Þessi spurning virðist fremur fánýt og ef til vill óþörf. Hver myndi halda því fram að menntun skipti litlu sem engu máli? Við þurfum ekki nema að huga að eigin lífsferli til að átta okkur á þeim áhrifum sem kennarar og menntastofnanir hafa haft á líf okkar. Á hverjum virkum degi allan ársins hring ganga börn á Íslandi í leikskóla, 180 daga ársins sækja 6-16 ára börn á Íslandi grunnskóla, og allflest ungmenni á Íslandi innritast á einhverjum tímapunkti í framhaldsskóla, þó ekki ljúki þau öll námi. Það virðist svo augljóst að menntun skipti máli, að við gefum okkur sjaldan tíma til að spyrja hvaða máli skiptir menntun? Þó er mikilvægt að velta þessari spurningu fyrir sér, því hún knýr á um að við veltum fyrir okkur markmiði og tilgangi menntunar.
Mótun framtíðarborgara
Þegar glöggt er skoðað, og jafnvel þó um yfirborðsskoðun sé að ræða, þá blasa við að minnsta kosti tvær ólíkar leiðir til að svara þessari spurningu. Sé litið til opinberrar orðræðu um menntun og ríkjandi áherslur, er ljóst að almennt er talið að menntun skipti miklu máli fyrir framgang og þróun samfélagsins sjálfs, ekki síst atvinnulífsins. Ég ætla að kalla það hina tæknilegu sýn á menntun. Þessi sýn á menntun byggir á því að menntun felist í því að þjálfa og fræða framtíðarborgara til að leggja sitt fram í verkaskiptingu samfélagsins, mennta fólk til ólíkra starfa, í okkar eigin þágu sem og samfélagsins alls. Mælikvarðinn á menntun er hér fyrst og fremst metinn í framleiðslugetu og efnahagsstöðu samfélagsins. Þegar horft er til nemenda, er einkum horft til getu og færni á ákveðnum skilgreindum fagsviðum, sem og útskriftartölur, atvinnumöguleika og aðra skýra og mælanlega þætti.
Ræktun mennskunnar
Önnur leið til að svara því hvaða máli menntun skiptir horfir fremur til einstaklingsins sjálfs, þroska hans og möguleika, og í raun til listarinnar að lifa sem manneskja. Köllum þetta sjónarhorn á markmið menntunar hina húmanísku sýn. Þessi sýn á menntun á sér djúpar rætur í hugmyndasögu mannkyns. Þeim fræjum sem grísku heimspekingarnir sáðu á fornöld um að menntun fælist í því að rækta mennskuna og möguleika hvers einstaklings, hefur sannarlega lifað. Það er þó ekki samfélaginu sjálfu að þakka og því síður menntakerfum vestrænna samfélagi. Fremur má segja að þessi hugsjón sé enn lifandi þrátt fyrir sífellt sterkari þrýsting á hinn hagnýta árangur menntunar, á hina tæknilegu sýn á menntun.
Því fer fjarri að ég ætli að halda því fram að hin tæknilega eða hagnýta sýn sé röng. Menntun er undirstaða framfara í samfélaginu, tryggir þróun þekkingar og atvinnulífs. Menntun tryggir stoðir efnahags- og atvinnulífsins, sem stuðlar að auknum lífsgæðum einstaklinga, möguleikum þeirra og farsæld. Ég held því á hinn bóginn fram að hið húmaníska svar eigi ávallt að koma fyrst, að þroski hvers einstaklings sé hið eiginlega markmið menntunar. Rökin fyrir því eru þau að öll velmegun, velsæld og lífsgæði sem við getum orðið okkur úti um eru einskis nýt ef við höfum ekki til að bera hyggjuvit, þroska og lífsgildi til að nýta möguleika okkar, tæki og tól til góðs.
Kennarar og menntahugsjónin
Hverjir standa vörð um hina húmanísku menntun? Það eru kennarar allra skólastiga, sem alla daga eru í samskiptum við börn og ungt fólk. Kennarar sem hafa helgað líf sitt menntahugsjóninni. Kennarar sem vita að nám er persónulegt, nám er aðstæðubundið og nám er þroski. Færni og þekking skipta að sjálfsögðu máli, miklu máli, og opna dyr einstaklinga að veruleikanum, náttúrunni og samfélaginu. Við þjálfum hæfileika okkar, dómgreind og greinandi hugsun með því að takast á við nýjar áskoranir og ögrandi verkefni. En listin að lifa, listin að vera manneskja, tengjast öðru fólki, leita eigin leiða og lausna – þetta er kjarninn í því að þroskast, að menntast.
Togstreitan eilífa um hið vissa og óvissa
Bókmenntir, náttúrufræði, stærðfræði, tungumál, listir og samfélagsgreinar skapa vettvang fyrir nám og þroska, efla andlega og líkamlega skynjun, og gefa færi á bæði greinandi og skapandi hugsun. Við verðum ekki öll rithöfundar, vísindamenn, listamenn eða verkfræðingar en við búum öll yfir óendanlegum möguleikum sem finna sér mismunandi farvegi. Menntakerfið á að hlúa að möguleikum allra til þroska og farsældar, að gefa öllum færi á að kynnast heiminum á ólíka vegu. Heimspekingurinn Sigurður Nordal flutti fyrirlestra fyrir réttum hundrað árum um þroskahugsjónina sem kölluðust Einlyndi og marglyndi. Í fyrirlestrunum setti Sigurður fram kenningu sína um einlyndi og marglyndi sem grunnþætti sálarlífsins. Samkvæmt kenningunni þá snýst líf okkar að miklu leyti um að finna jafnvægið þarna á milli, en einnig að lifa í togstreitunni um hið vissa og hið óvissa, vera viðkvæm en samt sterk. Ég vek athygli áhugasamra á ráðstefnu sem haldin verður í Hannesarholti næstkomandi laugardag 27. apríl til heiðurs Sigurði Nordal, þar sem boðskapur hans í fyrirlestraröðinni er krufinn í ljósi nútímans.
Hvaða máli skiptir menntun fyrir þig?
Ein megin niðurstaða Sigurðar Nordals er að „allt líf, sem er vert þess að lifa því, gengur út á að samrýma ósamrýmanlegar andstæður …“, ná valdi á togstreitunni sem gjarnan einkennir líf okkar, fanga hana, gera hana að skapandi krafti. Þessa ábyrgð höfum við öll, bæði sem einstaklingar og sem samfélag. Gerum okkur ljósa þá togstreitu sem er að finna í ólíkum hugmyndum um markmið menntunar. Gerum ekki tilraun til að breiða yfir hana, veltum fyrir okkur hvaða afleiðingar það hefur að hafa hina húmanísku sýn á menntun ávallt í aftursætinu, en ekki í forgrunni. Kennarar vita að menntun snýst ekki eingöngu um það sem augað mælir, heldur fremur það sem hjartað nemur. Það er á ábyrgð okkar allra að forgangsraða rétt í menntakerfinu, hlusta á þann vitnisburð sem kennarar gefa og veita hverju barni og ungmenni svigrúm til að þroska hæfileika sína á eigin forsendum. Hvaða máli skiptir menntun fyrir þig?
Höfundur er forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.