„Ber er hver að baki nema bróðir eigi.“ Þessi orð komu óneitanlega upp í hugann þegar ég sá myndina og las fréttina af tveim öldruðum kembum sem héldu fund á Spáni um skaðsemi þess að flytja hrátt kjöt til Íslands (í fréttinni var kyrfilega tekið fram að um væri að ræða hrátt kjöt en ekki ferskt). Þarna birtust þessar öldnu hetjur sólbrúnir og vel maríneraðir af öllum þeim guðaveigum bæði í föstu og fljótandi formi sem hægt var að fá í þessu sólbakaða landi og vöruðu sauðheimska landa sína við að flytja inn hrátt kjöt að utan.
Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þessa frétt um þá félaga var hvort að þeir borðuðu ekkert á meðan þeir dveldu þarna eða hvort þeir væru með íslenskar landbúnaðarafurðir. En svo rann það upp fyrir mér að auðvitað væri málið ekki þannig vaxið. Þarna var einfaldlega um að ræða tvær hetjur á eftirlaunum sem hefðu tekið þá meðvituðu ákvörðun að reyna það á eigin skinni hvernig það væri að lifa á pestarkjöti og taka þá áhættu að drepast. Sem sagt þessir menn lögðu allt í sölurnar fyrir hina tandurhreinu íslensku þjóð og komu sér fyrir í gini ljónsins. Hugsið ykkur fórnfýsina. Þeir leggja það á sig að dvelja langdvölum í því landi þar sem notkun á sýklalyfjum í búfé er hvað mest og þar sem eitraða kjötið er helst að finna, eingöngu til þess að geta varað hina tandurhreinu íslensku þjóð við. Þetta er ekki ólíkt því þegar stríðsfréttamenn hætta lífi sínu á vígvellinum til þess að upplýsa sauðheimskan almúgann.
En þótt varnirnar séu í toppstandi þar sem þessar öldruðu hetjur eru til staðar þá er víða sem hættur geta leynst þegar um er að ræða bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Öll vitum við um þær öryggisráðstafanir sem gerðar eru þegar íslenskir hestamenn taka þátt í hestamótum erlendis. Þá eru skýrar reglur sem gilda; bæði um þá hesta sem fluttir eru út og eins um þann búnað sem menn hafa meðferðis eins og reiðtygi og fatnað. Hesta má ekki flytja aftur til landsins og reiðtygi og fatnaður skal sótthreinsaður eða skilinn eftir. Þarna eru öryggismálin greinilega í topplagi og við getum öll sofið róleg hvað þetta varðar.
En þá kemur ósjálfrátt upp í hugann þegar minnst er á þessar öryggisráðstafanir í sambandi við hestamennina. Hvað með alla ferðamennina sem heimsækja Ísland? Eru þeir ekki flestallir á leðurskóm? Og ef fjöldi ferðamanna eru tvær milljónir þá gerir það fjórar milljónir af leðurskóm (ég geri ráð fyrir að flestallir hafi tvo fætur). Og allur þessi skófatnaður flæðir hér óhindrað og er ekki sótthreinsaður um allar koppagrundir, ekki síst í sveitunum þar sem hinn tandurhreini íslenski bústofn á heima.
Svo er annað smáræði sem vert er að minnast á. Veit einhver hvort allar þær bakteríur sem ferðamenn bera með sér í iðrum sínum séu skaðlausar fyrir íslenska jörð. En ég er nokkuð viss um að þetta fólk þarf að ganga örna sinna nokkuð reglulega eins og aðrir. Þá er eins gott að frárennslismálin séu í góðu lagi hvort sem sveitarfélagið heitir Árborg eða eitthvað annað. En samkvæmt áliti veirusérfræðinga er meiri hætta á að ferðamenn bæði íslenskir og erlendir beri með sér óæskilegar bakteríur til landsins heldur en ferskt kjöt sem fer í verslanir (nema auðvitað ef fræðingurinn er félagsmaður í Heimsýn. Þá er auðvitað innflutningur á hráu kjöti frá ESB það versta).
Nú er ég jafn ráðalaus eins og flestir aðrir um hvernig helst mætti varast að ferðamenn beri óæskilega sýkla til landsins. En þó mætti láta sér detta í hug að einhverskonar útbúnaður yrði á vegi þeirra í flugstöðinni sem virkaði eins og sjálfvirk sótthreinsun. Til dæmis gæti einn gangurinn verið þannig útbúinn að á gólfinu væri tíu til tuttugu sentimetra sótthreinsivökvi sem ferðamennirnir þyrftu að vaða til þess að komast á leiðarenda. Auðvitað yrðu einhverjir fúlir yfir því að blotna í fæturna, en þeir hinir sömu yrðu þá upplýstir um að þetta væri það gjald sem þeir þyrftu að greiða til þess að komast til hins tandurhreina lands.
Síðan mætti hugsa sér einhverskonar endahreinsun í orðsins fyllstu merkingu þar sem ferðamaðurinn gengur í gegn um. En þar væri um að ræða sal fyrir enda sótthreinsunargangsins þar sem fram færi stólpípugjöf. Þar væru starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins vel græjaðir í gúmmíhönskum með svuntur – svona eins og starfsmenn í fiskvinnslu – og gæfu hverjum og einum ferðamanni góða innspýtingu upp í afturendann til hreinsunar. Til hagræðis væri auðvitað gott að fólk væri komið úr að neðan og biði rólegt og berrassað eftir að röðin kæmi að því. Og lokaniðurstaðan yrði svo sú að út úr Leifsstöð streymdu útspúlaðir og tandurhreinir Kínverjar með fullar hendur fjár. Mér finnst þessi hugmynd vera gott innlegg fyrir næsta fund þeirra félaga á Spáni og falla fyllilega að því gáfulega efni sem þar eru rædd.
Og fyrst ég er farin að leggja til fundarefni fyrir þá félaga er fleira á sveimi yfir okkar tandurhreina landi í orðsins fyllstu merkingu sem ber að varast. Þarna er ég auðvitað að tala um þessar þúsundir eða jafnvel milljónir af fiðruðum kvikindum sem fljúga til Íslands á hverju vori og hafa aldrei heyrt talað um ferðapassa eða búsetuleyfi. En fyrir stuttu var skýrt frá því að þrestir, sem er ein af þessum tegundum, hafi borið með sér í stórum stíl skorkvikindi sem kallast skógarmítill. Það kvikindi er vel sýnilegt með berum augum sem leiðir hugann að því hvort eitthvað meira sé þar að finna sem ekki sést með berum augum. Þessi fiðurfénaður ryðst svo hér inn í okkar hreina land eftir að hafa dvalist langdvölum á túnum eða engjum Evrópu og finnst ekkert sjálfsagðara. Ég er auk þess nokkuð viss um að þessi kvikindi hafi fundið sína fæðu í þeim úrgangi sem húsdýrin á þessu svæði hafa skilað frá sér, án þess að velta því nokkuð fyrir sér hvort einhverjar bakteríur væri þar að finna. Síðan kemur þetta í stórum hópum og dreifir sér á hin tandurhreinu tún á Íslandi þar sem nýfæddu lömbin leika sér. Virðingarleysið er algjört, þetta drullar bara á grænu stráin sem eru að kvikna á túnunum og segir dírrindý. Og þótt ég sé gjörsamlega ráðalaus um varnir á sýklaberandi farfuglum þá efast ég ekki um að þeir félagar á Spáni taki málin föstum tökum og haldi fund. Þeir gætu í leiðinni gætt sér á spænsku nautakjöti og skolað því niður með þarlendum bjór.
En svo ég víki aftur að þeim tíma sem ég sá fréttina af þeim félögum og fundinum á Spáni um hráa kjötið þá má ég til með að segja frá kunningja mínum sem sat við hliðina á mér og sá fréttina líka. Fyrst þarf ég að taka það fram að þessi kunningi minn er dálítið óheflaður og liggur ekki á sínum sterku skoðunum. Hann getur jafnvel stundum verið hálfgerður ruddi í orðalagi sem er auðvitað andstætt við þá kurteisi sem ég sýni af mér svona dagsdaglega. En akkúrat þarna þegar ég virti myndina fyrir mér af þeim félögum á fundinum á Spáni og hugsaði með mér hvað við Íslendingar ættum gott að eiga svona hetjur á erlendri grundu, þá heyrði ég við hliðina á mér þar sem þessi kunningi minn dró djúpt andann og benti með fingri á myndina og var greinilega reiður. „Þarna sérðu gott dæmi um hvað hægt er að kalla æðsta stig af þjóðrembu. Þarna eru tveir yfirstéttaplebbar frá Íslandi, sem nota bene eru líka þekktir fyrir hatur á Evrópusambandinu, búnir hreiðra um sig í því ágæta sambandi og vara við neyslu á matvörum sem þaðan kemur. Hvernig heldur þú að Íslendingar myndu taka því ef það fréttist að hópur af breskum ferðamönnum myndi funda á Hótel Borg til þess að vara landa sína við neyslu á íslenskum fiski? Og ekki nóg með það, heldur væri í hópnum fyrrverandi ráðherra úr bresku ríkisstjórninni. Ég er nokkuð viss um að íslenska pressan færi á hliðina og virkir í athugasemdum myndu heimta að þetta helvítis pakk yrði rekið úr landi hið snarasta.“
Og þessi kunningi minn var ekki aldeilis hættur heldur færðist frekar í aukanna við hverja gusu sem valt upp úr honum. Og hann talaði líka um fávita sem tækju eitthvert mark á þessari froðu sem kæmi frá þessum fundarhöldum þarna á Spáni. Hann meira að segja líkti þeim sem tryðu þessu við einhverja sögupersónu úr gamalli spænskri sögu en þar segir frá einhverjum gufurugluðum kalli sem berst við vindmyllur og þjóninum hans sem var bjáni.
Þegar hér var komið sögu var þessi kunningi minn orðin svo æstur og orðljótur að ég sá mig knúinn til þess að stoppa hann af með einhverju móti. Ég klappaði honum sefandi á handlegginn og spurði rólega hvort við ættum ekki að tala um eitthvað annað, til dæmis þriðja orkupakkann. Eftir á að hyggja voru þetta mikil mistök, því það sem á eftir kom er alls ekki prenthæft. Þess vegna verð ég að hætta þessum skrifum snarlega.