Síðastliðinn föstudag var 10. loftslagsverkfallið haldið á Íslandi og 36. verkfallið hennar Gretu Thunberg. Eins og Greta hefur sagt og kom einnig fram í máli ungmennanna sem tjáðu sig á föstudaginn, þá er ömurlegt að fullorðna fólkið skuli ekki bregðast hraðar við, styðja þessar aðgerðir þeirra með raunverulegum aðgerðum og sýna með sanni að þeim er annt um framtíð barnanna sinna. Þau töluðu um að það væri undarlegt að fullorðna fólkið hefði áhyggjur af því að þau skrópuðu í skólanum þegar þeim virðist sama um tækifæri þeirra til þess að lifa góðu lífi að menntun lokinni. Börnin eru áhyggjufull, þau eru kvíðin og þeim finnst fullorðna fólkið ekki skilja þau.
Ég er móðir og ég er manneskja og þó ég geri ýmislegt til að berjast gegn loftslagsvandanum þá geri ég ekki nær því nóg miðað við tilefnið. Það sem verra er þá er ég hluti vandans og á minn þátt í því hvar við erum í dag rétt eins og allir fullorðnir einstaklingar sem búa í íslensku samfélagi. Samt elska ég stelpurnar mínar, náttúruna og er annt um framtíðina.
Að einhverju leyti held ég að við séum bara ekki að tengja, við vitum af vandanum en meðtökum þessa þekkingu ekki alveg alla leið og vonum innst inni að þetta reddist einhvern veginn. Ég veit ekki alveg hvað veldur en ég sé fyrir mér múr á milli þekkingarinnar sem við búum yfir og meðvitundarinnar. Annar múr kemur í veg fyrir að við breytum hegðun okkar. Að auki held ég að margir viti ekki hvernig þeir eigi að ræða þessi mál við börn sín eða hvað þeir eigi að gera til að hafa áhrif.
Mig langar að gera smá hugartilraun með ykkur í von um að rífa niður þessa múra.
Hugsum aðeins um þetta:
Hvernig myndum við bregðast við ef barn okkar væri greint með hrörnunarsjúkdóm? Þetta væri sjúkdómur sem myndi ekki hafa alvarleg áhrif strax en hann fæli í sér skerðingu á lífsgæðum barnsins í framtíðinni og gæti jafnvel leitt til dauða þess langt fyrir aldur fram. Við vissum ekki hvenær áhrifin kæmu fram, kannski eftir örfá ár en kannski ekki fyrr en eftir fjörtíu ár.
Hvernig myndum við ræða þetta við barnið?
Hvað ef við fengjum síðan að vita að til væri lækning við sjúkdómnum sem myndi draga úr líkunum á alvarlegum einkennum hans verulega?
Lækningin væri mjög kostnaðarsöm og krefðist þess að ráðamenn gerðu ákveðnar breytingar í heilbrigðiskerfinu og forgangsröðuðu á annan hátt. Þú og fjölskyldan þyrftuð að breyta plönum ykkar, ferðast minna og breyta neyslumynstri ykkar. Lækningin krefðist þess líka að fyrirtæki hættu að dæla ákveðnum efnum út í andrúmsloftið sem flýtti fyrir framgangi sjúkdómsins.
Hvað ef síðan kæmi í ljós að fullt af öðrum börnum væri með þennan sama sjúkdóm, jafnvel meirihluti barna í heiminum?
Ég veit ekki með ykkur, en ég vona að ég myndi vera sterk fyrir barnið mitt, byrja á því að setjast niður með því, hughreysta það og reyna að búa það undir það sem koma skyldi. Síðan myndi ég snúa mér að kerfinu, berjast og hafa mjög hátt. Ég myndi hringja í alla sem ég þekki sem hafa einhver völd, skrifa öllum fjölmiðlum, pressa með miklum þunga á fyrirtæki og í raun myndi ég ræða fátt annað í lengri tíma. Ef ég fengi meðbyr og stuðning annarra myndi ég endast í baráttunni mikið lengur og ætti þar að auki auðveldara með að gera þær breytingar á lífi fjölskyldu minnar sem gætu hjálpað.
Þó loftslagsbreytingarnar séu ekki sjúkdómur í hinum hefðbundna skilningi þá velti ég því fyrir mér hvort við ættum ekki að fara að hugsa um þær þannig. Það er til lækning við þeim en ef við leyfum einkennunum að grassera lengur óáreittum þá munu afleiðingarnar þeirra vera erfiðari og verri og eins og með marga illkynja sjúkdóma þá kemur að þeim punkti (svokallaðir vendipunktar í loftslagsbreytingunum) að þær verða ólæknandi.
Við erum heppin því það er enn von og batahorfur, við bara megum ekki bíða lengur og þó ég hafi byrjað á að segja að börnin væru áhyggjufull og kvíðin þá eru þau svo miklu meira en það. Börnin sem ég sá á Austurvelli á föstudaginn eru líka hugrökk og sterk. Þau ætla ekki að láta þagga niður í sér og munu halda baráttunni áfram.
Berjumst við hlið þeirra og sýnum í verki að við erum tilbúin til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að takast á við vandann með þeim. Að við munum ekki láta þau ein um þetta en þess í stað grípa tækifærið og nýta þessa áskorun til þess að efla samband okkar, styrkja fjölskyldutengslin og gera allar nauðsynlegar breytingar á lífi okkar, sem margar hverjar gagnast ekki bara til að takast á við loftslagsvandann heldur bæta líf okkar um leið.
En eins og Greta Thunberg hefur einnig sagt, þá munu breytingar eiga sér stað hvort sem okkur líkar betur eða verr. Gerum allt sem við getum til þess að hafa þær góðar.
Höfundur er náttúru-, stjórnmála- og siðfræðingur. Hún er meðlimur í samtökunum Foreldrar fyrir framtíðina og hvetur aðra til að vera með.