Á Íslandi erum við hrifin af orðum. Við teljum okkur vera meiri bókaþjóð en aðrar, eiga betri skáld en aðrir og við smíðum ný orð yfir nýja hluti og ný hugtök á meðan aðrar þjóðir láta sér nægja að taka upp orð úr öðrum tungumálum. Sumum finnst gaman að búa til nýja merkingu úr gömlum orðum. Til dæmis sími. Eða drengur.
Mörgum finnst líka gaman að taka orð með valdi, nota þau í afbakaðri merkingu þannig að þau þjóni nýjum herra og öðrum hagsmunum. Hér eru nokkur dæmi.
Það fyrsta er þegar aukin losun gróðurhúsalofttegunda er sögð vera andstaða sín, samdráttur í losun, eins og í umræðunni um olíuleit á Drekasvæðinu. Forsvarsmenn Eykon Energy héldu því fram fullum fetum að olíuvinnsla myndi skila sér í minni losun gróðurhúsalofttegunda. Það sama gera forsvarsmenn norsku olíufyrirtækjanna. Annað svipað dæmi er þegar forsvarsmenn orkufyrirtækja sem eyðilagt hafa einstakar náttúruperlur á Íslandi í þágu erlendra stóriðjufyrirtækja halda því fram að stóraukin losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi vegna stóriðju sé í raun andhverfa sín, sumsé samdráttur í losun. Plús verður mínus. Meiri losun verður minni losun.
Næsta dæmi sem hér verður nefnt um að taka orð með valdi er orðið náttúruvernd sem reyndar hafa verið gerðar margar atlögur að. Nýendurreist Náttúruverndarsamtök Vestfjarða ættu að sögn nýkjörins stjórnarmanns í samtökunum, Kristins H. Gunnarssonar fyrrverandi alþingismanns, að berjast fyrir því að á Vestfjörðum verði náttúruverndarlög brotin með veglagningu um svæði sem nýtur verndar, að framandi tegundum verði sleppt án eftirlits í íslenska náttúru í stórauknu mæli og að til áframhaldandi rasks komi á einstakri náttúru með orkunýtingu. Eyðilegging verður vernd.
Síðasta dæmið um að taka orð með valdi er orðið öfgar, sem iðulega er kastað fram í umræðu um umhverfisverndarfólk. Síðastliðið haust kallaði innanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ryan Zinke „öfgafullt umhverfisverndarfólk“ til ábyrgðar vegna skógarelda sem þá geisuðu í Kalíforníuríki. Nú erum við á þeim stað sem mannkyn að mannhverf stefna iðnbyltingarinnar hefur næstum keyrt siðmenningu okkar í þrot. Samkvæmt þeirri stefnu er náttúran er fyrir manninn og hann má taka frá henni það sem hann getur, eins og hann tekur orð og nýtir þau í sína þágu. Við höfum gengið svo hart gegn móður Jörð að hún þolir ágang okkar ekki lengur. Okkur dugar ekki móðurmjólkin lengur, höldum því fram að nú þurfum við að éta af henni útlimi og innyfli eitt af öðru til þess að komast sjálf af, í takt við stefnu iðnbyltingarinnar. Við höfum um það bil 10 ár til þess að breyta frá þessari stefnu með róttækum aðgerðum, annars verður ekki hægt að stöðva þróunina. Við okkur blasir 6. massaútrýming tegunda, þjáningar, eymd og eyðilegging á skala sem við getum vart ímyndað okkur. Fólk sem berst gegn þessari þróun og fyrir hófsamari lífsstíl er kallað öfgafólk. Þeir sem berjast gegn eyðileggingu jarðar eru öfgafullir. Hófsemd verður öfgar.
Þegar búið er að snúa öllum orðum á hvolf, hola þau að innan og tæma þau af merkingu, getum við ekki mikið rætt saman lengur. Þá verður lítið gaman að lesa sögur og ljóð, eða smíða ný orð, því merking þeirra gömlu er horfin. Höfum við sjálf kannski verið tæmd af merkingu? Verðum við brátt horfin líka?
Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.