Sæl Katrín.
Ástæða þess að ég skrifa þér er ummæli þín í kvöldfréttum Stöðvar 2, þann 11. maí síðastliðinn. Í umræddri frétt var fjallað um það að nú hafa tvær tillögur að nýjum stjórnarskrárgreinum verið settar í svokallaða Samráðsgátt. Um þessar tillögur ætla ég ekki að fjalla hér heldur orð þín í lok fréttarinnar þar sem þú sagðir: „Á meðan þingið er stjórnarskrárgjafinn í þessu landi, þá er mikilvægt að þingið nái sem bestri samstöðu um breytingar á stjórnarskrá“.
Viðvörunarljós hafa blikkað í hausnum á mér frá því ég heyrði þig segja þetta og ég hef satt að segja varið síðustu sólarhringum að nokkru leyti í það að skoða fréttamiðla og fésbókarsíður í þeirri von að þetta hafi verið mismæli sem þú hafir ákveðið að leiðrétta um leið og þú áttaðir þig á þeim. Sú von hefur enn ekki ræst, og þetta bréf er því lokatilraun mín til að ná þeim hamingjuendi.
Ég veit að þú ert upptekin svo ég ætla að koma mér að efninu strax: Nei, kæra Katrín. Þingið er ekki stjórnarskrárgjafinn. Það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Í ljósi þess að engin leiðrétting hefur borist, hef ég af því hyldjúpar áhyggjur að í ummælunum kristallist sá skýri vandi sem stendur Íslendingum fyrir þrifum varðandi það að eignast sína eigin stjórnarskrá.
Auðvitað er það óumdeilt að gildandi stjórnarskrá verður ekki breytt nema með því að Alþingi samþykki breytingar tvisvar og með almennum þingkosningum á milli. Það er hins vegar önnur óumdeild stjórnskipuleg staðreynd að þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn enda stafar allt vald, sem þið opinberir starfsmenn hafið hverju sinni, frá þjóðinni. Þessi staðreynd er grundvallarundirstaða lýðræðisskipulagsins.
Stjórnarskrá er ólík öðrum lögum að því leyti að hún er sjálfur samfélagssáttmálinn. Grundvallarlög þjóðar sem, í krafti fullveldis síns, rammar inn heimild til beitingar ríkisvalds, verkaskiptingu á milli valdhafa og síðast en ekki síst um mörk valdsins. Það er á þessum forsendum sem stjórnarskrá verður ekki breytt með sama hætti og almennum lögum. Það er einnig á þessum forsendum sem það liggur ljóst fyrir að valdhafar hverju sinni eru vanhæfir til að fjalla um mörk og meðferð valdsins sem þeir fara sjálfir með.
Ég lofaði að hafa þetta stutt svo ég ætla að hnykkja á máli mínu með tveimur stuttum tilvísunum. Sú fyrri er úr bók Bjargar Thorarensen, prófessors í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands:
„Hugmyndin um beint lýðræði tengist öðrum undirstöðum stjórnskipunarinnar, einkum sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Með því er viðurkennt að þótt stjórnskipunin sé reist á fulltrúalýðræði skuli þjóðin taka beina og milliliðalausa afstöðu til tiltekinna mála, sem lúta að mikilvægum hagsmunum eða um ákveðin mál, svo sem stjórnarskrárbreytingar, enda sé þjóðin sjálf stjórnarskrárgjafinn.“ [áherslubreytingar mínar]
Síðari tilvísunin er í orð Ragnars Aðalsteinssonar sem er reynslumesti starfandi lögmaður hér á landi. Ragnar er sérfróður um mannréttindi og stjórnskipun og sagði í tengslum við umræðu um orð þín í þessum fréttatíma:
„Það ætlar að ganga illa að útskýra fyrir meirihlutanum á Alþingi að eitt af hlutverkum stjórnarskrár er að skilgreina það vald sem landsmenn framselja valdhöfunum. Valdhafarnir skilgreina ekki það vald. Landsmenn hafa ekki framselt Alþingi valdið til að setja landinu stjórnarskrá. Lítt dugir að skírskota sífellt til hinnar konunglegu stjórnarskrár frá 1874.“
Frá lýðveldisstofnun hefur þjóðin aðeins einu sinni verið spurð með beinum hætti um afstöðu sína til stjórnarskrár. Það var í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 þegar 2/3 kjósenda sögðu að leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla var sú áttunda í sögu okkar þjóðar og sú eina sem hefur verið hunsuð af valdhöfum.
Nú er kominn tími til efnda. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn en ekki þingið, og þjóðin hefur talað. Lögfesting nýju stjórnarskrárinnar er friðsæl aðferð til að auka heill og hamingju þessarar þjóðar og við þessari grundvallarkröfu þjóðarinnar ber þinginu skylda til að bregðast með því að leggja hana til grundvallar fyrir stjórnarskrá Íslands.
Mér þykir mikið til þín koma sem manneskju. Þess vegna trúi ég því að leiðin sem þú hefur valið í stjórnarskrármálinu sé sú sem þú telur heppilegasta til þess að ná fram einhverjum afmörkuðum stjórnarskrárbreytingum, á þessu kjörtímabili með von um það að starfinu verði haldið áfram á því næsta. En ég vil nota það tækifæri sem hér gefst til að biðja þig að breyta af þessari leið. Sagan hefur sýnt að Alþingi er ófært um heildarendurskoðun á stjórnarskrá landsins auk þess sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að hann telji slíka heildarendurskoðun óþarfa. Í öllum flokkum er fólk sem vill fá nýja stjórnarskrá og skoðanakannanir sýna að meiri hluti þjóðarinnar telur mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá sem fyrst. Við getum ekki lengur búið við það að stjórnmálaflokkar sem hafa ekki meirihluta þjóðarinnar á bak við sig komi í veg fyrir það að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu nái fram að ganga.
Því segi ég í einlægni: Láttu slag standa Kata og leyfðu kjósendum í það minnsta að sjá hvaða þingmenn það eru sem munu greiða atkvæði gegn lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar, og þar með gegn því að þjóðin fái vilja sínum framgengt sem stjórnarskrárgjafi.