Hvað er foreldraútilokun?
Til eru nokkrar skilgreiningar á foreldraútilokun (e. Parental Alienation) en munurinn felst aðallega í því hvaða hlið málsins er verið að rannsaka. Kjarninn er ætíð sá sami. Hér eru tvö dæmi:- Þegar barn, oftast í miðju skilnaðarátaka foreldranna, tekur mjög sterka afstöðu með öðru foreldrinu (útilokandi foreldrinu) og hafnar sambandi við hitt foreldrið (útilokaða foreldrið) án raunverulegrar ástæðu.
- Ástæðulaus höfnun barns á foreldri sem það áður átti ástríkt samband við. Höfnunin lýsir sér í sérstakri útilokandi hegðun sem á sér rót útilokandi hegðun hins foreldrisins.
Eru þetta ekki bara skilnaðarátök sem jafna sig með tímanum?
Því miður alls ekki. Það er grundvallarmunur á foreldraútilokun og eðlilegum sárindum á milli foreldra sem standa í skilnaði. Flestir foreldrar sem ganga í gegnum erfiðan skilnað missa einhvern tímann út úr sér eitthvað neikvætt í garð hins foreldrisins að barni áheyrandi eða sýna vanþóknun á annan hátt. Það er eðlilegt og jafnar sig yfirleitt fljótlega.Foreldraútilokun er allt annað fyrirbæri og lýsir sér á annan hátt. Dr. Amy JL Baker, sem er einn helsti sérfræðingur heims í foreldraútilokun hefur tekið saman 17 hegðunareinkenni foreldris sem beitir útilokun. Þessum hegðunarmynstrum má skipta í 5 flokka. Útilokandi foreldrið:
- gefur barninu eitruð skilaboð um að hitt foreldrið sé hættulegt, vilji ekki vera til staðar og elski ekki barnið
- takmarkar umgengni og samskipti barnsins við útilokaða foreldrið
- leitast við að afmá útilokaða foreldrið úr huga og hjarta barnsins og skipta því út fyrir annað
- hvetur barnið til að bregðast trausti útilokaða foreldrisins
- grefur undan foreldravaldi útilokaða foreldrisins
Foreldrið sem beitir þessum aðferðum útilokunar nær með þeim að skapa togstreitu og fjarlægð í sambandi barnsins við útilokaða foreldrið. Sum börn geta staðist þennan þrýsting á að velja annað foreldri sitt en afneita hinu. Þegar þrýstingurinn verður of mikill og barn hafnar öðru foreldri sínu án raunverulegrar ástæðu er talað um foreldraútilokun. Samband (eða öllu heldur sambandsleysi) barnsins við útilokaða foreldrið er þá afleiðing af neikvæðri innrætingu útilokandi foreldrisins fremur en raunverulegri reynslu barnsins af útilokaða foreldrinu.
Einkennum sem börn sem beitt eru foreldraútilokun sýna má skipta upp í 8 hegðunarmynstur. Börn sem beitt eru útilokun sýna yfirleitt flest eða öll þessi einkenni:
- ófrægingarherferð í garð útilokaða foreldrisins
- léttvægar, óljósar og jafnvel fáránlegar ástæður fyrir höfnun útilokaða foreldrisins
- skort á raunsæi við mat á báðum foreldrum, annað er algott og hitt alvont
- iðrunarleysi yfir ósanngjarnri framkomu við útilokaða foreldrið
- skilyrðislaus stuðningur við útilokandi (elskaða) foreldrið
- það vísar til atburða sem aldrei hafa gerst
- það þykist hafa komist að þessari niðurstöðu algerlega eitt og sjálft (the indepentent thinker)
- óvildin er einnig færð yfir á nánustu fjölskyldu og vini útilokaða foreldrisins
Er foreldraútilokun (e. Parental Alienation) viðurkennt hugtak sem byggir á vísindalegum grunni?
Já, tvímælalaust. Í gagnagrunni alþjóðlegs fræðahóps um foreldraútilokun (e. PASG, Parental Alienation Study Group) er að finna vísanir í 800 eigindlegar rannsóknir og 200 megindlegar rannsóknir frá 38 löndum á foreldraútilokun.
Þegar leitað er að „parental alienation“ í ICD-11, nýjustu útgáfu (2018) að gagnagrunni Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (e. WHO) kemur upp kafli QE52.0 um vanda í samskiptum forsjáraðila og barns en kaflinn tekur til „alvarlegra og langvarandi erfiðleika og vanvirkni í sambandi barns og forsjáraðila þess“.
AACAP – American Academy of Child and Adolescent Psychiatry tiltekur sérstaklega í leiðbeiningum sínum til fagaðila við mat á forræðismálum beri að skoða sérstaklega tilfelli þar sem barn verður einstaklega fjandsamlegt öðru foreldri sínu vegna líkinda á að þar sé um foreldraútilokun að ræða.
APSAC - American Professional Society on the Abuse of Children veitir fagaðilum leiðbeiningar um rannsókn á ásökunum um ofbeldi gagnvart börnum og heimilisofbeldi í tengslum við skilnaðar- og forræðismál. Þar segir að þegar ekki er talið að ásökun um ofbeldi eigi við rök að styðjast geti skýringin á ásökuninni verið tilraun til að útiloka barnið frá foreldri sínu. Sterkar vísbendingar um foreldri innræti barni sínu neikvæð viðhorf til hins foreldrisins verði að skoða með bestu hagsmuni barnsins í huga. Slík innræting sé andleg misnotkun á barni.
Í ritinu eftirfarandi vísbendingar tilteknar:
- að takmarka, grípa inn í eða grafa undan mikilvægum fjölskyldutengslum barns (t.d. með því að takmarka samskipti barnsins við foreldri sitt og segja barninu að samskiptaleysið sé vegna þess að foreldrið elski ekki barnið)
- að setja barnið í hollustuklemmu og þrýsta á það að velja á milli foreldra sinna
APA – American Psychological Association gefur út handbók um „réttarfræðilega sálfræði“ (e. Forensic Psychology) en þar er sérstakur kafli um forræðismál og umgengni. Í þeim kafla er sérstaklega fjallað um útilokun gagnvart barni (e. Child Alienation).
American Psychiatric Association gefur reglulega út handbók um greiningar og tölfræði um andlegar raskanir (e. Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders). Í síðustu útgáfu (DSM-5), 2013 er í þremur köflum rætt um þennan vanda undir kaflanum diagnostic code V 995.51 “child psychological abuse”:
- Barn sem þolandi sambandserfiðleika foreldris: Þar sem talað er um „neikvæð áhrif sambandserfiðleika foreldris (s.s. mikil átök, streita og illt umtal) á barn“
- Vandamál í samskiptum foreldris og barns þar sem talað er um tilvik s.s. þar sem barn ætlar foreldri sínu illt, sýnir því fjandskap og hafnar því án raunverulegrar ástæðu
- Andleg misnotkun á barni – þegar verið er að skaða eða yfirgefa fólk (eða hluti) sem barninu er kært
Fleiri dæmi mætti nefna um stofnanir og samtök sem taka á foreldraútilokun sem ofbeldi og andlega misnotkun gagnvart barni. Þá hefur í nýlegum rannsóknum verið rökstutt hvernig foreldraútilokun uppfyllir skilyrði fyrir skilgreiningu sem heimilisofbeldi (e. Domestic Violence)
Á ráðstefnu fagfólks á vegum Association of Family and Conciliation Court var eftirfarandi spurning lögð fyrir 300 þátttakendur á ráðstefnunni: „Telur þú að sumum börnum sé snúið svo gegn öðru foreldri sínu af hinu foreldrinu að þau hafni því án raunverulegrar ástæðu?“ (e. Do you think that some children are manipulated by one parent to irrationally and unjustifiably reject the other parent?) 98% svarenda töldu svo vera.
Foreldraútilokun er heimilisofbeldi og misnotkun á barni
Eins og fram hefur komið hafa margar stofnanir og samtök á sviði barnaverndar skilgreint þá hegðun að útiloka barn frá foreldri sínu sem andlega misnotkun á barni. Í nýlegri ritrýndri grein í Psychological Bulletin er rökstutt hvernig foreldraútilokun uppfyllir skilyrði til að vera skilgreind sem bæði andleg misnotkun á barni og ofbeldi í nánum samböndum því markmið útilokunarinnar er að valda útilokaða foreldrinu skaða.Í lokaorðum hvetja þau yfirvöld til að taka foreldraútilokun inn í þessar skilgreiningar svo hægt verði að taka á því með þeim ferlum sem fyrir hendi eru. Hluti af vandanum er að yfirvöld s.s. löggjafi, dómsvaldið, barnaverndaryfirvöld o.s.frv. lítur ekki á foreldraútilokun sem ofbeldi gagnvart barni og foreldri. Með því að láta ofbeldið afskiptalaust eru yfirvöld hluti af vandamálinu, hluti af ofbeldinu.
Afleiðingar foreldraútilokunar eru alvarlegar og langvarandi
Foreldraútilokun veldur barni miklum og langvarandi skaða. Með því að ala á hatri og fyrirlitningu barnsins í garð foreldris síns er því innrætt sjálfsfyrirlitning auk þess sem barnið gengur í gegnum flókið sorgarferli vegna foreldrisins sem það missir en fær ekki að syrgja. Meðal afleiðinga á börn eru auknar líkur á kvíða, þunglyndi, áhættuhegðun og fíknisjúkdómum auk þess sem útilokuð börn eru líklegri til að eiga í alvarlegum vandræðum í nánum samböndum síðar á lífsleiðinni.
Afar brýnt er að foreldraútilokun verði skilgreind sem ofbeldi/misnotkun á barni og ferlar skapaðir til að grípa hratt og faglega inn í mál af þessu tagi.
Á Facebook- og heimasíðu Félags um foreldrajafnrétti er að finna ýmsan fróðleik um foreldraútilokun. Þar er einnig hægt að leggja inn fyrirspurnir og ganga í félagið.