni vindraforkustöðva sem hvorki veldur hávaða né merkjanlegri sjónmengun. Við höfum þekkingu til að hanna og framleiða þessar vindrafstöðvar hérlendis til eigin vind-raforkuframleiðslu. Við eigum að leggja metnað í að keyra allan skipa og bifreiðaflota okkar á grænum orkugjöfum. Framtíðar draumar raforkuútflutnings um sæstreng eru á sama þróunarstigi og útflutningur óunnins sjávarfangs. Raforkan er að vísu fullunnin afurð virkjanna okkar en einungis hráefni til hátækniframleiðslu, iðnaðar og aukinnar verðmætasköpunar. Við eigum að reka fullkomnari raforkudrifnar almenningssamgöngur sem reknar eru fyrir sameiginlega sjóði og verða því ávalt fullnýttar, gjaldeyrissparandi og umhverfisverndandi. Okkur ber að nýta getu okkar sem þjóð til að hugsa og taka metnaðarfull skref til framþróunar okkar þjóðfélags. Til að það megi gerast verður sanngirni og hagur allra að vera að leiðarljósi.
Sú niðurstaða sem myndast við samruna mismunandi sérþekkingu margra ólíkt hugsandi aðila skilar jákvæðum margfeldisáhrifum þess sem annars mætti vænta. Í þessu samhengi má nefna þann mikla þekkingarfjársjóð sem þjóð okkar býr yfir en fær ekki notið sökum valdbjögunar lýðræðisins. Það er brýnt fyrir framþróun efnahags okkar, lífríkis og samfélags að endurskoðuð stjórnarskrá öðlist gildi. Stjórnarskrá sem eykur valddreifingu og skilar ríkari þekkingu fjöldans til stuðnings ákvörðunum sem varðar Íslendinga alla. Þetta er hinn eiginlegi kjarni lýðræðisins. Við óbreytta stjórnarskrá eru fáir misvitrir stjórnmálamenn að taka, oft á tíðum sérhagsmunatengdar ákvarðanir, en á sama tíma að útiloka þann þekkingarauð sem þjóðin býr yfir. Það skilur hver hugsandi sál að engin rök duga gegn margfeldis áhrifum hugarafls fjöldans gegn þröngri sýn fámenns hóps manna lituðum sérhagsmunatengslum. Sú endurskoðaða stjórnarskrá sem fjöldinn vill, kaus sér og unir, þarf að öðlast gildi.
Í veruleika jarðvistarlífsins styðjumst við mennirnir við lög, reglur og venjur sem við höfum samið og úthlutað hvort öðru í viðleitni til að siðvæða samfélag okkar. Við höfum sett okkur þessar reglur við aðstæður sem við sjálf rákum okkur á að þyrfti til að friður megi ríkja meðal okkar. Við notum þessar reglur sem viðmið til aðgreiningar á réttu og röngu og hegnum hvort öðru að viðlögðum brotum okkar eigin laga og reglna. Til marks um þróun okkar verða hegningar æ mannúðlegri. Okkur hefur lærst að kærleikur nærir kærleik og að orsök flestra afbrota á rætur sínar í ranglæti gagnvart hinum seka á einhverju tímabili ævi hans. Við horfum því meir til skilnings og betrunar meðan á frelsissviptingu stendur, en harðrar refsingar. Við höfum stofnanir s.s. lögreglu, dómstóla og fullnustu-yfirvald refsinga. Stofnanir þessar eiga að gæta hlutleysis en fylgja laganna ramma. Í stuttu máli; við erum þess fullviss að við förum okkur að voða án reglna sem við setjum okkur sjálf, okkur til aðhalds og verndar. Okkur hefur lærst að okkur er vart treystandi fyrir eigin hugsunum og gjörðum sem í raun er ákveðin auðmýkt og viðurkenning smæðar okkar gagnvart einhverju æðra sem við viljum nálgast og eiga samfélag við. Þetta er hluti jákvæðrar þróunar okkar sem að lokum mun úthýsa grimmd og illsku sem því miður er langt ferðalag.
Við megum ekki glata tengslum við æðri vitund og anda í daglegu lífi. Við byggjum samfélag okkar á fallegri hugsjón og kristinni siðfræði. Jesú gat orðið mikið niðri fyrir þegar á vegi hans varð óréttlæti. Hann velti um borðum víxlaranna og gagnrýndi harðlega mismunun, spillingu og hræsni. En hann vakti einnig með okkur vitund hins hugprúða hugsjónamanns. Þessa vitund þurfum við að endurvekja í kærleikssamtali við okkur sjálf, hvort annað, umhverfisins og Guðs.
Það er stundum eins og við göngumst ekki við tilvist samviskunnar sem andlega leiðbeinandi afli í lífi okkar. Því ef við næðum þeim þroska í jarðvist að gera svo myndum við ekki þurfa á öllu þessu laga og regluverki að halda eða hvað? En lífið er langt ferðalag sem aldrei tekur enda, þó forvitnileg umskipti bíði okkar við viðskilnað sálar og líkama. Þetta lífsins ferðalag er ánægjulegt en erfitt, en umfram allt lærdómur sem engin leið er að svindla sér gegnum án þess að þurfa að endurtaka prófraunirnar. Við bröltum áfram, misstígum okkur, er refsað, leiðréttum, höldum áfram, misstígum okkur, er refsað, leiðréttum og höldum áfram osfrv., osfrv. Hjá sumum okkar er þetta eins og hringavitleysa endaleysunnar. En svo gerist eitthvað, við vöknum til andlegrar vitundar, tenging myndast við samviskuna og lærdómur mistakanna raungerist.
Við flestar hindranir sem við hrösum um, þurfum við ekki að eiga við refsiramma kerfisins þar sem okkar eigin samviska sér um fullnustuna en samviska okkar er andlegur leiðarvísir sem ýmist angrar eða gleður. Meðvitund okkar um tilvist samviskunnar og guðdómlegt eðli hennar til að leiðbeina okkur og hjálpa í þróuninni skilur milli tilgangs og tilgangsleysis í jarðveru okkar.
Að kunna að skynja samviskuna og túlka, oft á tíðum óræð skilaboð hennar, ætti að vera skyldufag okkar allra frá vöggu til viðskilnaðar.
Öllum þeim kimum vitundarinnar sem myrkar hugsanir dveljast getum við umbreytt með ljósi. Það eina sem þarf er að hlusta á samviskuna, þetta óræða vitundar angur, og iðka vilja til að framfylgja. Þannig ræktum við kærleika lífsins í samfélagi hvert við annað og Guð. Því samviskan og Guð eiga sér samnefnara sem er réttlætið.
Fyrir 2019 árum síðan
Þegar andstæðir orkupólar mætast verður skammhlaup. Myrkur og hræsni var slíkt meðal manna að tilkoma Jesú orkaði á samfélagið sem skammhlaup. Hann var uppreisnarmaður fyrir þær sakir einar að boða réttlæti, kærleika og eilíft líf, nokkuð sem allir hefðu átt að fagna. En tíðarandinn var annar og einkenndist af hræsni, valdgirnd, fégirnd og þjónkun fólks til lægri hvata. Fólk bjó við aðra guðsmynd og óttaðist refsivönd almættisins eins og um yfirvald var að ræða. Skynjun fólks laut að guði refsingar, og fælingarótti því ráðandi, sem var andstaða við hinn kærleiksríka Guð sem Jesú nefndi gjarnan föðurinn á himnum.
Mannssonurinn var dæmdur, smáður, hýddur og niðurlægður þyrnikórónu í píslargöngunni til sársaukafullrar krossfestingar og dauða. „Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“ Voru orð Jesú í garð kvalara sinna. Sonur Guðs reis upp á þriðja degi, sá hinn sami og mannheimar dæmdu til harmdauða fyrir guðlast.
Kristur færði okkur vissuna og sannleikann um upprisuna og áframhald lífsins. Kristur kenndi okkur að biðja án þess að efast. Kenndi okkur að vera við sjálf, menn meðal manna, og gangast við því sem gott er og rétt. Hann var auðmjúkur, hugrakkur og heiðarlegur. Hann sýndi okkur í verki að samlíf okkar við Guð væri raunverulegur valkostur í mannheimum og að tungumál kærleikans bæri ekki með sér ótta heldur ljós og von. Hann kenndi okkur að hlusta á hjartað og skynja köllun almættisins til góðra verka sem stundum krefðust mikils. Kristur lét ekki nægja að tala við okkur heldur sýndi okkur í verki og sannaði að fölskvalaus bæn til algóðs Guðs tilheyrði okkar daglega hversdagsleika og á hana væri hlustað. Hann færði okkur sönnur fyrir því að lækning fyrir bæn væri raunveruleg í hversdagsleikanum. Hann sýndi með lífi sínu og harmdauða að málamiðlun sannleikans væri ekki föl til þyrmingar eigin lífs í mannheimum. Hann kenndi okkur að lausn mistaka okkar væri gegnum iðrun og fyrirgefningu. Kristur bauð myrkum mannheimum byrginn með kærleika, heiðarleika, hugrekki og trú að vopni því hann vissi sem var, að ljós hans myndi lifa í vitund mannkyns við upprisu og samruna við Guð. Upprisu sem færði okkur öllum sönnun þess að algóður Guð er til staðar fyrir okkur og er hluti af okkur öllum. Það eina sem við þurfum er vilji og trú til að gangast við honum í okkar lífi. Frá fæðingu til viðskilnaðar var hlutskipti Jesú að opna kærleiksvitund okkar í mannheimum og fullkomna vilja Guðs á jörð. Hann sýndi okkur með lífi sínu og gjörðum að Guð væri kærleikur.
Páskarnir minna okkur á sigur lífsins yfir dauðanum. Sigur andans yfir efninu. Sigur kærleikans yfir illskunni. Sigur ljóssins yfir myrkrinu. Páskaboðskapurinn færir okkur von um kærleiksríka framtíð. Boðskapurinn færir okkur trúarvissu um að hið illa á ekki síðasta orðið heldur lífið, kærleikurinn og hamingjan.
Heilunaráhrif náttúrunnar.
Nú vorar senn og skilningarvitin þokast nær brumhnöppum, fuglasöng og útiveru. Litlu litskrúðugu blómin vakna af vetrardvala og vorilmur náttúrunnar laðar til sín börn í leik. Engin vísindi né önnur mannanna verk leysa af hólmi það guðlega spilverk ljóss, lita, ilms og angurs sem náttúran færir okkur íklædd blæbrigðum árstíðanna.
Nærgætni, nálgun og samruni náttúrunnar, þessarar viðkvæmu lífkeðju, er okkur mönnum blessun til lífs eða fordæmingar. Án okkar dafnar náttúran eins og blómstrið eina en við förumst án verndar hennar og gjafa. Þetta sköpunarverk fæðir okkur og klæðir og nærir sál okkar heilandi orku sem er óþrjótandi uppspretta listsköpunar, innblásturs og vísindalegra framfara. Ekkert okkar skyldi taka lífríki náttúrunnar fyrir sjálfsagðan hlut sem áhuga hefur á að lifa í sátt við sjálfan sig, æðri vitund og Guð.
Nýleg og athygliverð rannsókn um streitu sem birt var í „Frontiers in Psychology“ staðfestir að návist við náttúru dregur úr streitu svo um munar. Þessi rannsókn frá 2016 miðaði að því að mæla magn streituhormónsins cortisol í blóði fólks sem tóku þátt í könnuninni. Aðalhvatamaður að rannsókninni var Dr. MaryCarol Hunter, aðstoðarprófessor við University of Michigan. Rannsóknin náði yfir 8 vikna tímabil og máttu þátttakendur velja sér umhverfi og tíma dags til útivistar. Dr. MaryCarol segir útivistina kunni að vera hagkvæmustu lækningu við streitu sem völ er á en rannsóknin leiddi í ljós að útiveran ein og sér hefði umtalsverð lækkunaráhrif á cortisol og dró því verulega úr streituáhrifum viðkomandi í daglegu lífi. Þátttakendur voru á aldrinum 22-70 ára og lækkaði Cortisol magn u.þ.b tvöfalt á við það sem annars mældist meðaltal hjá þátttakendum, eða frá u.þ.b. -11% í u.þ.b. -23%.
Tilgangurinn með því að leyfa hverjum og einum þátttakanda að velja sér stund og stað var til að sýna fram á með óyggjandi hætti að auðvelt væri fyrir einstaklinga að njóta þessara „náttúru-pillu“ óháð persónulegum aðstæðum. Við getum því nýtt okkur þessa lífslengjandi lausn í nálægð við heimili, vinnustað, skóla eða sjúkrahús svo fátt eitt sé nefnt, óháð stund eða efnahag. Rannsókn þessi ætti einnig að vera leiðbeinandi fyrir lækna, kennara og meðferðarfulltrúa svo fáeinir séu nefndir og umfram allt fyrir okkur almenning sem nú lifir að 50% hluta í þéttbýli og borgum og mun ná 70% hlutfalli árið 2050.
Páli Skúlasyni prófessor í heimspeki var samvist mannsins við náttúruna hugleikin og velti m.a. fyrir sér samúðargáfunni í grein sinni um anda og óbyggðir. Þetta sagði Páll:
„Við höfum í reynd tvenns konar skilning á náttúrunni. Annars vegar þennan vísindalega og tæknilega skilning. En sá skilningur veitir okkur ekki innsýn í raunverulegt samband okkar við náttúruna. Hins vegar er hinn andlegi skilningur þar sem við tengjumst náttúrunni tilfinningalega. Okkar verkefni er að rækta þennan andlegan skilning.“
Páll heldur áfram:
„Aristóteles kallaði andann sem tekur á móti veruleikanum „nous pathetikos“, sem á við hug okkar að svo miklu leyti sem hann er móttækilegur fyrir því að skynja. Á íslensku hefur þetta verið þýtt sem samúðargáfa. Samúðargáfan ásamt sköpunargáfunni, nous poetikos, eru okkar grundvallargáfur. Maður nemur veruleikann, fær hann inn í sig, og svo þarf að vinna úr þeirri skynjun til að skapa.”
Páll bætir við: „Sköpunargáfunni hefur verið gert mjög hátt undir höfði undanfarið og það er allt gott og blessað, en ég tel að nú þurfum við að leggja meiri rækt við samúðargáfuna. Það gerum við með því að leggja miklu meiri rækt við það að kynna náttúruna og undur hennar börnum okkar.“
Gáfur og víddir eru margvíslegar og fáar mýkri og fallegri en samúðargáfan sem við getum skilgreint sem nokkurskonar endurvarp kærleikans. Samúðargáfan felur í sér ást, virðingu og nærgætni í umgengni okkar hvort við annað. Hún er tungumál hjartans í samfélaginu og myndbirting mannhelginnar. Samúðargáfan er eitt af fallegum frávörpum ástarinnar sem er hinn frjósami jarðvegur alls lífs. Þessa gáfu ber okkur einnig að virkja skilyrðislaust gagnvart lífríkinu sem, eins annað af þessari veröld, við erum einungis lítill hluti af.
En stærðin og tíminn eru afstæð hugtök og eitt lítið blóm er heil veröld í lífríkinu. Stundum þurfum við að staldra við og snerta náttúruna hjarta okkar til að skilja næmi hennar, fegurð, mikilvægi og margbreytileika.
Skoðum aðeins lífríki eins lítils blóms
Goðasóley, (ranunculus adoneus), er ljóssækið blóm sem hreyfir sig eftir veðri og stöðu himintungla. Goðasóley veitir sólinni í himinhvolfinu eftirför frá austri til vesturs. Um nætur þegar skuggi mánans skýlir jörðinni fyrir sólu er tilviljun hvernig blómið er meðan það hvílist í sem þægilegastri stellingu. Í dögun vaknar það og snýr til austurs við upprás sólar. Ferð blómsins myndast frá hreyfifrumum á sveigjanlegum stað sem er rétt fyrir neðan blómhausinn. Þessar hreyfifrumur dæla kalíum-jónum í nálæga vefi og mynda þannig breytilegan þrýsting sem ráða átt blómsins m.t.t. afstöðu sólar. Þetta litla blóm sem við veitum vart eftirtekt í daglegu lífi er sjálfstætt lífríki í náttúrunni sem lifir og hreyfir sig í takt við okkar sólkerfi. Við mennirnir, eins og litla blómið, og allt annað líf, erum háð stuðningi hvors annars og lífkerfisins í heild.
Goðasóley er t.a.m. einungis ein tegund plöntu af 8.7 milljón mismunandi tegundum lífvera á móður jörð. En núverandi vitneskja vísindasamfélagsins á fjölda mismunandi lífvera er almennt talin af skornum skammti og inn í talningu vantar veröld örveranna. Sem dæmi um takmarkaða þekkingu okkar á fjölda mismunandi lífvera þá fór Terry Erwin carabidologist og starfsmaður Smithsonian Stofnunarinnar inn í frumskóg Panama, lagði dúk undir tré og dreifði skordýraeitri á stofn og krónu nokkurra trjáa. Hann uppgötvaði m.a. 1.100 nýjar tegundir af bjölluætt úr einungis einu tré. Terry Erwing sagði í viðtali við Guardian að hæglega gætu fundist 30 milljón nýjar lífverur í regnskógum við miðbaug en ýmsir vísindamenn telja að regnskógarnir hafi að geyma lífverur og plöntur sem læknað geta alla sjúkdóma mannkyns.
Við þurfum að minna okkur á að maðurinn er agnarsmá eind í lífríki alheimsins með takmarkaða þekkingu á efni og anda. Hans varanlegi sigur getur einungis verið andlegur og falist í auðmýkt og virðingu fyrir Guði, lífinu og gangverki náttúrunnar í heild.
Í ímyndaðri stærð okkar erum við lítið meira en endurvarp hvers annars og umhverfisins. En einmitt í endurvarpinu höfum við möguleika á að bæta við örlítilli þekkingu og kærleika og skapa þannig betra og sanngjarnara líf á plánetu jörð. Um þetta snýst þróunin.
Boðskapur páskanna minnir okkur á sigur lífsins og andans. Páskarnir boða að Kristur er með okkur alla daga og gengur á undan okkur í heimi sem er ekki alltaf vinveittur. Hann lýsir okkur veginn í veröld sem getur verið myrkri skyggð, en eygir engu að síður birtu páskasólarinnar í austri.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.