Þegar Íslendingar heyra um brottkast á fiski, verða flestir bæði reiðir og hneykslaðir. Það eru mjög eðlileg viðbrögð enda er fiskurinn í sjónum ekki bara sameiginleg auðlind allra landsmanna heldur líka afar verðmæt. Þetta er einfaldlega sóun á sameiginlegri auðlind.
Við eigum aðra sameiginlega auðlind sem ekki allir átta sig á, en það er lífrænn úrgangur. Fáir setja samnefnara milli úrgangs og auðlinda en víða leynast verðmætin. Um nokkurt skeið hefur verið unnið metangas úr úrgangi frá urðunarstöðvum í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er afar mikilvæg loftslagsaðgerð því ef metanið sleppur óbrennt upp í andrúmsloftið hefur hvert tonn um tuttugufalt verri loftlagsáhrif en hvert tonn af CO2. Á næsta ári opnar svo ný gasgerðarstöð hjá Sorpu sem tvöfaldar þessa metanvinnslu.
Óásættanlegt brottkast auðlinda
Þá kemur að brottkastinu. Aðeins lítil hluti af þessu verðmæta metani, sem nýta má sem hágæðaeldsneyti á stærri og minni bifreiðar, er í dag nýttur. Meirihlutanum er bara hent eða réttara sagt brennt í tilfelli Sorpu. Á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi fer fram stanslauss brennsla á metani til einskis sem duga myndi á 5-6000 fólksbíla eða helling af fólks- eða vöruflutningabílum. Þetta fáránlega brottkast verðmæta er óásættanlegt og eiginlega verra en brottkast á fiski.
Brottkast á fiski samanstendur oftast af smáum eða verðminni fiski sem sjómenn freistast til að láta frá sér á meðan metangas er Svansvottað hágæða eldsneyti sem er margfalt umhverfisvænna en hefðbundið jarðefnaeldsneyti. Það myndi líklega einhverjum bregða ef olíutrukkar myndu stanslaust keyra á afvikin stað og dæla bensíni á tilgangslaust bál, engum til gagns.
Vandræðalaus nýting
Á Akureyri hafa nú um nokkurt skeið keyrt almenningsvagnar vandræðalaust á norðlensku metani með miklum umhverfisávinningi. Auk nokkurra tegunda af gæðafólksbílum frá viðurkenndum aðilum, bjóða nokkrir af þekktustu bílaframleiðendum heims upp á vöru- og fólksflutningabifreiðar sem ganga fyrir metani. Metanið er ekki bara með hlutlausa kolefnislosun heldur er það einfaldlega ódýrara. Hvernig má það vera að einungis tveir af 150 vögnum Strætó BS keyra á metani? Af hverju í ósköpunum býður ekkert flutningafyrirtæki upp á kolefnishlutlausa vöruflutninga innanbæjar eða milli Reykjavíkur og Akureyrar á metanflutningabílum?
Einhverjir benda á rafstrætisvagna sem eru, sem betur fer, komnir í umferð í Reykjavík. Innleiðing rafvagna gerir það samt ekkert minna fáránlegt að brenna jafn umhverfisvænni lausn út í loftið á meðan. Þessar lausnir fara vel saman og það myndi líka létta á nauðsynlegri innviðauppbyggingu fyrir rafvagna ef einhverjir tugir vagna gengju á metani.
Okkar auðlind
Metanauðlindin er ekki bara í eigu okkar í gegnum eignarhald sveitarfélaganna. Það erum við sem leggjum til hráefnið þ.e. lífræna úrganginn. Það er þess vegna á okkar ábyrgð að nýta þetta umhverfisvæna eldsneyti með skynsamlegum hætti. Hættum að henda og byrjum að nýta.
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.