Daglega hellast yfir okkur fréttir út úr hinum stóra heimi sem fjalla um umhverfismál og þá alvarlegu stöðu sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna hlýnun jarðar. Allar nýjustu rannsóknirnar krefjast aðgerða tafarlaust og nú nýlega lýsti breska þingið yfir neyðarástandi vegna loftlagsvandans. Þótt gjörningurinn sé fyrst og fremst táknrænn (ekki bindandi) þá gefur hann til kynna mikilvægi umræðunnar og að til eru stjórnmálamenn sem átta sig á og viðurkenna vandann.
Ný menntastefna Reykjavíkurborgar var birt á dögunum og á að vera stefnuskjal fyrir grunnskóla borgarinnar fram til ársins 2030 og ber yfirskriftina „Látum draumana rætast.“ Þar er hvergi minnst á sjálfbærni, umhverfismál eða náttúruvernd. Þar er leiðarljósið og tilgangurinn „að búa börn undir að lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, gagnkvæmrar virðingar, mannréttinda og vinsemdar.“ En dásamlegt.
Vissulega er stefnan faglega unnin og full af fögrum fyrirheitum sem „hvetur okkur til að þróa skóla- og frístundastarf í skapandi lærdómssamfélag sem mætir þörfum 21. aldarinnar“ en það er undarlegt að minnast ekki einu orði á umhverfismál; á málefni sem flestir vísindamenn og hugsuðir telja mikilvægusta áskorun mannkynssögunnar.
Forsvarsmenn menntastefnunnar gætu falið sig á bak við þá staðreynd að „sjálfbærni“ er einn af grunnþáttum menntunar í aðalnámskrá grunnskóla (sem er alls ekki áberandi í skólastarfi að mínu mati) og að stefnan geri ráð fyrir að skólar starfi almennt eftir þeim þáttum. En það breytir ekki neinu. Menntastefna Reykjavíkurborgar er nefnilega ekki bara leiðarstef fyrir skólastarf í borginni heldur virkar hún einnig sem yfirlýsing sem endurspeglar viðhorf borgaryfirvalda til menntamála og samfélagslegra gilda.
Það er ekkert að því að láta drauma sína rætast en þessari bómullarhnoðra-stefnu skortir að mínu mati alla framtíðarsýn, festu og metnað sem er nauðsynleg menntunarstefnu sem hefur það hlutverk að undirbúa börnin okkar undir framtíðina. Stefnan er í raun stefnulaus. Hún er pólitísk skrautfjöður; huglægt leiðarljós sem vísar í allar áttir og án nokkurra markmiða. Þannig séð fellur menntastefna Reykjavíkurborgar algerlega undir gagnrýni aðgerðasinnans Grétu Thunberg sem beinist að sofandahætti yfirvalda; afstöðu- og aðgerðarleysi þeirra.
En hver ætli ástæðan hafi verið? Gleymdist þetta eða var einhver sem benti á að það sé nú ekki gott að vera alltaf að einblína á það neikvæða í lífinu? Fáum Jón Jónsson til að semja hresst lag því það á að vera svo gaman í skólanum. Þessu er ég bara ekki sammála. Krakkar mega vissulega hafa gaman af því að læra en skólinn á ekki að vera skemmtun. Hann hefur mun mikilvægara hlutverki að gegna.
Svo má ekki gleyma einu: Börn og unglingar horfa líka á fréttir og fræðsluefni og þau eru skíthrædd. Fyrir mörgum er heimurinn hreinlega að farast og „síðasti séns er árið 2030“. Þau vita ekkert hvað þau eiga til bragðs að taka svo þau flýja inn í símann sinn og svo lengi sem þau kvarta ekki þá látum við fullorðna fólkið þau vera í friði. Hvort ætli að slíkt dragi úr kvíðanum eða auki hann?