Það bar eitt sinn við að ég skíðaði á mann. Hann féll kylliflatur (fyrir mér) og nokkrum árum síðar gengum við í hjónaband á fjallstoppi nálægt norðurskautinu. Það vill hins vegar þannig til að ég er íslenskur ríkisborgari en hann er frá ótilgreindu landi utan Evrópu. Útlendingur utan Schengen. Sem dóttir langholts og lyngmós, bað ég eiginmann minn um að flytja til mín heim svo við gætum verið frjáls við ysta haf. Þar væru heitir brunnar, blærinn hreinn, hátign jökla, vatnið tærast, sumarkvöldin blíðust og fjallstindarnir fegurstir. Hann keypti þetta og féllst á flutninginn.
Starfs míns vegna þekki ég að biðtími eftir að umsókn verði fyrst tekin til athugunar hjá Útlendingastofnun getur verið allt að 6 mánuðir. Við ákváðum því að hafa vaðið fyrir neðan okkur og lögðum inn umsókn um dvalarleyfi fyrir eiginmann minn u.þ.b. 4 mánuðum áður en áætlað væri að hann hæfi störf á Íslandi. Aðallega til að hafa bæði belti og axlabönd - enda má maki íslensks ríkisborgara vera á landinu þegar sótt er um dvalarleyfi (a liður 1. mgr. 51. gr. útlendingalaga) og byrja að vinna áður en dvalarleyfi er veitt (skv. vinnureglu UTL og má í öllu falli leiða af 1. og 2. mgr. 82. gr. útlendingalaga) sem er eðlileg regla í ljósi framfærsluskyldu hjóna gagnvart hvoru öðru.
Nú styttist í að eiginmaður minn eigi að byrja að vinna á Íslandi. Enn hefur ekki verið litið á umsókn hans hjá Útlendingastofnun. Við fórum því aftur á stúfana til að kanna hvort að hægt væri að sækja um kennitölu svo hann geti stofnað til launareiknings hjá viðskiptabanka. Samkvæmt upplýsingum fengnum frá bönkunum eru þeir allir sem einn hættir að sækja um kennitölur fyrir útlendinga, síðasti bankinn breytir sínum reglum í dag 1. maí. Starfsfólk Þjóðskrár tjáði mér að kerfiskennitölur væru nú eingöngu veittar útlendingum sem ekki hygðust dvelja á landinu, svo sem erlendum hluthöfum eða stjórnarmönnum í fyrirtækjum.
Kennitalan verður með öðrum orðum ekki veitt án útgefins dvalarleyfis.
Bankareikningur launamanns verður ekki stofnaður án kennitölu.
Hjá Útlendingastofnun fengust þær upplýsingar að ekkert væri hægt að gera nema bíða því „kerfin tala ekki saman”. Réttur maka íslensks ríkisborgara til atvinnu á meðan dvalarleyfi hefur ekki verið veitt er dauður lagabókstafur í framkvæmd.
Köttur út í mýri.
Þó saga okkar hafi annan og betri endi, þá er það ekki vegna þess að kerfið sé sanngjarnt, fyrirsjáanlegt og að það virki fyrir erlent launafólk sem hefur rétt til að stunda atvinnu á meðan beðið er eftir dvalarleyfi. Eina ástæðan er sú að maðurinn sem ég skíðaði á forðum getur sótt um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar. Við erum svo jafnframt þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa tök á því að reiða fram himinhátt þjónustugjald Útlendingastofnunar til að fá umsýslu umsóknarinnar á ljóshraða íslenskrar stjórnsýslu. Allt svo hægt sé að greiða manninum laun og standa skil á lögbundnum skattgreiðslum. Þegar hann hefur fullan rétt á því að stunda atvinnu á Íslandi samkvæmt lögum.
Setti upp á sig stýri.
Segjum sem svo að andlag þessarar ástarsögu hér að ofan væru hjónin Ísleifur og Erlendur. Ísleifur er sonur landvers og skers. Erlendur er útlendingur utan Schengen. Ég býð upp á annan endi til fróðleiks:
Það voru góð ráð dýr fyrir Ísleif og Erlend sem hafði þegar hafið störf. Ísleifur bauð atvinnuveitandanum að greiða laun Erlends inn á sinn eigin launareikning. Atvinnuveitandinn féllst á það með semingi, enda var honum ekki fyllilega ljóst hvernig ætti þá að standa skil á staðgreiðslu af laununum. Þar að auki var þetta auðvitað ólöglegt, bæði gagnvart skattinum og í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, það vissi atvinnuveitandinn, enda má hann ekki greiða öðrum laun en launþeganum sjálfum. Atvinnuveitandinn lét samt Erlend vinna myrkranna á milli, það voru hvort sem er ekki til neinir pappírar yfir það að Erlendur væri í vinnu hjá honum.
Ísleifur á hinn bóginn stjórnaði aðgangi Erlends að laununum með harðri hendi. Skammtaði Erlendi vikulega vasapeninga og minna ef honum fannst Erlendur ekki hafa komið nægilega vel fram við sig þá vikuna. Ísleifur vissi líka að hann kæmist upp með þetta. Erlendur var hvort sem útlendingur sem var nýkominn til landsins og þekkti engan sem hann gæti ráðfært sig við. Svo vissi Ísleifur líka að Erlendur kunni ekki íslensku og móðurmál Erlends væri ekki líklegt til að gagnast honum við að leita réttar síns.
Erlendur var orðinn fjötraður í þrælavinnu þar sem launin voru greidd Ísleifi sem hafði breyst svo skyndilega og orðið grimmur og gráðugur, eftir að þeir fluttu til Íslands. Erlendur vissi ekki hvenær hann gæti losnað úr þessum aðstæðum því það litla sem hann skildi þegar hann hafði samband við stjórnvöld væri að hann yrði bara að bíða því „kerfin töluðu ekki saman”. Erlendur var í bágri stöðu og upp á eiginmann sinn kominn varðandi framfærslu. Öxlin sigin, bakið bogið af byrði þungri – tómum mal.
Úti er ævintýri.
Þessi harmþrungni endir á ástarsögu Ísleifs og Erlends er ekki úr lausu lofti gripinn. Fjölmörg dæmi eru kunn þeim sem þekkja til aðstæðna erlendra ríkisborgara að núverandi ómöguleiki til að fá útgefna kennitölu skapar aðstæður sem eru til þess fallnar að valda grafalvarlegu tjóni og þjáningum fyrir marga berskjaldaða einstaklinga, mismununar og réttindamissis í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár og alþjóðlegar skuldbindingar.
Að baki hverju kerfi „sem ekki talar saman” eru einstaklingar sem hafa afl til að knýja fram þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að vernda þá erlendu launamenn sem hafa rétt til að dvelja og vinna, frjálsir við ysta haf. Ég skora á þá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem koma þurfa að málinu að tryggja að erlendir ríkisborgarar sem hafa heimild til að stunda atvinnu hér á landi án þess að dvalarleyfi hafi verið veitt, geti fengið útgefna kennitölu. Ég skora jafnframt á Þjóðskrá, Útlendingastofnun og Ríkisskattstjóra að taka þátt í því að knýja fram þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að kerfin fari að „tala saman”. Samfélagið allt hefur hag að því að einstaklingar sem flytja hingað til lands, hafi virkar og raunhæfar leiðir til atvinnuþátttöku.