Ágæti Örnólfur ég biðst afsökunar á því að ég sendi þér bréf þegar erindi mitt er við bróður þinn hann Guðmund Andra. Mér fannst einhvern veginn réttara að senda orð mín til þín og biðja þig að vefja þau inn í bómull og flytja þau þannig til hans. Guðmundur Andri er nefnilega í Samfylkingunni og mér skilst að það sé ekki réttlátt að leggja meira á mann en það og alls ekki bréf af þessari gerð. En þetta er það sem ég vildi sagt hafa:
Guðmundur Jónatansson fæddist 12. desember 1829 á Hofi í Flateyjardal. 13. september 1849 kvæntist hann Steinunni „yngri“ Þorkelsdóttur sem fæddist 1. júlí 1828 á Brettingstöðum í Flateyjardal. Þau hjón bjuggu alla sína búskapartíð á Brettingstöðum og eignuðust tíu börn. Það elsta var Páll sem var langafi minn í móðurætt föður míns og það yngsta Vilhjálmur sem var langafi þinn og Guðmundar Andra í föðurætt föður ykkar. Við Guðmundur Andri og þú erum því allir Brettingar þannig að þegar við deilum er um að ræða fjölskylduerjur, en þær hafa tilhneigingu til þess að einkennast meira af nöldri en raunverulegum ágreiningi. Guðmundur Andri skrifaði pistil sem birtist í Kjarnanum á föstudaginn, sem mér virðist vera lítið annað en pirringur út í mig, en hann stendur líklega í þeirri trú að hún sé viðbrögð við grein eftir mig sem birtist í Fréttablaðinu tveimur dögum áður og fjallaði um orkumál. Það er göfugt verk og jafnvel skylda manns að vera pirraður út í ættingja sína og Guðmundur Andri rækir hana af stakri prýði. Það sem mér finnst merkilegast við pistil hans er að hann virðist engu síður pirraður út í þau atriði í grein minni sem hann er sammála en þau sem hann er ósammála.
Nú skulum við skoða þau atriði í grein minni sem ollu pirringi allt að 8.5 á Richterskala:
1. Í byrjun greinarinnar minntist ég lítillega á Einstein vegna þess að í mínum huga er hann faðir eða guðfaðir flestra nýrra hugsana um orku frá því í byrjun síðustu aldar. Síðar í greininni lagði ég til að rafmagn á Íslandi yrði selt á kostnaðarverði meðal annars til þess að hlúa að grænmetisræktun í gróðurhúsum. Viðbrögð Guðmundar Andra voru: „Þetta hljómar vel og aldrei að vita nema hægt hefði verið að komast að þessum niðurstöðum án atbeina Einstein.“ Ég vona heitt og innilega að hér sé um að ræða tilraun til þess að tjá pirring vegna þess að ef svo er hefur honum bróður þínum tekist snilldarlega, ef þetta var hins vegar tilraun til þess að vera fyndinn er ég hræddur um að það hafi ekki endilega gengið upp. Við fyrirgefðum slíkt af því það er innan fjölskyldunnar. Og síðan heldur hann áfram: „Við í Samfylkingunni höfum til dæmis talað á Alþingi um nauðsyn þess að innlend grænmetisframleiðsla njóti lægra rafmagnsverðs, þó meginrök okkar snúist að vísu um loftslagsvána, sem Kára láist að nefna þó að þar sé um að ræða stærsta úrlausnarefni okkar tíma --.“ Þarna velur hann bróðir þinn óheppilegt orðalag vegna þess að „við í Samfylkingunni“ samþykktu nýverið að styðja við uppbyggingu á kísilveri á Bakka þar sem brennd eru kol loftslagi hnattarins til bölvunar. Þar sem ég er hvorki í stjórnmálaflokki né nokkrum annars konar flokki eru það bara við Kári Stefánsson sem erum hins vegar sammála því að eitt af því sem fengist við að Íslendingar ræktuðu sjálfir sitt grænmeti í gróðurhúsum, vermt og lýst af vistvænni orku, er framlag til þess að hemja loftlagsbreytingarnar hættulegu. Og það er göfugt.
2. Í greininni benti ég á að það virtist sem eina markmið Landsvirkjunar væri að fá sem hæst verð fyrir rafmagn og ein leið sem hún vildi nota til þess væri að selja það um sæstreng til annarra landa. Við þessu brást bróðir þinn (og frændi minn) með eftirfarandi: “Eitt vefst þó fyrir mér. Ég átta mig ekki alveg á því að það sé endilega áhyggjuefni í sjálfu sér að hærra verð kunni að fást fyrir íslenska orku til stórkaupenda en nú tíðkast. Er það andstætt almannahagsmunum að Landvirkjun fái góðan arð af orkusölu ef slíkt orkusala færi um sæstreng til útlanda fremur en til álbræðslu og kísilverksmiðju á Íslandi? Ég hefði haldið að það gæti jafnvel verið í almannaþágu að selja íslenska orku á góðu verði (að ekki sé talað um loftslagsmálin), fari svo ólíklega að lagður verði sæstrengur frá Íslandi til Evrópu.” Ég get einfaldlega ekki verið bróður þínum sammála hér þótt ég vilji leggja ýmislegt á mig til þess að halda frið í fjölskyldunni. Ég held því sem sagt fram að það væri andstætt almannahagsmunum á Íslandi að selja rafmagn um sæstreng af eftirfarndi ástæðum: a. Ef við seldum rafmagn til Evrópu í gegnum sæstreng yrðum við samkvæmt reglum EES að verðleggja það eins við báða enda. Þar af leiðandi myndi verð á rafmagni hækka mikið á Íslandi og taka frá íslenskum atvinnuvegum það forskot sem felst í ódýrum aðgangi að vistvænni orku. b. Ég held að það eigi að vera okkur kappsmál að nýta raforkuna okkar hér heima til þess að búa til vörur og rækta jurtir og geyma gögn. Við eigum ekki að sætta okkur við að láta aðra hirða virðisaukann sem í því felst. c. Það er nokkuð víst að innan skamms muni krafan um að minnka mengun við alls konar framleiðlu gera það að verkum að það þætti nokkur fengur að því að fá að sinna henni á landi þar sem vistvæna orkan er aðgengilegri en í flestum öðrum löndum. Þess vegna eigum við ekki að veita henni úr landi heldur nýta hana sem okkar sérstæði til þess að búa til verðmæti hér, ekki annars staðar. d. Það er líklegt að sæstrengur myndi kalla á enn meiri virkjanavafstur og þykir mörgum nóg vegið að íslenskri náttúru með því sem komið er.
3. Greinin mín endaði á eftirfarandi málsgrein sem bróður þínum finnst greinilega vega á ósanngjarnan hátt að heiðri Alþingis:
En ef Alþingi samþykir orkupakkann þriðja held ég að við lifum það svo sem af vegna þess að við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa þjóðarinnar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Austurvallar, þau afdrifaríku inni í hlöðnu steinhúsi sem blasir við Jóni Sigurðssyni, þau sem eru næstum takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni í öðrum húsum þar í nágrenninu.
Um þann hluta sem lýtur að Klaustursmálinu segir Guðmundur Andri: “Og þau gefa ekki nokkra mynd af starfi eða framgöngu þingmanna almennt. Eiginlega er ekki hægt að draga víðtækari ályktanir af Klausturmálum en þær að áfengi gerir hvern mann að bjána sem þess neytir í óhófi –“ Ekki ætla ég að deila við bróður þinn um þá ályktun að áfengi neytt í óhófi geri menn að bjánum, en ég er honum hins vegar ósammála þegar hann segir að það megi ekki draga af því víðtækari ályktanir. Til dæmis er sá bjánaskapur sem fimmmenningarnir hafa framið í tengslum við Klausturmálið eftir að rann af þeim sínu verri en skítmælgin undir áhrifum. Þeir hafa veist að Báru þeirri sem tók upp samræðurnar og gefið í skyn að hún hafi verið útsendari illra afla og hafi jafnvel fengið fé fyrir vikið. Hvaða máli skiptir það? Þeir sögðu það sem þeir sögðu og hvort það var tekið upp eða af hverjum breytir þar engu. Það er sem sagt ýmislegt sem bendir til þess að þessir ágætu þingmenn séu töluverðir bjánar af sjálfum sér og þurfi ekki endilega hjálp áfengis til. Annað sem er í mínum huga mun alvarlegra er að á meðan þingmennirnir fimm hafa verið að reyna að bjarga sjálfum sér frá brennivínsskandalnum með því að henda skit í Báru liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um að auka aðgengi að áfengi í íslensku samfélagi, þótt það sé óyggjandi að aukið aðgengi þýðir aukin neysla fólks og er ekki líklegt að þingmenn séu þar undantekning. Þannig frumvarp hefur skotið upp kollinum á hverju ári í langan tíma sem einhvers konar staðfesting á viðvarandi ábyrgðarleysi kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Það sem meira er, Alþingismenn sitja þeygjandi hjá meðan núverandi heilbrigðismálaráðherra reynir kerfisbundið að grafa undan Vogi, sem er eina meðferðarstofnunin á Íslandi sem sinnir áfengissjúklingum af fullri alvöru. Það má ekki gleymast að ráðherra starfar í umboði Alþingis. Litli bróðir þinn og kollegar hans bera endanlega ábyrgð á aðförinni að Vogi.
Síðan segir Guðmundur Andri: “Á Alþingi situr með öðrum orðum ósköp einfaldlega það fólk sem við höfum kosið þangað. Þessu fólki er ætlað að setja sig inn í flókin mál fyrir hönd kjósenda sinna, með eigin samvisku að leiðarljósi og þær hugsjónir sem það deilir með kjósendum sínum. Þetta fólk er hvorki betra né verra en gerist og gengur, það kemur úr þjóðardjúpinu, fulltrúar kjósenda sinna sem eru af ýmsu tagi. Þingmenn geta reynst latir, duglegir, drykkfelldir, bindindissamir, mælskir, dauflegir, málefnalegir, ómálefnalegir.”
Þetta er allt rétt og satt en þetta fólk gaf kost á sér og náði kosningu. Það þýðir einfaldlega að til þess eru gerðar meiri kröfur en til annars venjulegs fólks. Það stjórnar landinu. Þess vegna verður það að þola að það sé gagnrýnt harkalega þegar fólkinu í landinu finnst það standi sig illa og að það sé hætt og spælt. Ef marka má nýlegar kannanir um traust landsmanna til Alþingis er lítill vafi á því að landsmenn gefa stofnuninni falleinkun. Ég er sammála bróður þínum um að það sé ekki gott.
Langalangafi okkar hann Guðmundur Jónatansson var sagður dálítill glanni. Hann lék sér til dæmis að því að standa á hestbaki, sem ég veit fyrir víst að er ekki á allra færi. Hann skaut fugla og refi af hestbaki sem bendir til þess að hann hafi átt hross sem voru betur tamin en mín. Hann gerði sér það líka að leik að strengja reipi milli strompa á Brettingstöðum og ganga síðan á reipinu. Hann var sem sagt töluverður glanni og ekki eins háttprúður og stilltur og ég. Ég reikna með því að óhemjan í honum, sem ég held að hafi átt rætur í pirringi, hafi öll endað ykkar megin í fjölskyldunni.